09 október 2008

Mikilvægustu hlutirnir í lífinu eru ekki hlutir

Ég er gjörsamlega uppgefin eftir að hafa fylgst með fréttaflutningi undanfarinnar viku. Það dregur mann hreinlega niður að lesa skoðanir og upphrópanir fólks um menn og málefni. Þrátt fyrir að þetta séu sögulegir tímar og það sé nauðsynlegt að fylgjast með því sem er að gerast þá ætla ég núna að draga línuna við þá sem hafa hóflegasta fréttastílinn. Hætta að lesa miðla þar sem misgáfað fólk segir skoðun sína á málefnum líðandi stundar og þar sem bölsýnin er alsráðandi. Það er lítið sem ég get gert til að breyta því ástandi sem er á Íslandi í dag, ekki frekar en fólkið sem bölsótast yfir því á netinu. Svo ég ætla bara að taka Pollýönnu á þetta. Leika gleðileikinn og pósta inn daglega einhverju jákvæðu, fallegu spakmæli eða einhverju sem ég get verið þakklát fyrir. Mikilvægustu hlutirnir í lífinu eru nefnilegast ekki hlutir.

Ég er þakklát fyrir það að hafa tækifæri til þess að mennta mig í höfuðborg Evrópu með þeim tækifærum sem því fylgir. Þrátt fyrir að það kreppi að og maður þurfi að forgangsraða öðruvísi þá eru það samt sem áður forréttindi að geta nýtt sér svona tækifæri. Svo það er sátt og þreytt stúlkukind sem leggst á koddann í kvöld.

Sá sem rís á fætur í hvert skipti sem hann fellur stendur uppréttur að lokum.

Engin ummæli: