21 október 2008

Algjört unglamb

Það er allt fínt í fréttum héðan úr Brussel. Afmælisdagurinn var ljúfur og ánægjulegur og svei mér þá ef ég yngdist ekki um eitt árið í viðbót. Fékk íslenskt nammi og pítusósu frá Lindu og Soffíu og það er óhætt að segja að gjöfin hafi slegið í gegn. Núna japla ég á íslensku sælgæti og fæ mér almennilega pítu þegar ég ætla að gera eitthvað spari. Skólinn er kominn á fullt og ég sé fram á að hafa meira en nóg að gera á þeim vígstöðvum þangað til ég kem heim um jólin. Það bætist svo alltaf við það sem er á stefnuskránni þetta haustið. Næst á dagskránni eru Mugison tónleikar hérna í Brussel 15. nóvember. Verður fínt að fá smá skammt af vestfirskri orku beint í æð! Svo eigum við Linda alltaf eftir að finna tíma til að skreppa til Amsterdam og fara á jólamarkaðinn í Köln. Möst að gera það fyrir jólin.

Íbúðin mín er svo öll að verða kósý. Bolungarvíkurmyndir komnar á veggina og bara ogguponsulítið smotterí sem mig langar að gera í viðbót til þess að fá meiri hlýju. Fer í Ikea við tækifæri og bjarga því. Annars er gjaldmiðillinn á Hótel Erlu íslensk kokteilsósa og pítusósa. Myndi ekki slá hendinni á móti íslensku nammi heldur og það fást mörg stig í kladdann fyrir þá sem koma með harðfisk og smér. Fyrir þá sem vilja eðaltreatment er gjaldið svo Stella í orlofi á DVD. Það fást náttla ekki betri dílar á gistingu á þessum síðustu og verstu ;-)

Heimþráin hefur soldið verið að segja til sín. Þó svo að það sé yfirdrifið nóg að gera og fullt af skemmtilegu fólki í kringum mann þá er margt sem maður saknar að heiman. Væri alveg til í íslenska náttúru og íslenskt vatn! Skólafélagarnir fá auðvitað að sjá myndir að heiman. Ég er einstaklega hlutdræg og Bolungarvík og Vestfirðir eru þar í aðalhlutverki. Hafa fengið skínandi móttökur að sjálfsögðu. Einn skólafélaginn sagði við mig um daginn að Ísland þyrfti enginn lán til að bjarga efnahagnum, bara senda mig sem víðast með myndir að kynna land og þjóð og ferðamennirnir myndu streyma til landsins. Það er allavegana einn skólafélaginn á leið til Íslands í nóvember svo þetta er allt í áttina hjá mér.

Ég hef því ekki orðið fyrir því að heyra illa talað um Íslendinga hérna úti. Fólk er spurult um ástandið, finnst það alveg skelfilegt og vorkennir okkur Íslendingum. Áttar sig samt á því hvað Íslendingar eru magnað fólk og hvað það er merkilegt að kynnast þeim. Eins og einn gaurinn sagði við okkur Soffíu og Lindu í partýi á laugardaginn: ,,Vá, ÞRÍR ÍSLENDINGAR! Ég hef aldrei hitt svona marga Íslendinga í einu!". Segið svo að það séu ekki sóknarfæri í öllum glundroðanum.

Látum þetta gott heita að sinni. Bestu kveðjur heim.

1 ummæli:

Katrín sagði...

Íslenskt nammi er gullið mitt- á þrista, kúlusúkk og lakkrísdraum inni í skáp. Um að gera að fá sér mola þegar heimþráin gerir vart við sig! Gott að það gengur vel í skólanum og að íbúðin er að verða kósý :)

K8