Komin heim frá Rotterdam
Þetta var frábær ferð þrátt fyrir tap íslenska liðsins og engin smá upplifun að horfa á hollenska liðið spila. Okkar menn stóðu sig líka vel og það var svekkjandi að þeir skyldu ekki hafa náð að skora eitt mark. Þeir áttu það svo sannarlega skilið. Við fengum sæti á mjög góðum stað beint fyrir aftan annað markið. Sáum því fyrra mark Hollendinga mjög vel og góðar tilraunir íslenska liðsins til að skora í seinni hálfleik líka. Íslendingarnir á vellinum voru náttúrulega algjörlega kaffærðir af þeim hollensku sem studdu sitt lið dyggilega. Frábært að upplifa stemninguna hjá þeim. Við Íslendingar þyrftum að koma okkur upp svona áberandi lit á landsliðin okkar og stuðningsmennina. Eitthvað sem sker sig alltaf úr eins og appelsínuguli liturinn hjá Hollendingum. Þeir voru margir hverjir kostulegir og hefðu verið flottir í dalnum á Þjóðhátíð!
Það setti smá strik í reikninginn að þegar Hollendingar skoruðu fyrra markið tóku tveir miðaldra karlmenn í íslenska hópnum upp flagg sem þeir höfðu búið til og á stóð: You might win the game but we have your money from Icesave. Þrátt fyrir að ég sjái svo sem húmorinn í þessu þá var þetta hvorki staðurinn né stundin fyrir djók af þessu tagi og flaggið var snarlega fjarlægt af vallarstarfsmönnum. Sumir Íslendingarnir höfðu áhyggjur af því að við yrðum fyrir aðkasti á vellinum vegna Icesave málsins í Hollandi enda verður það að segjast eins og er að ímynd landsins hefur skaðast svaðalega þessa seinustu viku og Íslendingar ekki auðfúsugestir allstaðar. Ég veifaði þó mínu íslenska flaggi af stolti og Hollendingar komu prúðmannlega fram við okkur á vellinum. Eitthvað sem sumir af íslenska hópnum hefðu mátt taka sér til fyrirmyndar...
En jæja, ætla að koma mér í bólið. Reyni að henda inn myndum á Fésbókina og jafnvel á bloggið á morgun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli