Gleymdur hópur
Það er búið að stofna grúppu á Facebook fyrir íslenska námsmenn erlendis. Við heyrum það í fjölmiðlum að Seðlabankinn segir að millifærslur á milli landa séu komnar í lag og SÍNE sagði okkur það á föstudaginn að þetta kæmist allt í lag fljótlega eftir helgi. Það kannast hins vegar enginn af þeim námsmönnum sem eru í grúppunni að millifærslurnar séu komnar í lag. Ekki einu sinni þeir sem eru í viðskiptum við Landsbankann en þar áttu millifærslur að vera komnar í lag fyrir viku. Ég sótti um símgreiðslu til skilanefndar Kaupþings á mánudaginn. Þurfti að veita ítarlegar upplýsingar af hverju ég væri að óska eftir símgreiðslu, til hvers ég ætlaði að nota peninginn og að ég væri námsmaður. Enda er búið að gefa það út að námsmenn erlendis séu í forgangi þegar kemur að erlendum millifærslum. Ég hef ekkert heyrt frá bankanum síðan ég sótti um og ég hef ekki hugmynd um hvað það verður langt þangað til að ég get fært eitthvað af peningunum mínum út.
Pabbi gat reddað mér fyrir horn í gegnum Sparisjóðinn heima en það eru ekki allir svo heppnir og eins og kemur fram á Facebook þá eru sumir orðnir ansi svangir. Maður er farinn að spurja sig hvar okkar málsvarar séu. Hvort að stjórnvöld á Íslandi séu búin að gleyma kjósendum sínum sem eru í námi erlendis. Það er alveg ljóst að yfirlýsingar um að millifærslur á milli landa séu komnar í lag eiga ekki við rök að styðjast. Hvernig væri að ganga í málið af dugnaði og koma þessu í lag? Fólk er virkilega orðið svangt og það er ekki eins og við getum tekið slátur...
1 ummæli:
Sæl Erla mín
Innilegar hamingjuóskir með afmælið þann 18. Vonandi hefuru það gott.
Bestu kveðjur frá okkur öllum
Kolla og krakkarnir
Skrifa ummæli