06 október 2008

Áfram Ísland...

Ég held að maður hafi sem fæst orð um atburði dagsins heima á Íslandi. Verð samt að pirra mig yfir þjónustu Ríkisútvarpsins þegar kemur að útsendingum á netinu. Það er hreint óþolandi að þegar maður horfir á fréttir og Kastljós á netinu að það sé klippt á útsendinguna þegar henni á að vera lokið samkvæmt áður auglýstri dagskrá þrátt fyrir að þátturinn sé enn í útsendingu. Sérstaklega þegar dagarnir eru jafn viðburðaríkir og þeir hafa verið undanfarna viku og því oft heitar umræður sem eru í gangi í Kastljósinu þegar klippt er á útsendinguna. Ég trúi því ekki að það sé svo mikið mál að kippa þessu í liðinn.

Til að ljúka þessu á gleðilegri nótum þá má ég til með að upplýsa það að ég er að fara til Rotterdam á laugardaginn til að horfa á leik Íslands og Hollands í knattspyrnu karla. Það fer rúta af Íslendingum á leikinn héðan frá Brussel og ég á von á góðri skemmtun. Þrátt fyrir að Hollendingar eigi nú eflaust eftir að eiga betri dag en við þá held ég að það sé við hæfi að ljúka færslunni á orðunum: Áfram Ísland!

Engin ummæli: