Vangaveltur á rigningardegi í Brussel
Þá er rólegheita helgi að líða undir lok. Ég dreif mig í Ikea í gær og er afskaplega fegin að því sé lokið. Hef aldrei haft yndi af því að versla í búðum yfirfullum af fólki - eða af stöðum yfirfullum af fólki. Fékk allt sem mig vantaði í Ikea nema myndir á veggina. Plakötin sem voru í boði þarna voru einfaldlega ekki minn stíll. Mig langar líka mest að hafa myndir að heiman á veggjunum, íslenska náttúru eins og hún gerist best. Það fer lítið fyrir svoleiðis hér... Þannig að ef þú átt flotta mynd sem myndi sóma sér vel á veggnum hjá mér í Brussel þá væri ég ekki lítið þakklát ;-)
Á morgun verður almennt verkfall hér í Brussel og koma allar almenningssamgöngur til með að liggja niðri. Ég á að mæta í frönsku klukkan 9 í fyrramálið og þarf víst að leita annarra leiða til að koma mér í skólann. Það er blóðugt að þurfa að taka leigubíl fyrir eina kennslustund svo ég er búin að vera að skoða á korti hvaða leið ég gæti labbað. Planið var að fá sér göngutúr í dag og sjá hvað þetta tekur langan tíma því tilhugsunin um að villast um Brussel á mánudagsmorgni er ekki heillandi. Hér rignir hins vegar eins og hellt væri úr fötu og ég er ekki ennþá búin að hafa mig af stað í göngutúrinn. Við sjáum hvað setur þegar líður á daginn. Ef að rigninginn verður alveg lóðrétt er lítið annað hægt en að taka upp regnhlífina og rölta af stað. Um leið og ég er búin að hlaða ipodinn....
Það hefur ekki verið hægt að sjá það á götum Brussel að það sé fjármálakreppa í heiminum. Miðað við fólksfjöldann í verslunargötunum þá er allavegana ekki samdráttur í verslun hérna á svæðinu. En það skilst mér að sé líka málið heima á Íslandi. Fólkið hópaðist í Korputorg þrátt fyrir fréttir um að allt væri á hausnum. Það er dáldið súrrealískt að fylgjast með fréttaflutningnum í fjarlægð. Múgæsingurinn og móðursýkin er allsráðandi. Ráðamenn virðast vera eins og höfuðlaus her sem veit ekkert hvað hann á af sér að gera og trúin á getu þeirra er takmörkuð. Það sárvantar líka hæfan leiðtoga í stjórnina. Það geta allir komið fram og sagt að allt sé í gúddí fíling þó svo að yfir þá rigni eld og brennisteini. Það eru hins vegar ákveðnir karakterar sem geta fetað þá örmjóu línu að halda ró í mannskapnum og gera það sem þarf að gera. Vera sú föður/móðurlega ímynd sem þjóðin þarf þegar þrengir að. Það er ekki að sjá að slíkur karakter sitji í ríkisstjórn Íslands í dag.
Það verður fróðlegt að sjá hvaða aðgerðum verður hrint í framkvæmd eftir helgina og hvort að þær eigi eftir að breyta einhverju. Ég held að allir hljóti að vona að þær komi til með að skipta máli og skila árangri, hagsmunir allra velta á því alveg sama hvar menn standa í pólitík. Framtíðarmarkmið hlýtur svo að vera að skapa þannig umhverfi á Íslandi að það verði fýsilegur kostur að setjast þar að. Það er orðið minna mál en áður að flytja út í heim með börn og buru og nóg af frambærilegum löndum sem bjóða upp á betri lífskjör og betri aðstæður fyrir ungt fólk sem er að stofna til fjölskyldu. Ég held að margir hljóti að velta því alvarlega fyrir sér að freista gæfunnar út í hinum stóra heimi við núverandi aðstæður og það er fátt sem freistar hinna, sem eru þegar farnir, að flytja heim aftur - nema þá einna helst nálægð við fjölskyldu og vini.
Ætli það sé ekki tilvalið að hætta á þessum nótum, herða sig upp og fara út í rigninguna. Með regnhlífina í annarri og ipodinn í hinni. Verðlauna sig svo eftir góðan göngutúr með hamborgara og frönskum og restinni af íslensku kokteilsósunni sem fékk að fylgja með í töskunni þegar ég fór út.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli