Litli femínistinn
Ég var að byrja í nýjum kúrs í skólanum. Hann heitir Negotiation and Mediation og fjallar eðlilega um samningaumleitanir, friðarviðræður og þess háttar. Þetta er kennt í þremur lotum og hver lota hefst á sýningu e-s konar kvikmyndar. Í gærkvöldi sáum við heimildarmynd frá Kosovo sem fjallaði um mismunandi afstöðu kynjanna til öryggis og hvernig þau skilgreina hugtakið. Einnig var fjallað um stöðu kvenna í Kosovo og hvaða afleiðingar stríðið hefur haft á þá stöðu.
Konur í Kosovo mega ekki vera einar á almannafæri og ef fjölskyldan hefur ekki efni á því að mennta öll börnin sín þá eru það iðulega strákarnir sem fara í skóla. Stelpurnar eru hins vegar heima og sjá um heimilið. Þetta hefur skapað mörg vandamál eftir stríðið. Ekkjur eru t.d. mjög margar og iðulega ómenntaðar. Staða þeirra er óneitanlega mjög erfið þegar þær mega ekki vera einar á almannafæri og það eykur enn á erfiðleikana við að fá vinnu þegar maður er ómenntaður og á þar að auki ekki mann. Konur taka ekki þátt í friðarumleitunum í héraðinu og þær sem taka þátt í stjórnmálum eru að mestu leyti upp á punt.
Það sem situr í mér eftir kvöldið er að þegar er litið á fjölda kvenna í stjórnmálum og áhrifastöðum á Íslandi þá er staða okkar ekkert mikið betri en kvenna í Kosovo. Hlutfall kvenna á þinginu þar er um 30%, ef mig misminnir ekki er það ekki mikið hærra á Íslandi. Kona hefur aldrei verið forsætisráðherra og þrátt fyrir að við höfum átt fyrsta kjörna kvenforseta heimsins þá verður það að segjast eins og er að áhrif og völd forsetaembættisins eru ekki mikil. Konur í áhrifastöðum í þjóðfélaginu eru ekkert svakalega margar og mæta oft fordómum frá samfélaginu vegna þess að þær eru ekki nógu mikið heima með börnunum sínum. Auðvitað er grunnvinnan á Íslandi komin lengra, sérstaklega lagalega. Konur eru einnig í meirihluta þeirra sem leggja stund á háskólanám. Það á svo eftir að koma í ljós hvort að konur eigi eftir að sækjast í valdamikil og krefjandi störf í auknum mæli í samræmi við menntun sína.
Aukin menntun er lykillinn að auknum framförum. Það væri hægt að stuðla að auknum framförum og bættu samfélagi í Kosovo með því að leggja aukna áherslu á menntun kvenna. Þetta á ekki aðeins við Kosovo heldur mun fleiri lönd í heiminum. Það sem ég væri til í að vinna við það að stuðla að aukinni menntun kvenna og stuðla að fleiri tækifærum þeim til handa. Það væri draumur í dós. En ég hef næsta árið til þess að finna mér vinnu og pæla hvað mig langar til að gera. Ég er samt alveg pottþétt á því að ég er komin á rétta hillu og að ég hafi valið rétt þegar kom að því að velja mér framhaldsnám. Það er nokkuð góð tilfinning.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli