30 október 2008

Tilkynning um þjónustubreytingu á fluginu þínu

Við hjá Icelandair erum stöðugt að reyna að koma til móts við gesti okkar og kröfur þeirra. Síðustu mánuði hafa til dæmis staðið yfir umfangsmiklar breytingar á flugvélum okkar. Á þessu ári verða allar vélar Icelandair komnar með nýtt og fullkomið afþreyingarkerfi, ný og glæsileg sæti með auknu fótarými. Auk þess verður nýtt farrými komið í notkun, Economy Comfort.

Eitt af því sem breytist 1. nóvember er maturinn um borð. Við fengum Stefán Viðarsson á Hilton Reykjavík Nordica til að setjast yfir nýjan matseðil með okkur. Niðurstaðan er matseðill sem við hjá Icelandair erum mjög stolt af. Í stað staðlaðra máltíða verður gestum á Economy farrýminu boðið upp á að velja milli nokkurra tegunda af mat á vægu verði. Við höldum einnig lága verðinu á Economy með því að gefa gestum okkar val.

Um leið og við segjum þér af þessum breytingum þá viljum við segja þér að þar sem þú keyptir farmiðann fyrir 1. október er í boði samloka þér að kostnaðarlausu í flugi þínu.Við vonumst til að ferðin með okkur verði ánægjuleg og þú njótir þeirra nýjunga sem við bjóðum upp á.

Ég fékk þennan tölvupóst frá Icelandair í dag. Fékk fyrir hjartað þegar ég las fyrirsögnina því ég hélt að það væri verið að gera breytingar á fluginu sjálfu og það tímasetningin myndi þá ekki henta lestinni frá Brussel. Í staðinn er verið að segja mér það að nú þurfi maður að kaupa matinn um borð hjá Icelandair sem hefur verið innifalinn í verði farmiðans hingað til. En af því ég var svo forsjál að kaupa miðann heim um jólin fyrir 1. október fæ ég fría samloku! Mér finnst ég ekkert smá heppin.....

Engin ummæli: