01 október 2008

Pardon my French

Fyrsti frönskutíminn var í gær. Það voru svo sem engin átök, bara skipt niður í hópa eftir getu. Svo fengum við byrjendurnir að sitja eftir og fengum smá tilsögn í framburði. Ég veit ekki hvort að minn framburður sé afar íslenskur en ég var alltaf með einhver aukahljóð sem maddaman var ekki sátt við. Mér var farið að líða eins og Joey í Friends undir restina. Fu flu fla fleeh... En þetta kemur víst allt með kalda vatninu.

Ég fór að versla skólabækur í dag og það var kannski lán í óláni að tvær bækur af þremur voru ekki til og koma ekki fyrr en eftir 10 daga í fyrsta lagi. Maður krossar allavegana fingur að gengið á þessari blessuðu Evru verði búið að lækka þá. Annars gerir maður allt sem maður getur til að spara og lifa helst bara á vatni og brauði á meðan gengið er svona svaðalegt. Þó svo ég hafi verið búin að safna mér pening sem átti að duga mér til framfærslu í þó nokkurn tíma áður en ég fór út þá eru þeir peningar nánast að verða verðlausir hérna á meginlandinu. En svo maður horfi nú á björtu hliðarnar þá gæti ég verið í verri málum og þetta á nú vafalítið eftir að reddast allt saman. Það verður svo að koma í ljós hvort að íslenskt efnahagskerfi bjóði mann velkominn aftur heim að ári...

Lífið er að komast í fastar skorður hérna í stórborginni. Stundaskráin er nokkurn vegin klár og lærdómurinn að komast á fullt. Það þarf ekki að spurja að því að ég ætla mér að rúlla þessu upp og standa mig með sóma. Ég á enn eftir að láta prenta fyrir mig myndir af mínum nánustu sem fá að fara í ramma og upp á veggi hjá mér og fara í Ikea eftir einhverju smotteríi. Mér finnst vanta dálitla hlýju í íbúðina og það kemur vonandi þegar það er komið eitthvað fallegt á veggina og ég er búin að gera þetta persónulegra.

Ég hef verið að versla allt í matinn í hálfgerðri 10-11 verslun þar sem það eru einu matvörubúðirnar nálægt mér. Ég hef verið að gúgla hvar ég kemst í ódýrari verslun með meira úrvali og þær eru allar aðeins í burtu frá mér. Ég skoðaði eina svoleiðis á einni lestarstöðinni niður í bæ í dag og stóð mig að því að skoða af áhuga svona langömmukerru til þess að nota þegar ég versla í matinn. Pokarnir hérna eru óttalegt drasl ef þeir eru í boði á annað borð og svo er þungt að bera poka langar leiðir svo það getur verið gott að draga bara kerru á eftir sér. Þrátt fyrir að svona kerrur séu mjög praktískar og afar hentug lausn fyrir mig þá finnst mér þær soldið langömmulegar. Ég man að Magga amma átti svona kerru en amma hefur aldrei átt svona svo ég muni til. Kannski þess vegna sem mér finnst þær langömmulegar en ekki ömmulegar...

En jæja, ég er orðin hálfþreytt eftir daginn og ætla að halla mér yfir imbanum. Er með kveikt á Liverpool - PSV í Meistaradeildinni og það er aldrei að vita nema ég nái að skilja eitthvað af lýsingunni sem er á flæmsku að þessu sinni...

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl, ég er búin að fatta alheimsplottið í sambandi við okkar dauðvona krónu. Þetta er allt þér að kenna.
þú ákvaðst að tékka á skóla í Brussel í mars = krónan tók fyrstu dýfuna. Þú fórst til Brussel í byrjun sept= dýfan númer tvö hjá krónunni. Þú fórst að kvarta yfir krónunni á blogginu = all svakaleg dýfa númer þrjú. Í Guðanna bænum, ekki gefa það út að þú sért sest að úti, það fer alveg með krónuræfilinn.

Ergo = krónuhrunið skrifast á Erlu K. frá Bolungarvík. Ef ég væri ekki Íslendingur þætti mér skemmtilegt að þekkkja svona áhrifamikla manneskju. þar sem ég bý heima finnst mér þú ekki skemmtilegt akkúrat núna.

Erla Perla sagði...

Fyrirgefðu Nonni minn að hafa verið að væflast þetta út. Við skulum sjá hvort að krónan lagist ekki þegar ég kem heim um jólin.

Nafnlaus sagði...

ok, hvað varstu að gera í dag?? hún fór niður fyrir 160 kallinn ....

Erla Perla sagði...

Hehehe, believe it or not þá var það fjórfaldur fyrirlestur í International Economics....

Nafnlaus sagði...

hehehe...langömmukerra!!! er í kasti... sé þig alveg í anda röltandi í Brussel dragandi á eftir þér langömmukerru....ef þú færð þér eina slíka ekki gleyma svona teygju með krókum.
Hafðu það gott Erla mín.
Kveðja úr víkinni.
Ella