Jæja, þá er maður sestur með tölvuna fyrir framan sjónvarpið. Það er stelpukvöld á Stöð 2 og horfir maður náttúrulega. Það er samt eitt sem ég hef athugavert við miðvikudagskvöldin í sjónvarpinu. Í fyrsta lagi er Bráðavaktin hætt á RÚV og Einn, tveir og elda á Stöð 2. Ekki það að ég hafi horft á Einn, tveir og elda en að setja Sigga Hall inn í staðinn.... Á stelpukvöldi... Fyrst það verður að vera kokkaþáttur á þessum tíma, var þá ekki hægt að finna einhvern skemmtilegan og flottan.... Ég meina Siggi Hall er ekki mikið fyrir augað, hann er kannski stundum hallærislega skemmtilegur - þó svo það sé meira að maður sé að hlægja að því hvað hann er eitthvað ömurlegur greyið. Hann er langt frá því að vera eitthvað flottur - minnir mann frekar á illa krumpaðan hund.. En jæja, hann verður væntanlega ekki endalaust á skjánum greyið...
Ég var að horfa á fréttirnar á RÚV áðan. Þar var verið að fjalla um ættleiðingar erlendis frá. Verið var að fjalla um að búið væri að ættleiða 140 börn frá Indlandi og rætt við hjón sem ættleiddu barn þaðan í vetur. Nú eru hvað 25 ár held ég síðan var byrjað að ættleiða börn frá erlendum löndum til Íslands og þetta þykir ekkert tiltökumál þannig lagað séð í dag að ættleiða barn. Fréttamaðurinn spurði samt foreldrana hvort þau kviðu því að ala upp barn af erlendum uppruna á Íslandi... Ég verð að viðurkenna að ég varð hissa þegar ég heyrði þessa spurningu. Hún hefði kannski verið skiljanleg fyrir svona 20 árum síðan en kommon - er ekki komið árið 2003?? Ættleiðingar hafa reyndar tíðkast óvenju mikið í mínu umhverfi. Nú er mamma ættleidd og systir hennar, svo ættleiddi góð vinkona mömmu börn frá Sri Lanka og Indlandi. Svo var amma náttúrulega ættleidd og eitthvað af frændfólki mínu. Ég hef því kannski frjálslegri skoðanir á þessum málum en margir aðrir, en samt finnst mér þetta alveg fáránlegt. Ég meina þau börn sem hafa verið ættleidd hingað til landsins eru jafn miklir Íslendingar og við hin sem erum fædd hérna. Fordómar gagnvart þessu í samfélaginu eru ekki miklir. Að sjálfsögðu eru alltaf einhverjir afturhaldsseggir sem eru á móti öllu svona en það á samt ekki við um samfélagið í heild sinni. Maður hefur ekki orðið var við annað en að fólk samgleðjist pörum sem eignast langþráð börn með þessum hætti.
Í fyrrakvöld byrjaði að snjóa... Og það bara snjóaði og snjóaði.. Núna er allt orðið hvítt. Ég sem var alveg orðin sátt við það að það væri bara komið vor. Maður hefði samt svo sem getað sagt sér þetta sjálfur. Það kemur aldrei vor fyrir páska... Þannig að ég bíð bara spennt eftir páskunum því ég er alveg viss um að þá komi vorið. Þá get ég vonandi farið að vera sumarleg og sæt. LOKSINS :)
Ég er að lesa bókina Peð á plánetunni jörð með 8. bekk. Þar er sá boðskapur að í ástum skipti útlitið ekki máli heldur karakterinn. Ég fór þá náttúrulega að pæla í því hvað mér fyndist um þessi mál og ég verð að viðurkenna það að mér finnst útlitið skipta máli. Ég meina, það verður að vera eitthvað sem laðar mann að manneskjunni til að byrja með. Ef gaurinn er hins vegar sætur og alveg hryllilega leiðinlegur þá fer sjarminn nú reyndar fyrir lítið. Ég er samt ekki á því að einhver ljótur gaur geti orðið alveg rosalega sjarmerandi bara af því að hann er skemmtilegur. Sumt fólk sem er ekkert rosalega myndarlegt hefur samt oft mikinn kynþokka og hann gerir það fallegt. Þá er ég eiginlega komin í hring... En samt ekki. Það verður að vera ákveðin heildarpakki til þess að dæmið gangi upp og maður laðist að einhverjum. Það er ekki nóg að vera sætur og dumb i hovedet, og heldur ekki að vera bara skemmtilegur. Þetta verður einhvern vegin allt að mynda heildarpakka. Þannig að já, útlitið skiptir máli - þó ekki öllu máli..
Jæja, ég held að þetta sé orðið ágætt hjá mér. Siggi Hall er búinn á Stöð 2 þannig að ég get farið að horfa núna..
Engin ummæli:
Skrifa ummæli