31 mars 2003

Ég var að koma heim af fyrirlestrinum hans Stefán Karls. Þetta er ekkert smá magnað að hlusta á hann. Ég var sammála honum í einu og öllu. Ég er viss um að margir af þeim sem mættu þarna fengu dálítið sjokk enda eflaust með mjög staðlaðar hugmyndir um það hvað einelti sé og hvernig beri að taka á því. Hann tók þann sniðuga pól í hæðina að benda foreldrum á þeirra ábyrgð á börnunum sínum. Að börnin læra það sem fyrir þeim er haft - heima hjá sér miklu frekar heldur en í skólanum. Ofdekur sem form af vanrækslu er nefnilegast nýjasta vandamálið á Íslandi í dag. Fólk má ekkert vera að því að sinna börnunum sínum. Það pælir ekki einu sinni í því sem er verið að ræða fyrir framan þau. Enda veit maður skoðanir margra foreldra barnanna sem maður er að kenna án þess að tala nokkurn tíma við þá. Hann benti líka á það að krakkarnir eru ekki eins vitlausir og margir halda. Það er bara fullorðna fólkið sem kemur fram við þau eins og þau séu eitthvað treg. Hann tók líka þá foreldra fyrir sem stjana undir rassgatið á börnunum sínum eins og þau séu eitthvað heilög og tók þá dæmi sem ég hef aldrei skilið. Hvað er dæmið með foreldra sem sjá nauðsyn í því að keyra börnum sínum í skólann - í Bolungarvík?!?!? Það þykir sjálfsagt mál að keyra og sækja börnin í skólann - í bæ þar sem maður er í mesta lagi 20 mínútur á milli staða! Alla mína skólagöngu var ég aldrei keyrð í skólann og þrisvar sinnum keyrð heim. Einu sinni ældi ég í skólanum og taldist því löglega veik, þegar afi dó var ég sótt og einu sinni var svo kolvitlaust veður að við vorum send heim. Siggi hennar Þóru - sem bjó við hliðina á okkur - keyrði okkur heim. Mamma hefði hlegið að mér ef ég hefði fengið að hringja heim og beðið um að vera sótt eða eitthvað álíka. Í skólanum í dag hringir meirihlutinn af krökkunum í foreldra sína á skólatíma til að láta sækja sig eða koma með eitthvað að heiman. Ég held að þetta sýni að það er komin ný kynslóð af foreldrum sem heldur sig, því miður, vera að gera börnunum sínum greiða með því að snúast í kringum þau og gera allt fyrir þau. Kannski út af því að þau voru ekki að fá neitt upp í hendurnar þegar þau voru að alast upp og þau vilja gera akkúrat öfugt við foreldra sína án þess að gera sér grein fyrir hvað þau eru að gera börnunum. Það er ekki skrýtið að það er alltaf verið að tala um aukin agavandamál í skólum.

Jæja, varð bara að koma þessu frá mér. Held áfram með þetta á morgun.

Engin ummæli: