18 mars 2003

Jæja, þá ætla ég að láta reyna á röfl-hæfileikann minn sem allir eru að tala um að ég hafi.. Ég á reyndar að vera að vinna en er einhvern vegin ekkert að nenna því. Er að skipuleggja kjörbókarlista hjá 8. og 9. bekk. Ætla að fara að kenna þeim að skrifa ritgerð og meta góðar bókmenntir - eða eitthvað..

9. bekkur er að vinna verkefni hjá mér um Bolungarvík í tengslum við bók sem þau eru með í íslensku. Þau eiga að ,,selja" heimabyggðina sína, þe. búa til kynningu á henni sem myndi laða fólk hingað. Ég reyndi að benda þeim á hina ýmsu kosti sem bærinn hefur upp á að bjóða svona til að koma þeim af stað. Þegar við fórum að ræða bæinn almennt, landslagið, fjöllin, höfnina o.s.frv. þá fékk ég algjört áfall. Krakkarnir þekkja ekki bæinn sinn! Það er varla að þau viti hvað fjöllin hérna heita! Það hefur greinilega margt breyst á þeim stutta tíma sem er liðinn síðan ég var hérna í skólanum. Þá þótti það sjálfsagt mál að þekkja sögu bæjarins í grófum dráttum. Við vorum líka alin upp við að þykja vænt um bæinn okkar enda sést það á Bolvíkingafélaginu fyrir sunnan. Því miður heyrði ég það ekki á krökkunum að þeim þætti vænt um bæinn. Ég trúi ekki öðru en að þessi hugsunarháttur komi að mestu leyti frá foreldrunum og þeim skilaboðum sem samfélagið sendir þeim sem búa á landsbyggðinni. Það er kannski ekkert skrýtið að neikvæð viðhorf til landsbyggðarinnar komi fram þegar óopinber stefna stjórnvalda er að leggja landsbyggðina - eða allavegana Vestfirðina - niður. Stjórnvöld geta lítið þrætt fyrir það þegar þau hafa gefið út skýrslu um byggðamál og eflingu landsbyggðarinnar en minnast ekki einu orði á Vestfirði. Maður hefur það á tilfinningunni að það sé þögult samkomulag um að það eigi smátt og smátt að hrekja fólkið í burtu með því að gera því illkleift að búa hérna. Alveg eins og gert var á Hornströndum á sínum tíma. Það væri þó heiðarlegra af stjórnvöldum að lýsa því yfir að þau vilji ekki sjá byggð hérna og lýsa því þá hvernig þau vilji færa íbúana í burtu. Fólk gæti þó allavegana kosið um slíka stefnu.

Daddara.. Ég get nú greinilega ekki endalaust röflað - allavegana ekki um málefni sem hægt er að birta hérna.. Ætla að fara að reyna að koma einhverju í verk, það veitir víst ekki af....

Engin ummæli: