Ég er alveg að sjá það að ég þarf að fara að komast í algjöra afslöppun. Heilinn á mér er gjörsamlega búinn að brenna yfir. Það var reyndar verið að benda mér á að ég væri nýkomin úr vetrarfríi, búin að kenna í 7 eða 8 daga síðan þá. En ég hef greinilega ekkert slappað af þá.. Eða þá að heilastarfsemin er í einhverju lágmarki á þessum árstíma. Ætla ekkert að tjá mig um þetta frekar áður en ég segi eitthvað miður gáfulegt..
Ég var að skrifa undir undirskriftarlista vímulausrar æsku gegn lögleiðingu kannabisefna. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg röksemdarfærslur þeirra sem vilja lögleiða þessi efni. Þó svo að áfengi sé langt frá því að vera skaðlaust þá þýðir það ekki að við eigum að lögleiða önnur efni sem nota bene má deila um hvort séu skaðsamari en áfengi. Áfengi hefur verið til í okkar samfélagi síðan á landnámsöld en hassið kom ekki til landsins fyrr en á síðustu öld. Rökin fyrir því að banna áfengið og lögleiða kannabis á þeim grundvelli að áfengið sé hættulegra er því hægt að skjóta niður með því að það væri illframkvæmanlegt. Áfengið hefur alltaf verið til og við aðlöguðumst því eins og öðru. Það er hins vegar algjör óþarfi að taka inn fleiri ósiði en við höfum. Áfengisdýrkun Íslendinga er líka þvílík að það myndi aldrei fást í gegn að áfengi yrði bannað. Ég er þeirrar skoðunar að fræðsla um skaðsemi áfengis eigi að hefjast heima. Ekki það að fólk þurfi að vera algjörir fanatíkerar og banna allt áfengi í 100 km radíus en það þarf að kenna fólki að umgangast áfengi af virðingu. Áfengið hefur nefnilegast aldrei gert neinum mein að fyrra bragði. Það eru sorglega fáir sem gera sér grein fyrir því hver séu helstu einkenni alkóhólista og reyna að vera meðvitaðir um sína drykkju. Þetta vantar algjörlega inn í allt forvarnarstarf. Krökkunum er bara sagt að áfengi sé slæmt og að þau eigi ekki að drekka. Hins vegar drekka flest allir í kringum þessa krakka - og það þýðir lítið að koma með þau rök að þau megi ekki drekka því þau séu ekki orðin nógu gömul.. Enda fer þetta forvarnarstarf oft fyrir ofan garð og neðan..
Alþingi lýkur störfum þetta kjörtímabilið á föstudaginn. Kosningaherferðirnar eru rétt að fara í gang og ég verð að viðurkenna að ég er farin að slökkva á sjónvarpinu þegar stjórnmálamennirnir byrja að rífast á skjánum. Ég held að þetta eigi eftir að verða ansi blóðug barátta - og leiðinleg eftir því. Það eru einhvern vegin engir virkilega skemmtilegir karakterar í pólitík í dag. Fyrir utan Guðna Ágústsson. Mér finnst hann rosalega skemmtilegur. Geir Haarde var einu sinni skemmtilegur en svo einhvern vegin missti hann touchið. Það er reyndar alltaf hægt að hlægja af Pétri Blöndal. Ég veit ekki í hvaða heimi maðurinn býr. Ég er allavegana búin að finna út að ég bý ekki þar.. Konurnar eru ansi litlausar eitthvað. Það eimir ennþá af þeim hugsunarhætti að maður eigi að kjósa konur af því að þær eru konur. Mér finnst það alveg kolröng stefna. Ef einhver kemur með þessi rök til mín er alveg pottþétt að viðkomandi fær ekki mitt atkvæði.
Jæja, viðveran er að byrja. Anna E. er byrjuð með klámvísurnar - læt eina fljóta með að lokum..
Einn piltur af fjallinu fannlausu,
var að fá það hjá Rannveigu mannlausu.
Þá brjálaðist gellan
og beit hann í sprellann.
Nú tekur hann bara þær tannlausu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli