25 mars 2003

Jæja, best að drífa sig að blogga áður en ég gleymi því sem mér datt í hug að skrifa um áðan :p

Ég var nefnilegast að horfa á fréttirnar, sem er svo sem ekki frásögu færandi. Nema að það er verið að fjalla um málefni heyrnarlausra. Eins og þeir sem hafa fylgst með undanfarnar vikur vita þá er verið að berjast fyrir því að þeir fái táknmál viðurkennt sem sitt móðurmál. Ef það nær í gegn eiga þeir rétt á víðtækari túlkaþjónustu í daglegu lífi heldur en þeir eiga í dag. Fréttin var öll á samúðar nótum, textuð og alles. En það var hins vegar ekki restin af fréttatímanum. Það mætti halda að fréttastofan ályktaði sem svo að heyrnarlausir horfðu ekki á fréttir og vissu þá af því ef það kæmu textaðar fréttir.. Ég er hins vegar ekki svo vitlaus að ég haldi að svo sé. Væntanlega vantar peninga - og vilja - til að texta íslenskt efni hjá sjónvarpstöðvunum. Þær gætu virkilega hjálpað heyrnarlausum í réttindabaráttu sinni með því að texta þó svo að ekki væri nema einstaka íslenska þætti eða bara fréttatímana. En það er greinilega langt í frá að svo þyki sjálfsagt á Íslandi í dag. Það er eiginlega sorglegt hver staða minnihlutahópa er í samfélaginu. Ef maður myndi standa í þeim sporum að eignast fatlað barn í dag væri staða manns ekki glæsileg. Maður þyrfti að berjast fyrir öllu því sem maður ætti rétt á - þó svo að nær væri lagi að samfélagið héldi pínulítið utan um mann og vísaði manni áfram. Fordómarnir eru líka miklir. Margir eru t.d. hissa á því að Rakel, litla systir mín, hafi fengið að taka bílpróf. Getur hún keyrt? hefur mamma oft fengið að heyra. Ég er samt ekki frá því að hún sé oft á tíðum betri bílstjóri en margir þarna úti í umferðinni. Gamla fólkið með hattana er stórhættulegt þegar það er að viðra bílana sína!

Stöð 2 bilaði hérna í Bolungarvík á miðvikudaginn. Ef að ég hefði búið í Árbænum hefði þetta verið komið í lag samdægurs. Þetta komst hins vegar ekki í lag hjá okkur fyrr en á laugardeginum. Alveg merkilegt hvernig þeir leyfa sér að koma fram við okkur. Þetta gerðist víst líka í fyrra og þá var þetta viku að komast í lag. Það er bara vonandi að Skjár 1 fari að koma hingað, þá gæti maður bara sagt upp Stöð 2, enda tekur því ekki að borga tæpar 5.000 kr á mánuði fyrir svona þjónustu..

Jæja, ég er alveg stopp.. Man ekki meira hvað ég var að hugsa áðan. Ég er alveg búin að sjá það út að þetta er eitthvað genetískt hjá mér. Það getur ekki annað verið en að mamma og pabbi beri einhverja ábyrgð á þessu ástandi mínu...

Engin ummæli: