05 mars 2003

Jæja, þá er maður byrjaður að kenna aftur og lífið farið að hafa sinn vanagang. Veturinn ákvað að koma í heimsókn, það byrjaði að snjóa í gær og hefur bara snjóað talsvert í dag. Ég var að kenna ensku í morgun og í þann mund sem ég segi að við séum að fara að hlusta og útskýri fyrir þeim hvað eigi að gera fer rafmagnið... Að sjálfsögðu við mikla ánægju krakkanna! Það var nú samt ekki rafmagnslaust lengi og ég komst yfir allt sem ég ætlaði í tímanum. Klukkan tíu var farið út í íþróttahús, kötturinn sleginn úr tunnunni og farið í leiki. Það var alveg ágætt bara. Verð að viðurkenna að þessi siður að slá köttinn úr tunnunni hefur aldrei þekkst hérna. Held að þetta hafi byrjað í fyrra. Við fórum bara á okkar maska, þeir allra hörðustu öll kvöldin. Það voru nú samt fáir maskar á ferðinni í gærkvöldi, enda var veðrið ekki gott. Ég verð bara að borða maskanammið sjálf ;)

Svo ég haldi nú aðeins áfram að fjalla um pólitík þá hefur kosningabaráttan heldur betur farið hressilega af stað. Þetta mútudæmi er alveg með ólíkindum. Ef ég pæli í því finnst mér afar ótrúlegt að Baugsmenn séu svo vitlausir að þeir haldi að hægt sé að múta Davíð. Enda held ég að það hefði vakið mikla athygli ef Davíð hefði allt í einu farið að láta þá í friði. Þetta er orðin ein hringavitleysa sem ég held að eigi eftir að reynast erfitt að komast til botns í. Davíð hefur svo sem aldrei verið í neinu uppáhaldi hjá mér og að mínu mati er hann löngu farinn yfir strikið með ásökunum sínum og yfirlýsingum. Persónudýrkunin í Sjálfstæðisflokknum virðist vera slík að honum leyfist að gera því sem næst allt - og það er hættulegt. Mér finnst sorglegt að sjá þingmenn flokksins verja hann með kjafti og klóm, því að þó svo að maðurinn sé þeirra foringi þá er hann ekki fullkominn frekar en aðrir og ekki nema heilbrigt að vera honum ósammála. Það er að mínu mati munurinn á honum og Ingibjörgu Sólrúnu. Þau eru vissulega keimlíkir karakterar en þó finnst mér hún ekki leyfa sér að segja nákvæmlega það sem henni býr í brjósti án þess að skeyta um kóng né prest. Kannski er skýringin á því sú að hún sé ekki búin að vera eins lengi við völd og Davíð og hafi þar með ekki öðlast sama valdshrokann. Kannski liggur munurinn í kynhneigðinni. Konur hafa jú annan stjórnunarstíl en karlar. Ég skal ekki segja með það. Ég viðurkenni samt alveg að ég er hrifin af Ingibjörgu Sólrúnu sem stjórnmálamanni. Finnst hún bera af sér góðann þokka. Veit samt ekki hvort ég myndi kjósa hana og Samfylkinguna. Þeir eru ekki alveg að ná að sannfæra mig um það. Össur fer líka oft í mínar fínustu. Orðtakið bylur hæst í tómri tunnu lýsir honum oft vel.. Vinstri grænir eru heldur ekki að gera það fyrir mig. Kolbrún Halldórs fær mig til að slökkva á sjónvarpinu og þessi stefna þeirra að vera mjög skýrt á móti öllu finnst mér ekki góð. Alltof lítið af jákvæðum málflutningi hjá þeim. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei haft neitt fram að færa sem hefur heillað mig og það hefur ekkert breyst. Þá er lítið eftir. Frjálslyndir boða svo sem góða stefnu fyrir Vestfirði - en ég er samt ekki að sjá þá komast til áhrifa. Framsókn já.. Kannski best að tjá sig sem minnst um þá..

Þá er formúlan að fara að hefjast að nýju :) Það verður gaman að sjá hvaða áhrif nýju reglurnar koma til með að hafa í keppni. Það er bara vonandi að það verði einhver spenna í þessu í ár. Þetta var ekki beint skemmtilegt í fyrra. Maður lét sig samt hafa það að horfa á hverja einustu keppni og vona að liðið mitt myndi fara að sýna sinn rétta lit.. En það kemur að því - ég er alveg sannfærð um það. Áfram McLaren!! :)

Jæja, ég ætla að fara að glápa á imbann fyrst hann er kominn í lag. Bæsi var eitthvað að fikta við rafmagnið hjá sér og þar sem að loftnetstengingin mín kemur þaðan var bara snjór í sjónvarpinu mínu.. Það er nú nóg af honum úti þó svo hann þurfi ekki að vera í sjónvarpinu líka!

Engin ummæli: