21 mars 2003

Jæja, þá er loksins komin helgi! Ég fór og hitti bróður minn í gær. Hann kom svo í skólann til mín í dag og spjallaði við 9. og 10. bekk hvernig það var að fara svona til annars lands, að þurfa að standa á eigin fótum í ókunnu landi og vera því sem næst alveg mállaus. Það komu nú ekki mikil viðbrögð frá 9. bekk - ekki frekar en vanalega. Við erum alvarlega að spá í að gefa út dánarvottorð á þann bekk. Þó svo að maður vilji nú hafa hljóð í bekknum á meðan maður er að kenna þá vill maður nú geta spjallað um daginn og veginn við þau, en það er frekar erfitt í þeim bekk. Krakkarnir í 10. bekk voru hins vegar hressari og spurðu mikið. Ég vona bara að þetta hafi verið þeim hvatning til að láta verða af því að fara eitthvað til útlanda í framtíðinni. Ég fór svo með 8. bekkinn í heimsókn til 7. bekkjar þar sem að Hlynur lögga var með fyrirlestur um vímuefni, hnupl og alls kyns hluti. Ekki mikið kennt í dag semsagt. Ég verð að viðurkenna að mér finnst Hlynur vera orðinn svolítið þreyttur sem fyrirlesari fyrir þessa krakka. Ég veit ekki hvort það skili einhverjum árangri það sem hann er að segja við þau. Ég reyni oft að nýta tímann ef þau spurja um eitthvað til að spjalla við þau. Ræddi m.a. líffæragjafir við 8. bekk í morgun. Man samt ekki af hverju við byrjuðum að ræða það.. Ræddi líka áfengisdrykkju við 7. bekk um daginn. Strákarnir þar sjá áfengið í miklum dýrðarljóma, svona eins og flest allir krakkar svo sem. Ég reyndi að benda þeim á að þeir ættu ekki að byrja að drekka fyrr en þeir gætu tekið þeim afleiðingum sem fylgdu því. Það væri t.d. ekki gaman að fara út og muna ekkert eftir kvöldinu. Vakna svo kannski á ókunnum stað og vita ekkert hvað maður var að gera af sér. Enda kom það svo í ljós að þeir eru hálf hræddir við eldri strákana í bænum sem eru að drekka og dópa og voru ekki á því að þeir hefðu það eitthvað gott. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki með geðveikan áróður fyrir því að þau eigi ekki að drekka fyrr en þau eru orðin tvítug, en ég reyni að benda þeim á að þetta á ekki alveg við grunnskólasamfélagið. Líka að þau verði að hugsa hvað þau eru að gera, það sé engin afsökun að hafa verið fullur, maður verði að taka ábyrgð á sjálfum sér. Það er bara vonandi að það komist til skila...

Jæja, er að spá í að fara heim og þrífa. Ég var að fá nýtt klósett í gær :) Skil ekki í mér að hafa ekki fattað fyrr að leika sætu, vitlausu stelpuna.. Fór og talaði við Bæsa á laugardaginn þegar ég var búin að gefast upp á því að reyna að ná í Hafþór - sem er píparinn hérna. Hann er búinn að vera á leiðinni til mín síðan ég flutti í íbúðina í júlí í fyrra. Bæsi er semsagt bróðir hans og býr í íbúðinni við hliðina á mér - og hefur verið duglegur að bjóða fram aðstoð sína ef ég hef þurft á því að halda.. Það semsagt svínvirkaði að vera bara vitlaus og sæt og allt er komið í lag núna.. En allavegana, ég ætla heim að þrífa. Er svo að hugsa um að skella mér eitthvað út á lífið á helginni...

Engin ummæli: