29 apríl 2003

Nú er mínz búin að vera heima lasin í dag. Ég var gjörsamlega búin á því þegar ég kom heim úr vinnunni í gær og ákvað að vera skynsöm og ná þessu almennilega úr mér í staðin fyrir að vera hundslöpp jafnvel í marga daga í viðbót. Hausverkurinn er búinn að minnka í dag og hellan fyrir eyrunum líka. Verð vonandi eld hress og spræk á morgun. Er alveg að mygla á því að hanga svona heima hjá mér. Amma kom samt við í dag, var búin að kaupa kók og fleira góðgæti fyrir mig.

Ég var að skoða síðuna hans Kristins Breka áðan. (Það er linkur inn á hana hérna til hliðar). Dagný var að setja inn nýjar myndir. Ég er nú ekkert að pæla í því dags daglega að ég hef ekki nánasta fólkið mitt hérna - þe. fyrir utan ömmu þeas. Enda hefði ég aldrei enst hérna í vetur ef ég væri alltaf að pæla í því. En þegar ég skoðaði myndirnar af mömmu, Dagnýju og Hauki með púkann í göngutúr þá greip mig einhver saknaðartilfinning. Hefði sko alveg viljað vera í þessum göngutúr með þeim. En sumarið er víst tími heimsókna þannig að vonandi á ég eftir að sjá eitthvað af fjölskyldu og vinum í sumar. Ég var að fatta það að núna verð ég upptekin nánast allar helgar fram að Þjóðhátíð. Á næstu helgi eru kosningar - og það verður sko stór stund hjá mér að fá loksins að kjósa á kjördag!! Helgin eftir það er seinasta helgi fyrir prófaviku þannig að líklegast verð ég að vinna. Helgin eftir það er í miðjum prófum.. þannig again vinna. Helgina eftir það eru skólaslit - and again vinna.. Kannski næ ég smá djammi ef af fermingarafmælinu mínu verður. Annars verð ég að vinna á skýlinu líka. Eftir þá helgi byrja ég alveg á skýlinu og þá verður lítið líf. En í lok ágúst kem ég suður og verð þá vonandi búin að fá íbúð og vinnu með skólanum. Það lítur reyndar ágætlega út með vinnu en ekki eins vel með íbúð. Ef þið vitið um eitthvað endilega látið mig vita!!!!!!

28 apríl 2003

Ég er alveg að mygla.. Er alveg stútfull af kvefi, með hausverk og hellu fyrir eyrunum. Gat ekki einu sinni opnað annað augað þegar ég vaknaði í nótt. Ég fór nú samt í vinnuna. Bað krakkana um að vera nú góð því ég væri hálf lasin. Þau voru fljót að skjóta mig á kaf með það.. Dóra Lína (umsjónarkennarinn þeirra) segir að maður eigi að vera heima þegar maður er veikur. Af hverju ert þú ekki heima Erla? Ég var að reyna að segja þeim að það væri farið að styttast í próf og þau mættu ekki við því að fara að missa úr núna. Þau voru ekkert að sjá lógíkina í því.

Það er eitt sem ég hef verið að reka mig á í fjölmiðlum undanfarið en það er hvað er menning? Ég lærði hjá henni Grétu í Kvennó að menning væri allt mannlegt, allt sem maðurinn tæki sér fyrir hendur. Í fjölmiðlum og í samfélaginu yfir höfuð fáum við þá hugmynd að menning sé t.d. klassísk tónlist, bókmenntir og aðrir ,,hámenningarlegir" viðburðir eða hlutir. Þessi skilgreining truflar mig soldið mikið. Mér finnst það ekki sanngjarnt að gera greinarmun á rokktónleikum og sinfóníutónleikum hvað varðar menningu. Báðir atburðirnir eru jafn miklir menningaratburðir þó svo að þeir séu ólíkir. Að flokka annan sem hámenningu og hinn sem lágmenningu finnst mér bera merki um snobb.

Það er líka eitt sem ég hef verið að reka mig á í þeirri femínistaumræðu sem hefur verið undanfarið. Mér finnst það svolítið furðulegt. Þær vilja jafnrétti sem er gott og blessað. En þær taka alveg óskaplega nærri sér allt sem tengist kynferðismálum og er ég þá aðallega að vísa til þeirrar umræðu sem hefur verið út af auglýsingum Flugleiða. Þær tóku þá afstöðu að kæra Flugleiðir.. Ég var ekki alveg að skilja af hverju.. Ég meina af hverju er málið svona viðkvæmt. Allt í einu rann upp fyrir mér ljós. Þær taka því þannig að verið sé að vísa í lauslæti íslenskra kvenna. Ekki man ég til þess að það hafi sérstaklega verið tekið fram í auglýsingunni. Ég held að frekar hafi verið að vísa til þeirrar stereótýpu sem er af Íslendingum að þeir lauslátir. En þá fór ég að spá í því - hvað er lauslæti?? Er til eitthvað sem heitir lauslæti?? Halldór Laxness sagði eitt sinn að það væri ekki til neitt slíkt sem héti lauslæti. Hins vegar væri til kona sem svæfi þrjátíu sinnum hjá einum manni og kona sem svæfi einu sinni hjá þrjátíu mönnum. Með því að taka undir þessar lauslætishugmyndir með því að kæra Flugleiðir finnst mér femínistarnir sína hvað þær eru komnar stutt á braut sinni til jafnréttis. Þær vilja jafnrétti en eru ekki búnar að átta sig á því að hluti af leiðinni þangað liggur í því að breyta svona gamaldags stöðluðum ímyndum. Þær vilja jafnrétti á heimilunum og í starfi en virðast ekki gera neina tilraun til að fá jafnrétti í raun og veru. Þær eru ekki ennþá búnar að losa sig úr viðjum hugsunarháttar sem maður í einfeldni sinni taldi að væri gjörsamlega úreltur. Það er þessi hugsunarháttur (að konur séu lauslátar, að karlmönnum sé ekki treystandi fyrir börnunum sínum, að börn séu lausaleikskrógar o.s.fvr.) sem fjötrar konur niður meira heldur en nokkuð annað. Á meðan að þær losa sig ekki úr honum þá geta þær ekki búist við því að margt breytist.

Jæja, þarf að fara að kenna. Síðasti tíminn í dag. Síðan tekur við kennarafundur og viðvera til kl. 4. Fer svo beint heim í rúmið með Otrivin og Strepsils...

26 apríl 2003

Ég er ennþá að hlægja að myndinni sem var á Stöð 2 í gær. Þessari Orgazmo mynd. Þvílík og önnur eins steypa. Ég horði meira á myndina eftir að ég kláraði að blogga í gær og verð að viðurkenna að ég grenjaði úr hlátri. Fyrir þá sem ekki sáu myndina þá var hún um gerð klámmyndar þar sem aðalsöguhetjan var Orgazmo, leikinn af einhverjum mormóna frá Utah. Hann var ekki alveg að meika að leika í þessari mynd, gerði það bara fyrir peningana. Hann gat ekki einu sinni leikið í ríðingaratriðunum, þurfti að hafa staðgengil. Mér fannst samt fyndnast að það var ekki hann sem fullnægði öllum gellunum eins og ég hélt þegar myndin var að byrja. Hann var með einhverja græju sem hann notaði til að skjóta á fólkið og þá byrjaði það að fá það á fullu. Ég sá nú ekki alveg pointið með þessu í myndinni. Það er hægt að kaupa sér svipaðar græjur á þó nokkrum stöðum á Íslandi - og maður þarf engann gaur til að hjálpa sér að láta það virka!! Það myndi hins vegar krydda notkun þeirra talsvert ef einhver flottur gaur væri með manni :p

Jæja, ég ætla að taka verkjatöflu og leggjast upp í sófa. Er alveg að mygla, með hausverk og uppfull af kvefi.

25 apríl 2003

Jæja, þá er best að fara að segja eitthvað af viti hérna. Er ekkert búin að röfla um pólitík eða neitt lengi!!

Ég er loksins búin að ákveða hvað ég ætla að kjósa. Er búin að ákveða að gefa pabba gamla (og Framsókn) atkvæðið mitt. Eins og ég var búin að segja hérna var ég að spá í að kjósa Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu en eftir forsætisráðherra auglýsinguna hætti ég öllum slíkum pælingum. Að prómótera einstakling út af kynferði finnst mér út í hött. Það á enginn að græða á kynferði sínu - hvort sem það er karl eða kona. Það skein í gegnum alla þessa auglýsingu - loksins eigið þið kost á konu sem forsætisráðherra.. Það var nóg til þess að missa af mínu atkvæði. Svona kynjakvótastefna finnst mér ekki vera jafnréttissinnuð. Hún ýtir undir það að karlmönnum sé mismunað. Sumir myndu þá segja að karlmenn ættu það inni - en hvers eiga karlmenn okkar kynslóðar að gjalda?!?! Það er ekki þeim að kenna hvernig fortíðin hefur verið og þeir eiga ekki að líða fyrir það. Ef tveir jafnhæfir einstaklingar sækja um starf á að boða báða í viðtal, láta þá velja skjaldarmerkið eða loðnuna og sá sem vinnur uppkastið fær vinnuna. Þannig getur enginn kvartað undan misrétti. Annars er ég alveg á því að Framsókn er að vinna kosningabaráttuna þegar kemur að sjónvarpsauglýsingum. Eins og Gunnar Smári sagði í Íslandi í dag í kvöld þá hafa aldrei áður verið fyndnar auglýsingar í kosningabaráttu á Íslandi. Auglýsingin þar sem gaurinn er að reyna að taka bensín er gargandi snilld!! Auglýsingarnar með húsnæðislánunum eru líka góðar. Sérstaklega í því samfélagi sem við búum í í dag þar sem að krakkar eru heima hjá foreldrum sínum langt fram undir þrítugt... Hinir stjórnmálaflokkarnir eru heldur ekki alveg að gera það fyrir mig. Frjálslyndir... Sorrý, en ég hef nákvæmlega enga trú á Adda Kitta Gau eins og ég hef sagt áður. Ég meina, þeir misreiknuðu sig um litla 10 milljarða í skattalækkunarloforðum sínum... Frambjóðendur þeirra hafa líka komið illa út úr umræðuþáttum. Alltof oft sér maður liðið reyna að krafla sig út úr einhverju sem það virðist varla vita neitt um. Þetta lið er sameinað í kringum kvótakerfið - sem er svo sem gott og blessað - en ég er bara ekki að sjá þau gera neitt í öðrum málaflokkum. Fyrir utan það að það eru alltof miklar líkur á því að þau fari í stjórn með íhaldinu ef sú staða kæmi upp. Meirihlutinn af þessu liði er klofningur þaðan og á því í raun meira sameiginlegt með þeim heldur en hinum flokkunum. Þetta Nýja afl... Maður veit einhvern vegin ekkert um þá, en þetta lítur út fyrir að vera bara einhverjir miðaldra karlmenn sem langar til að gera eitthvað annað en að reyna við yngri gellur í sínum midlife crisis... Vinstri grænir, well, ég er alltaf hrifin af Steingrími. Hann kemur mjög vel fyrir og maður veit hvar maður hefur hann sem stjórnmálamann. Ég er mjög hrifin af hugmynd þeirra um að fella niður leikskólagjöldin. Að mínu mati á leikskólinn að vera fyrsta skólastig barnsins - ekki bara í orði heldur á borði líka. Það á að gera þeim hærra undir höfði og reyna að útrýma þeirri hugsun að þeir séu bara geymslustaðir fyrir púkana. En þetta er ekki hægt að gera án þess að fella niður leikskólagjöldin. Með því að vera að rukka þau er verið að halda í þá hugsun að þetta sé bara geymslustaður. Þetta er hins vegar ein af fáum hugmyndum þeirra sem mér líst eitthvað á, er greinilega ekki nógu mikill kommi til að kjósa þá :P Íhaldið... Well, you all know what I think about them! Þeir stjórna efnahagnum vel en þegar kemur að einhverju sem heitir velferðarkerfi eru þeir alveg glataðir. Íhaldið er t.d. búið að vera eitt með meirihluta í LÍN undanfarin ár - og frammistaðan þar hefur ekki verið að heilla mig.. Dr. GIB hefur ekki verið að gera neitt sérstakt á þessum vígstöðvum og ég vil sjá íhaldið út úr stjórn LÍN með hraði. Mér finnst alveg furðulegt að stúdentar kjósi Vöku í meirihluta stúdentaráðs. Ætli liðið sé að átta sig á tengslum Vöku við stjórn sjóðsins undanfarin ár og því sem að íhaldið hefur gert (já eða ekki gert) fyrir námsmenn á meðan þeir hafa haft menntamálaráðuneytið..

Á Skírdagskvöld fór ég á kosningaskemmtun á Flateyri. Þar kom Óli popp með nokkuð góðan punkt um þessa auglýsingaumræðu og Flugleiðir og allan þann pakka. Hann ætlaði að fara í mál við Pampers fyrir að stíla eingöngu inn á mömmur í auglýsingum sínum. Mér fannst það ansi góður punktur því að þessir femínistar virðast aðeins vilja jafnrétti á sérvöldum stöðum... Þegar ég pæli í baráttu þeirra þá detta mér oft í hug orð sem einhver voðalega vitur sagði einhvern tíman: ,,Gallinn við jafnréttið er sá að við viljum aðeins vera jöfn þeim sem standa okkur ofar". Þetta segir allt sem segja þarf....

Það er í alvörunni að byrja mynd á Stöð 2 sem heitir ,,Orgazmo"... Eftir byrjunarmyndunum að dæma á þetta að vera eitthvað ofurmenni sem hlýtur að eiga að geta gefið fullnægingar á færibandi. Ég veit ekki hvernig lífið væri ef maður gæti bara fengið eitt stykki ofurgaur til að fullnægja sér á hverju kvöldi - orðið alltof langt síðan ég hef átt kærasta :P Jæja, ætla ekki að fara út í þessa umræðu - veit ekki hvort mamma og pabbi lesa þetta :p Oh my god.. Orgazmo gaurinn er að bjarga einhverri gellu frá Ron Jeremy.. Þvílíka steypan.. Ekki það að gellan hafi ekki verið heppin að losna undan Ron Jeremy :p Jæja, ég ætla að hætta þessu áður en ég fer út í einhverja vitleysu..

24 apríl 2003

GLEÐILEGT SUMAR :)

Jæja, þá er sumarið loksins komið samkvæmt dagatalinu. Ég ætla að huga að því í næstu viku að skipta um dekk á bílnum. Þorði því ekki núna fyrst að það er spáð einhverju hreti yfir helgina. Ég er ennþá löt eftir páskafríið. Byrjaði samt að prjóna peysuna mína í gær. Það gengur bara fjandi vel þó svo ég segi sjálf frá. Er svo bara búin að vera að dúllast í dag. Amma kom í heimsókn til að kenna mér að strauja skyrtur almennilega. Það gekk bara vel held ég. Ég ætla svo bara að vera róleg yfir helgina og reyna að koma mér í að fara yfir þessar kjörbókarritgerðir. Fór á bókasafnið í gær og náði mér í nokkrar bækur svo ég gæti byrjað á þessu. Jæja, ég er alveg tóm í haus. Er að spá í að fara heim og prjóna. Er orðin alveg rosalega húsleg eitthvað :p

22 apríl 2003

By the way - allir sem ekki eru búnir að skrifa í gestabókina - vinsamlegast kvitta fyrir komuna!!

Jæja, fyrsti vinnudagurinn búinn. Það var ekkert smá erfitt að vakna í morgun... En það hafðist og dagurinn gekk bara vel. Enginn órói í liðinu eftir fríið. Ég er búin að panta með Herjólfi fyrir Verslunarmannahelgina. Pantaði fyrir bílinn og káetu á leiðinni heim. Svo hringdi ég í Huldu Karls sem verður yfirmaðurinn minn í sumar - upp á hvernig það verður. Hún er að klára að setja niður vaktaplanið fyrir sumarið þannig að ég get farið að kíkja á hvernig ég verð að vinna. Þá á ég bara eftir að heyra í Kidda og Hildi í Eyjum og athuga hvort þau gætu hjálpað mér að redda gistingu fyrir ömmu á Þjóðhátíð ef að gistingin sem er plönuð fyrir hana klikkar. Hún amma gamla ætlar nefnilegast að koma með mér á Þjóðhátíð!! Reyndar ætlar vinafólk okkar - Dísa og Pétur - sem eiga íbúðina sem ég leigi - að fara líka og Addý og Dengsi líka þannig að amma ætti að hafa nægan félagsskap. En mig langar samt að kynna hana - og mömmu ef hún kemur líka - fyrir fósturfamilíunni í Eyjum. Það er svo bara vonandi að þau kíki vestur í sumar - blikk blikk ;)

Jæja, ætla að fara að drífa mig heim. Þarf að taka til og skipta á rúminu, ætla að sjá hvort ég nenni því núna.

21 apríl 2003

Þá eru páskarnir búnir og þar með allt djammið. Við byrjuðum á því að fara á Tvö dónaleg haust á miðvikudaginn og það var fínt. Slefuðum vel yfir söngvaranum - ekki lítið flottur gaurinn!!!!!! Á fimmtudaginn fór ég í fermingarveislu til Rebekku og síðan með pabba, Elsu og Rakel yfir á Flateyri um kvöldið. Lýður læknir var með kosningaskemmtikvöld þar. Það var alveg ljómandi gaman. Á föstudaginn langa fórum við systur yfir á Flateyri í sund og síðan í mat til ömmu. Eftir það tók ég stelpurnar með mér í partý inn í Framsóknarhús á Ísafirði - þar sem var frítt vín... Síðan var farið á ball með Írafár í Hnífsdal. Það var mjög gaman - held ég bara.. Á laugardagskvöldið fór ég að djamma með Sigurborgu frænku. Við fórum á Tvö dónaleg haust. Maður varð nú að tékka aðeins betur á þessum söngvara :p Það var fámennt en góðmennt djamm. Enduðum nokkur heima hjá mér og grilluðum okkur samlokur áður en var farið í háttinn. Í gær var svo vaknað til að horfa á formúluna - sem var ansi leiðinleg miðað við seinustu keppnir. Minn maður náði þó öðru sæti sem verður bara að kallast gott. Ég fór svo í mat til ömmu og fór svo út með stelpunum í gær. Við fórum á Ber í Sjallanum. Þau voru alveg ágæt bara - en ég var bara á bíl og var því ekki að fíla mig sem skyldi innan um allt blindfulla liðið. Rakel fór svo suður í morgun þannig að núna er algjör afslöppun - enda kennsla á morgun. Það er samt gott að byrja svona eftir frí - kennt í 2 daga svo frí, kennt í 1 dag og svo frí. Maður kemur sér þá kannski almennilega í gang. Þarf að fara að kíkja á þessar ritgerðir sem ég var að láta 8. og 9.bekk skila. Svo er það prófundirbúningur.. En jæja, er alveg tóm í haus. Ætla að fara að horfa á vídeó - eða eitthvað álíka uppbyggjandi!

16 apríl 2003

Jæja, þá er litla systir komin vestur. Við fórum með ömmu í Bónus áðan - þvílíka geðveikin!!!!!! Ég var bara eftir mig þegar ég kom þarna út. Það var hins vegar nánast enginn röð í Ríkinu. Það eru kannski bara allir farnir að brugga sjálfir :p Á eftir er ég að fara út að borða með Hrafnhildi, Ellu og Hrefnu. Veit ekki hvort Halldóra komi með. Síðan ætlum við heim til mín að fá okkur í glas og svo ætlum við að skella okkur á Kaffi Ísafjörð á Tvö dónleg haust. Ég er soldið spennt að sjá hvernig þeir eru. Á morgun er svo fermingin og rólegheit bara. Á föstudaginn verður djammað í Hnífsdal og svo erum við búnar að ákveða að fara á Flateyri að djamma á laugardaginn. Jæja, buxurnar eru orðnar þurrar. Var að stelast til að nota þurrkarann hjá pabba. Var ekki alveg tilbúin með djammgallan þegar stelpurnar hringdu. Hafið það gott yfir páskana elskurnar mínar - veit ekkert hvenær ég blögga næst.

15 apríl 2003

Ég var að koma heim af Nóa Albinóa. Myndin er hrein snilld!!! Myndatakan er frábær, leikararnir sýna allir snilldar frammistöðu og þrátt fyrir að þetta sé drama mynd þá er lúmskur húmor í myndinni. Myndin er tekin upp hérna í Bolungarvík, á Ísafirði og Þingeyri. Það var soldið fyndið að sjá hvernig tökum á þessum stöðum er blandað saman. Nói er t.d. úti að borða í Félagsheimilinu hér með pabba sínum en er síðan hent út. Þá er honum hent út af Krúsinni á Ísafirði. Hann labbar fyrir næsta horn og er kominn á Þingeyri. Skiptir náttúrulega engu máli fyrir þá sem þekkja ekki til hérna en þetta truflaði mig svolítið á meðan ég horfði á myndina. Ég mæli allavegana tvímælalaust með þessari mynd. Bara drífa sig á hana og vera með opin hug fyrir henni.

Það var verið að dreifa Skíðavikublaðinu hingað. Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég sá auglýsingu frá Bolungarvíkurkaupstað um opnunartíma skíðalyftunnar hérna yfir páskana. Hún á að vera opin alla dagana frá 10 til 19. Ég veit ekki hvort að það hafi alveg farið fram hjá þeim hjá bænum að það er nákvæmlega ENGINN snjór í fjallinu...

Jæja, er að bíða eftir að Rakel komi. Hún er að keyra með pabba og Elsu núna. Þau eru væntanlega einhvers staðar í Djúpinu eins og er. Það er víst alveg hryllilegt núna, ætli það verði ekki heflt á morgun fyrir páskatraffíkina. Ætla að fara að finna mér eitthvað að horfa á til að drepa tímann..

Úff, hvað mér leiðist núna! Það er nákvæmlega ekkert sem þarf að gera. Er samt að fara í bíó í kvöld með ömmu. Við erum að fara að sjá Nóa albinóa. Það verður gaman að sjá mynd sem er að mestu leyti tekin upp hér. Hrafnhildur kemur svo með seinni vélinni og Rakel keyrir með pabba og Elsu í kvöld þannig að maður ætti allavegana að hafa einhvern félagsskap á morgun. Ég og Ella erum að spá í að draga stelpurnar með okkur út að borða á Finnabæ á morgun. Maður verður að fara og smakka matinn hjá þeim. Síðan er fermingarveisla á Skírdag sem ég þarf að fara í. Á föstudaginn verður svo ballið í Hnífsdal og ætli maður kíki ekki yfir á Flateyri á laugardaginn. Ætla að heilsa upp á Láru vinkonu og djamma aðeins með henni. Á sunnudaginn er svo formúla. Það verður nice að maula páskaeggið á meðan maður horfir á hana. Síðan hefur maður mánudaginn til að hafa það gott áður en ég fer að kenna á þriðjudaginn. Þá þarf ég að byrja að fara yfir bunka af ritgerðum. Var að láta 8.-9. bekk skrifa kjörbókarritgerð í íslensku. Þá er líka farið að styttast í vorprófin og þar með lok skólaársins þannig að það ætti að vera nóg að gera hjá manni í maí! Ég fer líka að byrja að taka vaktir á Skýlinu - þar sem ég verð að vinna í sumar. Ég fæ víst mikla vinnu og á því eftir að eiga lítið líf í sumar. Fæ samt frí til að fara á Þjóðhátíð. Ég á líka eftir að eiga frí Sjómannadagshelgina. Þá eru skólaslit og bekkurinn minn gamli er að spá í að halda upp á 10 ára fermingarafmælið okkar þá. Það nennir enginn að vinna neitt í þessu svo ég dreif mig bara í því að senda út bréf á liðið og sagði þeim að tilkynna þátttöku fyrir 30. apríl. Ég ætla nú ekki að skipuleggja mikið. Við getum hist heima hjá mér og grillað. Skoðað gamla skólann okkar og horft á gamlar árshátíðir eða eitthvað álíka. Síðan var ég að spá í að biðja einhverja af gömlu kennurunum okkar að kíkja í heimsókn. Síðan færum við bara á ball niðrí Félagsheimili. Lítið mál að plana þetta. Hver kemur með sitt vín og sitt á grillið. Óþarfi að fara að búa til vandamál út af smámunum! Árgangur 1964 verður hérna að halda upp á 25 ára fermingarafmæli þessa sömu helgi og árg. 1977 er að spá í að halda upp á 10 ára útskriftarafmæli úr grunnskólanum líka þessa sömu helgi þannig að það ætti að verða fjör í bænum!

Jæja, ég ætla að fara að reyna að gera eitthvað af viti. Fer kannski í sund eða eitthvað til að hressa mig við.

14 apríl 2003

Ég var að spjalla við mömmu í símanum. Við vorum að ræða pólitík - eins og er oft gert á mínu heimili. Við vorum að ræða Frjálslyndaflokkinn. Hann á mikið fylgi hérna á Vestfjörðunum því að aðalstefnumál hans er að afnema kvótakerfið. Ég verð samt að viðurkenna að þrátt fyrir göfug markmið þá hef ég ekki mikla trú á þeim. Ég sé t.d. Adda Kitta Gau ekki fyrir mér sem röggsaman foringja. Hann er bara gamall sjóari sem kann að rífa kjaft. Ég held líka að það vanti upp á stefnu í öðrum málaflokkum. Þeir stjórna ekki landinu bara í gegnum sjávarútvegsmálin. Það þarf líka að breyta fleiru en kvótakerfinu til að sína alvöru byggðastefnu. Það er ekki bara kvótakerfið sem er að leggja landsbyggðina í rúst - það er líka stefna stjórnvalda í öðrum málaflokkum. Fyrir utan það þá færu Frjálslyndir að öllum líkindum í stjórn með íhaldinu og það er eitthvað sem ég vil alls ekki sjá. Davíð Oddson er löngu búinn með sinn tíma. Hann er ekki í neinum tengslum við fólkið í landinu. Það sést best á fátæktarumræðunni sem er í gangi núna. Það er bara vita mál að bilið á milli þeirra sem eiga einhvern pening og þeirra sem eiga hann ekki er að breikka. Það er t.d. farið að verða munaður fyrir fólk að fara í háskólanám. Framfærslulán námsmanna eru langt undir raunhæfri framfærslu og þeir sem ekki eiga foreldra sem geta staðið við bakið á þeim á meðan þeir eru í skóla eiga bara einfaldlega ekki kost á háskólanámi í dag. Það er allavegana nokkuð ljóst að ég kýs hvorugan þessara flokka. Þá er bara að skoða hina þrjá sem bjóða fram í þessu kjördæmi betur. Já eða hina tvo. Því að ég kýs alveg pottþétt ekki Vinstri græna. Steingrímur J. er góður stjórnmálamaður en ég er ekki alveg jafn vinstri sinnuð og hann. Hann hefur fallegar hugsjónir að mörgu leyti, en ég er ekki alveg að sjá þær ganga upp í framkvæmd. Þá er það bara Framsókn og pabbi eða Samfylkingin og Ingibjörg Sólrún. Hún gæti náð jöfnunarsæti og þá munar um hvert atkvæði sama hvar það er á landinu. En það gæti líka verið málið með pabba. Þarf að hugsa þetta aðeins. Nógur tími ennþá!

Þetta er ekkert smá leiðinlegt mánudagskvöld. Ekkert í sjónvarpinu og maður er búinn að vera að slæpast í allan dag. Hrafnhildur og Rakel koma samt á morgun og þá verður vonandi meira um að vera hjá manni. Þá fer fríið að byrja fyrir alvöru! Er núna búin að sækja Dooleys flöskuna inn í ísskáp og ætla að njóta þess að vera í fríi. Ég ætla að byrja á að horfa á danska þáttinn sem var á RÚV í gær og síðan á Pretty woman eða eitthvað álíka skemmtilegt og njóta þess svo að sofa út á morgun!!

13 apríl 2003

Það er eitt sem ég var að spá. Núna eru femínistar að gera allt vitlaust út af þessari Flugleiða auglýsingu. Eins og ég var búin að tjá mig um þá finnst mér þetta frekar mikil della hjá þeim. Flugleiðir eru að nota stereótýpu - sem nota bene enginn getur þrætt fyrir að sé ekki sönn - til að auglýsa ferðir sínar. Thule notar líka þessa aðferð í sínum auglýsingum. Gerir grín að Íslendingum yfir höfuð - og enginn gerir athugasemdir við það. Þær auglýsingar þykja bara flottar. Samt er verið að taka fyrir þá stereótýpu sem er af Íslendingum erlendis. Alveg eins og Flugleiðir eru að gera. Eins er Húsasmiðjan núna að keyra auglýsingar þar sem sýnt er ungt par sem er að koma sér fyrir á nýju heimili. Þar á konan að vera að skilja eftir miða til að minna manninn sinn á að klára hitt og þetta innan heimilisins. Ein auglýsingin sýnir t.d. manninn sækja sér epli í pínkulítinn ísskáp. Þá blasir við honum miði frá konunni - sem situr og fylgist með honum - ,,muna ísskáp". Af hverju í ósköpunum reddar hún ekki ísskápnum sjálf? Þarf kallinn endilega að gera það?? Geta konur ekki verslað í Húsasmiðjunni líka??!! Ég hefði haldið að þetta myndi nú gera femínistana brjálaða... En svo virðist ekki vera. Það virðist skipta máli hvaða stereótýpa er notuð í auglýsingum. Ef undirtónninn er kynferðislegur þá verða konurnar brjálaðar. Það spáir enginn í því að það er örugglega ekki eingöngu verið að markaðsetja þessar ferðir til Íslands fyrir karlmenn. Konur geta alveg komið til Íslands og átt hér dirty weekend. Íslenskir karlmenn eru bara ekkert að taka þetta til sín!!

Jæja, er að spá í að fara að gera eitthvað af viti.

12 apríl 2003

Jæja, þá er kominn fyrsti í páskafríi. Ég fór bara snemma að sofa í gær og var vöknuð kl hálf 9 í morgun. Datt samt ekki í hug að fara svona snemma fram úr svo ég píndi mig til að sofna aftur. Ég er búin að þrífa allt og fara inneftir í Bónus. Voða dugleg! Ætla svo að drífa mig í sund á eftir og svo í mat til ömmu. Í kvöld var ég svo búin að bjóða liðinu á kennarastofunni heim í tilefni af því að það er búið að opna Finnabæ aftur. Fyrir þá sem ekki vita er Finnabær veitingastaður og pöbb og er hann búinn að vera lokaður í nokkra mánuði. Ég veit ekki hvort það komi einhver - en það kemur þá bara í ljós!

Ég var að blaða í gegnum nýjasta Nýtt líf í gær. Þetta blað kallast víst kvennablað og ég verð að viðurkenna að það hefur alltaf farið nett í taugarnar á mér. Ég veit ekki til hvaða aldurshóps blaðið á að höfða en ég hef alltaf á tilfinningunni að það sé verið að tala til manns eins og maður sé einhver hálfviti. Það er líka viss tvískinnungur í blaðinu - eins og var bent á í lesendabréfi sem var birt í þessu blaði sem ég var að skoða. Það er fjallað um átraskanir og afleiðingar þeirra og það að maður á bara að vera maður sjálfur. Svo eru birtar liggur við við hliðina á þessum greinum myndir af þvengmjóum fyrirsætum sem er búið að photoshopa hægri vinstri. Allar auglýsingarnar í blaðinu miðast við það að selja konum e-r fegrunar- og yngingarlyf. Svona blöð verða að vera meðvituð um sína ábyrgð í samfélaginu. Það er langt frá því að allar unglingsstelpur geri sér grein fyrir því að búið er að laga til allar myndir sem birtast í svona blöðum. Ég ræddi þetta við bekkinn minn um daginn í tengslum við texta sem við vorum að lesa og það var enginn í bekknum sem hafði gert sér grein fyrir því að fyrirsæturnar litu ekki svona út í raunveruleikanum. Ef að blöðin ætla sér að birta falskan raunveruleika þá verða þau að upplýsa samfélagið um það. Þau hafa einfaldlega alltof mikil áhrif til að geta leyft sér að sleppa því. Annars er það orðið spurning hvað ríkisvaldið gæti gert í málinu. Það væri hægt að setja fræðslu um svona mál inn í Lífsleiknina sem er kennd í grunn- og framhaldsskólum. Eða búa til stuttar fræðslumyndir sem hægt væri að sýna í sjónvarpi. Hvernig það er gert skiptir kannski ekki höfuð máli en það er skylda samfélagsins að upplýsa þá sem eru að fara að fóta sig í því út á hvað það gengur.

Það var grein í þessu blaði um nýjasta æðið í lýtaaðgerðum úti í Bandaríkjunum en það er að konur eru að láta laga á sér skapabarmana. Aðallega víst að láta minnka þá. Ekki spurja mig um tilganginn. Þetta er eitt það fáránlegasta sem ég hef heyrt. Jafnvel fáránlegra heldur en Botox dæmið sem var síðasta tískubylgja. Þá voru andlitsvöðvarnir lamaðir í þeim tilgangi að slétta húðina. Konurnar voru ófærar um að sína nokkur svipbrigði - og hafa eflaust litið út eins og það væri eitthvað mikið að.... Það er bara vonandi að þessi tískubylgja nái ekki hingað til lands.

Jæja, ég er að spá í að drífa mig í sund og flatmaga í pottunum í góða veðrinu.

11 apríl 2003

ÉG ER KOMIN Í PÁSKAFRÍ!!!!

Svakalega ætla ég að hafa það gott! Það er alveg nóg pláss ef einhvern langar að kíkja í heimsókn.... ;) Annars er Hrafnhildur að koma heim á þriðjudaginn. Við höfum ekkert náð að djamma saman á þessu ári þannig að það er aldeilis kominn tími til! Það er bara verst að það var hætt við SSSól ballið, en við finnum okkur eflaust eitthvað skemmtilegt að gera í staðinn. Lára er líka að koma vestur þannig að það verður möst að fara allavegana á eitt djamm á Flateyri. Við erum heldur ekkert búnar að djamma saman lengi þannig að það er kominn tími á gott djamm þar líka!

Það var ansi skemmtileg umræða á kennarastofunni í dag. Um það að fólk hefur aldrei tíma til að heimsækja vini og ættingja fyrr en liðið deyr. Þá komast allir í jarðarförina. Væri ekki vitlegra að gefa sér tímann í að umgangast þá sem manni þykir vænst um og njóta þeirra á meðan maður hefur þá í staðinn fyrir að gráta stundir sem maður gaf sér ekki tíma í þegar liðið er komið yfir móðuna miklu?! Þetta virðist kannski fjarlægt þegar maður er ungur og leikur sér en enginn veit sína ævi fyrr en öll er.

Jæja, ég ætla að fara að drífa mig út í góða veðrið.

10 apríl 2003

Félagsmiðstöðin er farin að gefa út blað sem kallast Gríslingur. Í nýjasta blaðinu eru birt nokkur gullkorn frá efstubekkingum skólans. Ég ákvað að setja þau hérna inn - svona til að sýna ykkur hvernig ,,unga fólkið er nú til dags". Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig það er að reyna að troða viti í þessa krakka stundum...

- Var Bubbi Morthens í dópi?
- Er hægt að panta upp úr þessum bæklingi? (viðkomandi var að skoða forvarnarbækling með myndum af eiturlyfjum...)
- Er Evrópa stærri en heimurinn?
- Er Portúgal stjarnan þarna?
- Er páfinn íslenskur?
- Þegiðu þarna glyrnan þín.. (glyðran þín...)
- Eru bómullarbolir búnir til úr skapahárum? (Fyrirgefðu... en eru skapahár eitthvað lík bómul????)
- Eini munurinn á strákum og stelpum er að stelpur hafa brjóst en strákar typpi. Þessi var spurð hvort að hún væri ekki með píku....
- Reynum að muna eitthvað annað sem við munum
- Spægipylsur frá SOS
- Spurt um borg með 40.000 íbúa - Svalbarði
- Spurt um lönd með landamæri að Panama - New York, Chicago og Ástralía
- Er Kína í Asíu?
- Hvað er slydda?
- Ég spurði eina hvort hún vissi hvar Norðurpóllinn væri.... Já, hann er rétt hjá Grænlandi, við hliðina á Suðurpólnum! (Dýrleif er greinilega ekki sú eina sem veit ekki hvar Norðurpóllinn er....)
- Viljiði setja kalda hitann á (í rútu..)

Þarf ég að segja eitthvað meira....

Svona fyrst ég er komin yfir á þessar nótur þá verð ég að láta fylgja með sögur af honum Gubba frænda. Hann er alveg hreint einstaklega orðheppinn greyið..

Nú á dögunum var Guðbjartur að tala við vin sinn í síma. Bjartur var staddur í útlöndum og vinurinn hafði hringt í farsíma hans, eftir nokkuð langt spjall sagði Bjartur allt í einu hvern fjandann hef ég gert við símann “Venjulega er ég með hann í vasanum en nú finn ég hann hvergi, ætli ég hafi ekki týnt honum í gærkvöld,” Viðmælandinn var ekki alveg klár á því sem var að gerast og spurði því hvort að hann væri ekki að tala í umræddan síma. “Það var eins gott að þú hringdir, annars hefði ég ekkert fattað hvar síminn var,” svaraði þessi alþjóðlegi athafnamaður alshugar feginn.

Einhvern vetrarmorguninn mætti Guðbjartur mjög snemma í beitningaskúrinn og var enn myrk vetrarnótt. Þegar í skúrinn var komið sá ekki handarinnar skil og varð honum þá að orði: “Rosalega er dimmt, það hlýtur að vera búið að vera slökkt lengi,”

Guðbjartur er frægur beitningamaður og fljótari en gerist og gengur. Þegar best lét fastréð hann sig uppá sextán bala á dag auk þess sem hann var í slægingu með. Þegar hann var spurður um hvernin þetta væri hægt á meðan meðalmaður væri fullkeyptur af því að beita átta bala dag. Ekki stóð á snaggaralegu svarinu: “Það er ekki lengi gert að beita í hálftíma,”

Jæja, þetta er komið gott. Ætla að fara að drífa mig í slátur til ömmu.

09 apríl 2003

Jæja, þá ætla ég að reyna þetta aftur.. Það fór ekki inn það sem ég skrifaði í gær.. Þá átti ég slæman dag vegna þess að einhverjum sem finnst fyndið að hringja í fólk á nóttunni hefur verið að bögga mig og systur mína. Dagný lét mig vita á mánudaginn að það hefði verið hringt í hana alla helgina. Á sunnudagsnóttina þóttist viðkomandi vera mamma og lét eins og það væri eitthvað mikið að. Dagný varð náttúrulega alveg skíthrædd og hringdi í Mosfellsbæinn, en þá var allt í stakasta lagi þar. Í fyrrinótt var svo hringt í mig - á sama tíma og hafði verið hringt í Dagnýju næturnar á undan. Frekar spooky. Ég er allavegana ekkert að kaupa það að þetta tengist ekki neitt. Ég svaf ekkert eftir að það var hringt og var alveg ónýt í gær. Fór líka til löggunnar og kærði þetta. Ég veit ekki hvað löggan hérna gerði mikið í málinu í gær en það var ekkert hringt í okkur systur í nótt. Það er bara vonandi að þetta hætti núna þegar við erum báðar búnar að kæra þetta.

Ég fór á framboðsfund hjá pabba og Magnúsi Stefánssyni í gærkvöldi. Mér leist svona ágætlega á stefnumálin hjá þeim en saknaði þó skýrrar stefnu í málefnum námsmanna. Pabbi fór vel yfir hvað ætti að gera í málefnum öryrkja og atvinnulausra. Hæstu mögulegu bætur öryrkja eru ca 95þús og atvinnuleysisbæturnar eru 77þús. Ég veit ekki hvort því var breytt í fyrra en þegar ég byrjaði í Háskólanum 2001 voru hámarksnámslán tæplega 70þús krónur og þau byrjuðu að skerðast þegar maður var búinn að þéna meira en 280þús yfir árið. Það er kvartað yfir því að atvinnuleysisbætur og örorkubætur séu lágar - en hvað þá með námslánin?!?!?!? Það er deginum ljósara að grunnframfærslan er langt frá því að vera raunhæf. Það sem ég er mest hissa á er að það er enginn stjórnmálaflokkur með skýra stefnu í málefnum námsmanna - allavegana er ekki verið að halda þeim á lofti. Námsmenn virðast heldur ekki vera með háværar raddir um að það þurfi að gera eitthvað til að breyta þessu kerfi - sem er engan vegin í takt við það samfélag sem við búum í í dag. Það er sorglegt hvað ungt fólk á Íslandi í dag hefur lítinn áhuga á stjórnmálum því það skilar sér í því að lítið er barist fyrir þeim málum sem standa okkur næst. Það vantar tilfinnanlega ungt fólk á Alþingi. Það er bara vonandi að það fari eitthvað að rætast úr þessum málum.

Jæja, ég ætla að reyna að fara að vinna eitthvað. Gerði nákvæmlega ekkert í gær.

07 apríl 2003

Ég horfði á Kastljósið á föstudaginn. Það vill stundum verða skemmtilegt þá. Í þættinum þetta skiptið var gellan sem er með Sellófón, hin ofur málhalta Elva Dögg og Þórhildur Þorleifs - súper gribba. Það var gaman að hlusta á sellófón gelluna. Elva Dögg.... hún kemur varla út úr sér óbjagaðri setningu. Það er alveg hryllilegt að hlusta á manneskjuna. Það er alveg á hreinu að ef hún hefði ekki verið kosin Ungfrú Ísland.is þá væri hún aldrei kynnir í Lottóinu.. Hún getur ekki einu sinni kynnt það sómasamlega! Þær stöllur voru m.a. að ræða Flugleiða auglýsinguna sem ég gerði að umræðuefni í seinustu viku og voru sammála um að fyrirtækið væri að niðurlægja sig með þessum auglýsingum. Þvílíka annað eins bullið. Ég verð að viðurkenna það að svona femínistakjaftæði fer í mínar fínustu. Vissulega vantar fullt upp á að jafnrétti ríki á Íslandi en það sem þessar konur gleyma er að þær hafa þvílík völd í raun og veru. Hver er það sem elur upp yngstu kynslóðina í dag? Í langflestum tilfellum konur. Þó svo að ekki sé hægt að móta börnin eins og leir þá læra þau það sem fyrir þeim er haft... Það getur nefnilegast enginn breytt heiminum án þess að huga að því sem er miðpunktur heims hvers og eins - sjálfum sér. Ef að þessar konur myndu nú beina kröftum sínum að sinni fjölskyldu í staðin fyrir að vera að eilífu tuði sem engu skilar þá held ég að miklu meiri árangur náist. Það gleymist alltof oft að við sköpum okkar eigin heim - og það er okkar að ákveða hvernig við ætlum að lifa í honum.
Þessar gellur fóru náttúrulega líka að ræða klámvæðinguna og fannst hún að sjálfsögðu alveg hryllileg. OK, klámvæðingin sem slík er ekki hryllileg heldur hvernig fólkið í landinu hefur tekið á henni. Opnari umræða um kynferðismál er bara af hinu góða. Það væri bara óskandi að sem flestir foreldrar nýttu hana til að ræða þessi mál við börnin sín. Mér finnst það sorgleg staðreynd í samfélagi sem grasserar í kynsjúkdómum þá þekki börn á unglingastigi grunnskólanna ekki algengasta kynsjúkdóminn - klamedíu. Það sýnir bæði lélega kynfræðslu skólanna og ekki síður heimilanna. Ég held að þetta sé mál sem verði að taka á. Af því sem að ég hef rætt við krakkana sem ég er að kenna þá er nokkuð ljóst að þau vita lítið sem ekki neitt. Það er bara vonandi að bæði heimili og skóli komi til með að taka á þessu máli.

Jæja, ég ætla að fara að sofa. Er alveg steindauð..

06 apríl 2003

Þá er árshátíðin loksins búin. Ég held að það sé óhætt að segja að hún hafi heppnast vel. Smá óhöpp voru á báðum sýningunum en krakkarnir stóðu sig alveg rosalega vel. Kennaragrínið var flott - ég verð samt að viðurkenna að það var hálf skrýtið að sjá gert grín að sjálfum sér. Þau byrjuðu á power point sýningu, þar sem búið var að taka myndir af krökkunum í kennaragerfum. Síðan voru þau búin að búa til mottó fyrir hvern kennara. Mitt var ,,sjaldan eða aldrei er maður í of fáum fötum". Stelpan sem lék mig var í stuttu pilsi með g-strenginn langt upp úr og í bol sem náði rétt niður fyrir brjóst... Á eftir þessari sýningu vorum við svo leikin upp á sviði, áttum að vera í tíma hjá sálfræðingi. Þar komu líka góð skot hjá þeim á alla kennarana. Á seinni sýningunni vorum við svo kölluð upp á svið og fengum rós. Hálf skrýtið að vera kvödd svona af krökkum sem ég er ekki einu sinni að kenna! En það var samt gaman að þessu.

Formúlan var í Brasilíu í dag. Ekkert smá svakaleg keppni!!! Maður mátti varla blikka augunum án þess að missa af einhverju! Mér fannst þeir hjá RÚV samt full fljótir að hleypa fréttunum að eftir að keppnin hafði verið stöðvuð. Maður var varla búinn að ná hvað hafði verið að gerast. Nú verður maður að horfa á Helgarsportið á eftir. Núna er víst búið að dæma Raikkonen sigurinn því skv reglunum gildir staðan sem var á hringnum áður en að keppnin var stöðvuð. Ég get allavegana ekki kvartað yfir frammistöðu minna manna!

Jæja, ætla að fara að hætta þessu. Það er algjört spennufall núna eftir árshátíðina þannig að maður er þokkalega tómur í haus...

04 apríl 2003

Jæja, bara að láta vita að ég sé á lífi - að þessi árshátíðarundirbúningur sé ekki búinn að drepa mig! Ég var á fullu í gær við að skreyta Félagsheimilið og fleira. Var ekki komin heim fyrr en um kvöldmatarleytið. Í dag var svo generalprufan. Hún gekk svona lala. Það má allavegana alveg ganga betur á morgun! Ég þarf að vera mætt út í hús kl 1 í seinasta lagi og verð svo þar meira og minna til miðnættis því ég á að vera í gæslu á ballinu. Á bara eftir að ákveða í hverju ég á að vera.. Þarf að reyna að finna eitthvað sem er nógu fínt og hæfir tilefninu.. Jæja, ég ætla að fara að elda mér eitthvað.

02 apríl 2003

Ég var að fá tölvupóst áðan þar sem verið var að safna undirskriftum gegn auglýsingaherferð Flugleiða þar sem meðal slagorða er "Fancy a dirty weekend in Iceland?". Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvernig fólk nennir að pirra sig á svona hlutum. Vissulega hefur íslenskt kvenfólk á sér það orðspor að það sé sérstaklega easy - en af hverju er það? Og breytist orðsporið eitthvað með einhverri undirskriftasöfnun gegn Flugleiðum?? Það er eitt víst í auglýsingum og það er að kynlíf selur. Flugleiðir eru þarna að nýta sér þá stereótýpu sem margir hafa af Íslendingum - og af hverju ættu þeir ekki að mega það? Ef íslenskt kvenfólk móðgast eitthvað ætti það að líta aðeins í eigin barm. Ég er t.d. ekki easy - langt frá því - og ef einhverjir útlendingar reyna við mig á djamminu í von um auðfenginn drátt þá fá þeir skýr skilaboð: Gleymdu því vinur... Ef íslenskt kvenfólk vill breyta þessu orðspori sem fer af þeim ætti það að hugsa aðeins áður en það höstlar.. Ef það er ekki tilbúið til þess þá er nú lítið hægt að gera í málinu. Ég efast t.d. um að Bandaríkjamenn myndu kæra auglýsingastofu sem sýndi þá sem tóma í haus - samt er sú stereótýpa sem við höfum af týpíska Kananum sú að þeir séu gjörsamlega tómir í haus. Mín skilaboð til þeirra sem hófu þessa undirskriftasöfnun eru að maður getur ekki breytt öðrum. Maður getur hins vegar breytt sjálfum sér.. Pick your battles better than that! Það eru miklu fleiri hlutir mikilvægari...

Ég skil ekkert í því hvernig mér datt í hug að bjóða mig fram til að hjálpa Soffíu í þessari skreytinganefnd... Við vorum að hengja upp myndir í félagsheimilinu áðan og ætlum að fara í það á morgun að búa til eitthvað skraut.. Síðan þarf að klára að skreyta salinn á morgun. Seinasti dagur æfinga er líka á morgun - það þarf kraftaverk til að þetta smelli allt saman fyrir generalprufuna á föstudaginn.. En það er þetta íslenska viðhorf sem er í gangi - þetta reddast allt einhvern vegin! Þegar við vorum út í húsi áðan fundum við hluta af handritinu fyrir kennaragrínið :p Það lá bara á borðinu í miðjum salnum - það var ekki eins og við værum að leita að því... Það á að gera grín að öllum kennurunum og ég er búin að komast að því að ég verð tekin eitthvað fyrir. Það var samt ekki sá hluti sem við fundum - það var kennarafundur þá og svo var verið að gera grín að Dadda smíðakennara. Miðað við þennan hluta verður fróðlegt að sjá hvernig þetta kemur út.. Það er bara vonandi að þau verði góð við okkur!

Jæja, ég er orðin alveg tóm í haus. Þetta árshátíðarstúss tekur frá manni alla orku. Er að spá í að hafa það öfga gott í kvöld og fara á Thai Koon og fá mér eitthvað gott að borða. Kaupa svo eitthvað nammi og hafa það huggulegt fyrir framan sjónvarpið.