Úff, hvað mér leiðist núna! Það er nákvæmlega ekkert sem þarf að gera. Er samt að fara í bíó í kvöld með ömmu. Við erum að fara að sjá Nóa albinóa. Það verður gaman að sjá mynd sem er að mestu leyti tekin upp hér. Hrafnhildur kemur svo með seinni vélinni og Rakel keyrir með pabba og Elsu í kvöld þannig að maður ætti allavegana að hafa einhvern félagsskap á morgun. Ég og Ella erum að spá í að draga stelpurnar með okkur út að borða á Finnabæ á morgun. Maður verður að fara og smakka matinn hjá þeim. Síðan er fermingarveisla á Skírdag sem ég þarf að fara í. Á föstudaginn verður svo ballið í Hnífsdal og ætli maður kíki ekki yfir á Flateyri á laugardaginn. Ætla að heilsa upp á Láru vinkonu og djamma aðeins með henni. Á sunnudaginn er svo formúla. Það verður nice að maula páskaeggið á meðan maður horfir á hana. Síðan hefur maður mánudaginn til að hafa það gott áður en ég fer að kenna á þriðjudaginn. Þá þarf ég að byrja að fara yfir bunka af ritgerðum. Var að láta 8.-9. bekk skrifa kjörbókarritgerð í íslensku. Þá er líka farið að styttast í vorprófin og þar með lok skólaársins þannig að það ætti að vera nóg að gera hjá manni í maí! Ég fer líka að byrja að taka vaktir á Skýlinu - þar sem ég verð að vinna í sumar. Ég fæ víst mikla vinnu og á því eftir að eiga lítið líf í sumar. Fæ samt frí til að fara á Þjóðhátíð. Ég á líka eftir að eiga frí Sjómannadagshelgina. Þá eru skólaslit og bekkurinn minn gamli er að spá í að halda upp á 10 ára fermingarafmælið okkar þá. Það nennir enginn að vinna neitt í þessu svo ég dreif mig bara í því að senda út bréf á liðið og sagði þeim að tilkynna þátttöku fyrir 30. apríl. Ég ætla nú ekki að skipuleggja mikið. Við getum hist heima hjá mér og grillað. Skoðað gamla skólann okkar og horft á gamlar árshátíðir eða eitthvað álíka. Síðan var ég að spá í að biðja einhverja af gömlu kennurunum okkar að kíkja í heimsókn. Síðan færum við bara á ball niðrí Félagsheimili. Lítið mál að plana þetta. Hver kemur með sitt vín og sitt á grillið. Óþarfi að fara að búa til vandamál út af smámunum! Árgangur 1964 verður hérna að halda upp á 25 ára fermingarafmæli þessa sömu helgi og árg. 1977 er að spá í að halda upp á 10 ára útskriftarafmæli úr grunnskólanum líka þessa sömu helgi þannig að það ætti að verða fjör í bænum!
Jæja, ég ætla að fara að reyna að gera eitthvað af viti. Fer kannski í sund eða eitthvað til að hressa mig við.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli