09 apríl 2003

Jæja, þá ætla ég að reyna þetta aftur.. Það fór ekki inn það sem ég skrifaði í gær.. Þá átti ég slæman dag vegna þess að einhverjum sem finnst fyndið að hringja í fólk á nóttunni hefur verið að bögga mig og systur mína. Dagný lét mig vita á mánudaginn að það hefði verið hringt í hana alla helgina. Á sunnudagsnóttina þóttist viðkomandi vera mamma og lét eins og það væri eitthvað mikið að. Dagný varð náttúrulega alveg skíthrædd og hringdi í Mosfellsbæinn, en þá var allt í stakasta lagi þar. Í fyrrinótt var svo hringt í mig - á sama tíma og hafði verið hringt í Dagnýju næturnar á undan. Frekar spooky. Ég er allavegana ekkert að kaupa það að þetta tengist ekki neitt. Ég svaf ekkert eftir að það var hringt og var alveg ónýt í gær. Fór líka til löggunnar og kærði þetta. Ég veit ekki hvað löggan hérna gerði mikið í málinu í gær en það var ekkert hringt í okkur systur í nótt. Það er bara vonandi að þetta hætti núna þegar við erum báðar búnar að kæra þetta.

Ég fór á framboðsfund hjá pabba og Magnúsi Stefánssyni í gærkvöldi. Mér leist svona ágætlega á stefnumálin hjá þeim en saknaði þó skýrrar stefnu í málefnum námsmanna. Pabbi fór vel yfir hvað ætti að gera í málefnum öryrkja og atvinnulausra. Hæstu mögulegu bætur öryrkja eru ca 95þús og atvinnuleysisbæturnar eru 77þús. Ég veit ekki hvort því var breytt í fyrra en þegar ég byrjaði í Háskólanum 2001 voru hámarksnámslán tæplega 70þús krónur og þau byrjuðu að skerðast þegar maður var búinn að þéna meira en 280þús yfir árið. Það er kvartað yfir því að atvinnuleysisbætur og örorkubætur séu lágar - en hvað þá með námslánin?!?!?!? Það er deginum ljósara að grunnframfærslan er langt frá því að vera raunhæf. Það sem ég er mest hissa á er að það er enginn stjórnmálaflokkur með skýra stefnu í málefnum námsmanna - allavegana er ekki verið að halda þeim á lofti. Námsmenn virðast heldur ekki vera með háværar raddir um að það þurfi að gera eitthvað til að breyta þessu kerfi - sem er engan vegin í takt við það samfélag sem við búum í í dag. Það er sorglegt hvað ungt fólk á Íslandi í dag hefur lítinn áhuga á stjórnmálum því það skilar sér í því að lítið er barist fyrir þeim málum sem standa okkur næst. Það vantar tilfinnanlega ungt fólk á Alþingi. Það er bara vonandi að það fari eitthvað að rætast úr þessum málum.

Jæja, ég ætla að reyna að fara að vinna eitthvað. Gerði nákvæmlega ekkert í gær.

Engin ummæli: