28 apríl 2003

Ég er alveg að mygla.. Er alveg stútfull af kvefi, með hausverk og hellu fyrir eyrunum. Gat ekki einu sinni opnað annað augað þegar ég vaknaði í nótt. Ég fór nú samt í vinnuna. Bað krakkana um að vera nú góð því ég væri hálf lasin. Þau voru fljót að skjóta mig á kaf með það.. Dóra Lína (umsjónarkennarinn þeirra) segir að maður eigi að vera heima þegar maður er veikur. Af hverju ert þú ekki heima Erla? Ég var að reyna að segja þeim að það væri farið að styttast í próf og þau mættu ekki við því að fara að missa úr núna. Þau voru ekkert að sjá lógíkina í því.

Það er eitt sem ég hef verið að reka mig á í fjölmiðlum undanfarið en það er hvað er menning? Ég lærði hjá henni Grétu í Kvennó að menning væri allt mannlegt, allt sem maðurinn tæki sér fyrir hendur. Í fjölmiðlum og í samfélaginu yfir höfuð fáum við þá hugmynd að menning sé t.d. klassísk tónlist, bókmenntir og aðrir ,,hámenningarlegir" viðburðir eða hlutir. Þessi skilgreining truflar mig soldið mikið. Mér finnst það ekki sanngjarnt að gera greinarmun á rokktónleikum og sinfóníutónleikum hvað varðar menningu. Báðir atburðirnir eru jafn miklir menningaratburðir þó svo að þeir séu ólíkir. Að flokka annan sem hámenningu og hinn sem lágmenningu finnst mér bera merki um snobb.

Það er líka eitt sem ég hef verið að reka mig á í þeirri femínistaumræðu sem hefur verið undanfarið. Mér finnst það svolítið furðulegt. Þær vilja jafnrétti sem er gott og blessað. En þær taka alveg óskaplega nærri sér allt sem tengist kynferðismálum og er ég þá aðallega að vísa til þeirrar umræðu sem hefur verið út af auglýsingum Flugleiða. Þær tóku þá afstöðu að kæra Flugleiðir.. Ég var ekki alveg að skilja af hverju.. Ég meina af hverju er málið svona viðkvæmt. Allt í einu rann upp fyrir mér ljós. Þær taka því þannig að verið sé að vísa í lauslæti íslenskra kvenna. Ekki man ég til þess að það hafi sérstaklega verið tekið fram í auglýsingunni. Ég held að frekar hafi verið að vísa til þeirrar stereótýpu sem er af Íslendingum að þeir lauslátir. En þá fór ég að spá í því - hvað er lauslæti?? Er til eitthvað sem heitir lauslæti?? Halldór Laxness sagði eitt sinn að það væri ekki til neitt slíkt sem héti lauslæti. Hins vegar væri til kona sem svæfi þrjátíu sinnum hjá einum manni og kona sem svæfi einu sinni hjá þrjátíu mönnum. Með því að taka undir þessar lauslætishugmyndir með því að kæra Flugleiðir finnst mér femínistarnir sína hvað þær eru komnar stutt á braut sinni til jafnréttis. Þær vilja jafnrétti en eru ekki búnar að átta sig á því að hluti af leiðinni þangað liggur í því að breyta svona gamaldags stöðluðum ímyndum. Þær vilja jafnrétti á heimilunum og í starfi en virðast ekki gera neina tilraun til að fá jafnrétti í raun og veru. Þær eru ekki ennþá búnar að losa sig úr viðjum hugsunarháttar sem maður í einfeldni sinni taldi að væri gjörsamlega úreltur. Það er þessi hugsunarháttur (að konur séu lauslátar, að karlmönnum sé ekki treystandi fyrir börnunum sínum, að börn séu lausaleikskrógar o.s.fvr.) sem fjötrar konur niður meira heldur en nokkuð annað. Á meðan að þær losa sig ekki úr honum þá geta þær ekki búist við því að margt breytist.

Jæja, þarf að fara að kenna. Síðasti tíminn í dag. Síðan tekur við kennarafundur og viðvera til kl. 4. Fer svo beint heim í rúmið með Otrivin og Strepsils...

Engin ummæli: