Jæja, þá er kominn fyrsti í páskafríi. Ég fór bara snemma að sofa í gær og var vöknuð kl hálf 9 í morgun. Datt samt ekki í hug að fara svona snemma fram úr svo ég píndi mig til að sofna aftur. Ég er búin að þrífa allt og fara inneftir í Bónus. Voða dugleg! Ætla svo að drífa mig í sund á eftir og svo í mat til ömmu. Í kvöld var ég svo búin að bjóða liðinu á kennarastofunni heim í tilefni af því að það er búið að opna Finnabæ aftur. Fyrir þá sem ekki vita er Finnabær veitingastaður og pöbb og er hann búinn að vera lokaður í nokkra mánuði. Ég veit ekki hvort það komi einhver - en það kemur þá bara í ljós!
Ég var að blaða í gegnum nýjasta Nýtt líf í gær. Þetta blað kallast víst kvennablað og ég verð að viðurkenna að það hefur alltaf farið nett í taugarnar á mér. Ég veit ekki til hvaða aldurshóps blaðið á að höfða en ég hef alltaf á tilfinningunni að það sé verið að tala til manns eins og maður sé einhver hálfviti. Það er líka viss tvískinnungur í blaðinu - eins og var bent á í lesendabréfi sem var birt í þessu blaði sem ég var að skoða. Það er fjallað um átraskanir og afleiðingar þeirra og það að maður á bara að vera maður sjálfur. Svo eru birtar liggur við við hliðina á þessum greinum myndir af þvengmjóum fyrirsætum sem er búið að photoshopa hægri vinstri. Allar auglýsingarnar í blaðinu miðast við það að selja konum e-r fegrunar- og yngingarlyf. Svona blöð verða að vera meðvituð um sína ábyrgð í samfélaginu. Það er langt frá því að allar unglingsstelpur geri sér grein fyrir því að búið er að laga til allar myndir sem birtast í svona blöðum. Ég ræddi þetta við bekkinn minn um daginn í tengslum við texta sem við vorum að lesa og það var enginn í bekknum sem hafði gert sér grein fyrir því að fyrirsæturnar litu ekki svona út í raunveruleikanum. Ef að blöðin ætla sér að birta falskan raunveruleika þá verða þau að upplýsa samfélagið um það. Þau hafa einfaldlega alltof mikil áhrif til að geta leyft sér að sleppa því. Annars er það orðið spurning hvað ríkisvaldið gæti gert í málinu. Það væri hægt að setja fræðslu um svona mál inn í Lífsleiknina sem er kennd í grunn- og framhaldsskólum. Eða búa til stuttar fræðslumyndir sem hægt væri að sýna í sjónvarpi. Hvernig það er gert skiptir kannski ekki höfuð máli en það er skylda samfélagsins að upplýsa þá sem eru að fara að fóta sig í því út á hvað það gengur.
Það var grein í þessu blaði um nýjasta æðið í lýtaaðgerðum úti í Bandaríkjunum en það er að konur eru að láta laga á sér skapabarmana. Aðallega víst að láta minnka þá. Ekki spurja mig um tilganginn. Þetta er eitt það fáránlegasta sem ég hef heyrt. Jafnvel fáránlegra heldur en Botox dæmið sem var síðasta tískubylgja. Þá voru andlitsvöðvarnir lamaðir í þeim tilgangi að slétta húðina. Konurnar voru ófærar um að sína nokkur svipbrigði - og hafa eflaust litið út eins og það væri eitthvað mikið að.... Það er bara vonandi að þessi tískubylgja nái ekki hingað til lands.
Jæja, ég er að spá í að drífa mig í sund og flatmaga í pottunum í góða veðrinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli