Ég var að spjalla við mömmu í símanum. Við vorum að ræða pólitík - eins og er oft gert á mínu heimili. Við vorum að ræða Frjálslyndaflokkinn. Hann á mikið fylgi hérna á Vestfjörðunum því að aðalstefnumál hans er að afnema kvótakerfið. Ég verð samt að viðurkenna að þrátt fyrir göfug markmið þá hef ég ekki mikla trú á þeim. Ég sé t.d. Adda Kitta Gau ekki fyrir mér sem röggsaman foringja. Hann er bara gamall sjóari sem kann að rífa kjaft. Ég held líka að það vanti upp á stefnu í öðrum málaflokkum. Þeir stjórna ekki landinu bara í gegnum sjávarútvegsmálin. Það þarf líka að breyta fleiru en kvótakerfinu til að sína alvöru byggðastefnu. Það er ekki bara kvótakerfið sem er að leggja landsbyggðina í rúst - það er líka stefna stjórnvalda í öðrum málaflokkum. Fyrir utan það þá færu Frjálslyndir að öllum líkindum í stjórn með íhaldinu og það er eitthvað sem ég vil alls ekki sjá. Davíð Oddson er löngu búinn með sinn tíma. Hann er ekki í neinum tengslum við fólkið í landinu. Það sést best á fátæktarumræðunni sem er í gangi núna. Það er bara vita mál að bilið á milli þeirra sem eiga einhvern pening og þeirra sem eiga hann ekki er að breikka. Það er t.d. farið að verða munaður fyrir fólk að fara í háskólanám. Framfærslulán námsmanna eru langt undir raunhæfri framfærslu og þeir sem ekki eiga foreldra sem geta staðið við bakið á þeim á meðan þeir eru í skóla eiga bara einfaldlega ekki kost á háskólanámi í dag. Það er allavegana nokkuð ljóst að ég kýs hvorugan þessara flokka. Þá er bara að skoða hina þrjá sem bjóða fram í þessu kjördæmi betur. Já eða hina tvo. Því að ég kýs alveg pottþétt ekki Vinstri græna. Steingrímur J. er góður stjórnmálamaður en ég er ekki alveg jafn vinstri sinnuð og hann. Hann hefur fallegar hugsjónir að mörgu leyti, en ég er ekki alveg að sjá þær ganga upp í framkvæmd. Þá er það bara Framsókn og pabbi eða Samfylkingin og Ingibjörg Sólrún. Hún gæti náð jöfnunarsæti og þá munar um hvert atkvæði sama hvar það er á landinu. En það gæti líka verið málið með pabba. Þarf að hugsa þetta aðeins. Nógur tími ennþá!
Þetta er ekkert smá leiðinlegt mánudagskvöld. Ekkert í sjónvarpinu og maður er búinn að vera að slæpast í allan dag. Hrafnhildur og Rakel koma samt á morgun og þá verður vonandi meira um að vera hjá manni. Þá fer fríið að byrja fyrir alvöru! Er núna búin að sækja Dooleys flöskuna inn í ísskáp og ætla að njóta þess að vera í fríi. Ég ætla að byrja á að horfa á danska þáttinn sem var á RÚV í gær og síðan á Pretty woman eða eitthvað álíka skemmtilegt og njóta þess svo að sofa út á morgun!!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli