30 maí 2003

Þá er maður búinn að ganga frá öllu skóladótinu!!! Var með eitt sjúkrapróf í morgun og á meðan ég sat yfir því gerði ég yfirlit yfir það sem ég gerði í ár. Hvaða bækur ég kenndi o.s.frv. Síðan gerði ég yfirlit yfir umsjónarbekkinn minn til að auðvelda kennara næsta árs að taka við. Núna er ritarinn að prenta einkunnaspjöldin út fyrir mig og þá á ég bara eftir að skrifa utan á umslögin og sjá hver fær verðlaun fyrir bestan námsárangur í ár. Ég er samt ekki alveg búin hérna fyrr en í næstu viku en við verðum á skyndihjálparnámskeiði þá. Síðan fer ég á tvö námskeið núna í júní. Ætla að fara með Halldóru Dagnýju á Tölvur og tungumálakennsla sem verður á Ísafirði og svo á námskeið um opinn skóla sem verður hérna í Víkinni. Þetta ætti að vera fróðlegt allt saman. Það er bara vonandi að það sé farið að styttast í svarið frá Kennó!! Svo er það næsti höfuðverkur að finna íbúð næsta vetur.. Er búin að vera að humma það á undan mér í vor. En það þýðir víst lítið lengur, verð að fara að drífa í þessu. Endilega látið mig vita ef þið vitið um eitthvað - eða einhvern sem vantar einhvern til að leigja með!!! ;)

29 maí 2003

Þá er maður byrjaður að vinna á Skýlinu. Fór á fyrstu vaktina í gær eftir vinnu í skólanum. Var orðin ansi þreytt í gærkvöldi - veit ekki hvort þetta séu ellimerki eða hvað.. Kolla er á leiðinni með liðið. Þau eru í Baldri núna. Bíllinn sem þau voru á var klesstur í bátnum áður en hann lagði af stað úr Hólminum. Það þurfti að hífa hann upp úr bátnum áður en lagt var af stað. Amma ætlar að sækja þau á Brjánslæk ef þau fá ekki bílaleigubíl. Þvílíkt gaman að byrja fríið sitt svona eða þannig!

Alveg er það merkilegt hvað fólk nennir að velta sér upp úr málefnum annarra. Ein sem er að kenna með mér sagði mér í gær að hún hefði verið spurð að því hvort það væri ,,allt í lagi" með mig - af því að ég á ekki kærasta... Vissulega væri gott að hafa einhvern til að kúra hjá sér og allt það - en fjandinn hafi það að lífið gangi út á það að finna einhvern. Ég er farin að skilja gellurnar í Sex and the City þegar þær voru að pirra sig á því þegar byrjað var að spurja um ástarlífið. Þetta er orðið svo mikið hjónasamfélag sem við búum í að það telst ekki eðlilegt að finnast það ágætt að vera einn. Ekki nema að það séu svona rosalega margir þarna úti sem óttast það mest af öllu að þurfa að vera einir. Ég held að það séu reyndar fleiri heldur en maður getur látið sér óra fyrir. Svo er maður kallaður vandlátur af því að maður vill ekki einhverja af þessum einhleypu karlmönnum sem búa hérna. Með fullri virðingu fyrir þessum gaurum þá eru þeir annað hvort þroskaheftir, of feitir eða of gamlir. En nei - ég er svo hryllilega vandlát... Og verð að viðurkenna það að ég er bara stolt af því!!! Ég ber það mikla virðingu fyrir sjálfri mér að ég býð ekki hverjum sem er upp í rúm til mín - sama hversu þörfin er mikil. Ef að það gefur liðinu hérna eitthvað til að blaðra um í sinni einsemd - sem að mínu mati er miklu eymdarlegri heldur en mín - þá er það svo sem allt í lagi. Ég þarf allavegana ekkert að vera að abbast upp á aðra og hnýsast í þeirra einkamál ef að þörfin fyrir karlmann er mikil - það er nefnilegast alltaf hægt að redda þessu sjálfur ;)

Ég sá í DV í gær að þátturinn hennar Önnu Kristine - Á milli mjalta og messu - er hættur á Bylgjunni. Og þótt fyrr hefði verið segi ég nú bara. Hún var að fá til sín fólk og fjallaði um lífshlaup þeirra. Í fyrstu voru þetta eflaust fínir þættir hjá henni en framboðið af fólki til að fara í svona þætti á Íslandi er bara mjög takmarkað. Enda var hún að fá til sín fólk á mínum aldri og spurja það út úr hvað á daga þess hafði drifið um ævina. Já, hmm, ég fermdist fyrir 7 árum og útskrifaðist sem stúdent í fyrra... Voða merkilegt!!

Sjómannadagurinn er á sunnudaginn og sigling á laugardaginn. Mig langar ekkert smá í siglinguna - en ég verð náttúrulega að vinna. Er að spá hvort ég eigi að reyna að fá einhvern til að vinna fyrir mig í tvo og hálfan tíma. Þetta er náttúrulega rólegasti tíminn á vaktinni. En ég sé til með það. Ég er að spá í að bjóða Njáli að gista hjá mér á laugardagskvöldið. Taka spólu og kaupa nammi og hafa það huggulegt. Ætla að sjá hvað hann segir - hann er kannski orðinn það gamall að hann nennir ekkert að hanga með gömlu frænku sinni. Karen Líf vill kannski vera með líka. Ég hugsa nefnilegast að ég nenni ekki á ballið. Ég var á kvöldvakt í gær, kvöldvakt í kvöld, skólinn + kvöldvakt á morgun, morgunvakt á laugardaginn, morgunstubbur og kvöldvakt á sunnudaginn.. Ég hugsa að ég verði orðin þreytt á helginni.. Ég næ samt formúlunni og hátíðahöldunum á sjómannadaginn á milli vakta. Það er meira heldur en ég náði í fyrra. Svo á ég frí á 17. júní!! Það er nú bara langt síðan ég hef átt það!!

27 maí 2003

Jæja, þá er bara einn dagur með gríslingunum eftir. Verð með tvö próf á morgun og síðan er bara einhver frágangsvinna eftir. Ég byrja á skýlinu á morgun. Var þar í gær að skoða vaktirnar mínar. Er búin að fá plan fyrir næstum allan júní. Verð að vinna næstu þrjár helgar - og verð á næturvöktum á tveimur af þeim. Ég vona bara að Agga verði búin að senda mér garnið, þá hef ég eitthvað við að vera -blikk-blikk. Amma kom í gær. Það var æðislegt hjá henni úti en samt náttúrulega gott að koma heim. Ágætt fyrir mig líka :p Verð að viðurkenna að ég var farin að sakna hennar blessaðrar. Kolla er að koma vestur á fimmtudaginn. Hún kemur með Njál og Karen Líf með sér. Ég verð að vísu að vinna alla helgina, en ég ætti nú að ná að gera eitthvað með þeim. Sixties verður að spila á sjómannadagsballinu hérna. Maður fær bara Kaffi Reykjavíkur flash back þegar maður heyrir minnst á þá! En ég er nú samt að spá í að kíkja aðeins. Það er nú ekki það oft sem það er ball hér!!

Þá eru ráðherralistarnir komnir fram. Ég var nú búin að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með þessa nýju stjórn. Er ekki alveg að skilja af hverju það er verið að taka Björn Bjarnason aftur inn. Þá var það sterkari leikur hjá Halldóri að setja Árna Magnússon í ráðherrastöðu. Vissulega skil ég Jónínu og Magnús Stef., og þá sérstaklega Jónínu að vera ósátt. Hún kemur vel út í sínu kjördæmi og átti ráðherrastól fyllilega skilinn. Magnús hafði ekki eins sterka stöðu - enda tapaði Framsókn nokkru fylgi í kjördæminu. Þau eru hins vegar að gjalda fyrir það að vera alltof litlausir stjórnmálamenn - eða það held ég. Það er hægt að ganga fram hjá þeim án þess að það kosti eitthvað vesen. Þau sitja bara og standa eins og þeim er sagt. Að því leytinu er ég ánægð með Árna sem ráðherra. Það var kominn tími á nýja kynslóð í ráðherraliðinu. Ég vona bara að hann eigi eftir að standa sig vel. Hann hefur allavegana komið mjög vel fyrir þessa fyrstu daga sem ráðherra. Svo er spurning hvað verði gert við Siv þegar íhaldið fær umhverfisráðuneytið. Hún á ekki eftir að taka því þegjandi að vera ýtt út í horn...

Ég er ekki að ná þessu fjárdráttarmáli hjá Símanum. Ég skil ekki hvernig það er hægt að draga að sér svona mikið fé án þess að Ríkisendurskoðun kveiki á perunni. Vissulega er þetta lítill hluti af veltunni hjá Símanum - svona þannig lagað séð - en hvar liggja áherslurnar hjá Ríkisendurskoðun?? Þeir leggja Þorfinn Ómarsson í einelti út af einhverjum smámunum en taka ekki eftir þessu.... Reyndar hefur allur kvikmyndaiðnaðurinn beðið eftir því að eitthvað yrði gert í málefnum Þorfinns því að hann neitaði Davíð Oddsyni og Hrafni Gunnlaugssyni um styrk í fyrravetur. Það átti bara að koma honum frá hvernig sem það yrði gert. Þessir gaurar ættu að vera meira vakandi í staðinn fyrir að vera að eyða tíma í svona kjaftæði!

Svakalega er Birgitta Haukdal farin að fara í taugarnar á mér. Mér hefur nú alltaf fundist hún vera bara ágæt stelpugreyið en það er einhvern vegin búið að vera alltof mikið af henni í fjölmiðlum að undanförnu. Of væmið dæmi fyrir mig..

Jæja, garnirnar eru farnar að gaula. Ég ætla að fara að sjá hvort að maturinn sé tilbúinn hjá Hlédísi og fara svo heim. Er búin að vinna í dag! Algjört lúxuslíf!!

26 maí 2003

Daddara - mér leiðist!!! Ég var með eitt próf í morgun og er löngu búin að fara yfir það og ganga frá því. Í dag er viðvera til kl 4 þannig að ég hef verið að reyna að finna mér eitthvað til dundurs. Byrjaði á því að ganga frá námsbókum og taka til á borðinu mínu. Það tók nú ekki langa stund svo ég hef verið að reyna að finna mér eitthvað til að skoða á netinu. Verst bara hvað ég er lítil netmanneskja og kann lítið að leita að einhverju skemmtilegu :(

Ég er alveg steindauð eitthvað. Er ekkert inni í neinu sem er að gerast og ef ég er búin að mynda mér skoðun á einhverju þá er ég búin að gleyma því þegar ég ætla að blogga um það.. Gullfiskaminnið er alveg að fara með mig núna. Ég reyndar horfði ekkert á fréttir í seinustu viku þannig að það er kannski bara ekkert skrýtið að ég sé ekki inn í neinu.. Bleh, ég er bara að bulla hérna. Ætla að sjá hvort það sé ekki einhver til að spjalla við inn á kennarastofu...

25 maí 2003

Taco pizza

Botninn (ein bökunarplata):
5 dl hveiti (má vera 4 dl hvítt og 1 dl heilhveiti)
1 tsk salt
1 bréf þurrger
2 msk oregano
2 msk ólífuolía
3 dl ylvolgt vatn

Þessu er öllu hrært saman og sett á bökunarplötu sem búið er að smyrja með olíu og sáldra pínu hveiti yfir (við settum nú smjörpappír undir botninn)

Deigið er næstum smurt á plötuna (ef þér finnst deigið blautt máttu bæta svolitlu hveiti saman við en það á að vera aðeins blautara en venjulegt pizzadeig). Pizzan er sett inn í kaldan ofn sem er svo stilltur á 200°C. Hún þarf ekki að hefast áður. Bakað í 3-5 mín, tekið út og gumsinu klístrað ofan á í þessari röð:

Taco sósa (styrkleiki eftir smekk)
ostur
hakk (steikt og kryddað með tacokryddi)
laukur
paprika
tómatar (smátt saxaðir)
ostur

Þetta er bakað í ofni við 200°C í 10-15 mín eða þangað til að pizzan er fullbökuð. Þá er Taco-snakki dreift ofan á pizzuna og hún sett aftur inn í ofninn og bökuð í 5 mín til viðbótar. Með þessu er gott að bera fram tacosósu og sýrðan rjóma. Algjört nammi!!!!

Fyrst ég er komin inn á þær nótur að birta uppskriftir hérna þá ætla ég að láta fljóta með uppskrift að ídýfu sem er algjört nammi með tortilla snakki..

Byrja á að blanda saman einni dós af sýrðum rjóma og einni krukku af cheese salsa sósu í eldfast mót. Saxa smátt niður 6-7 tómata, sigta safann frá og setja yfir. Næst að saxa smátt niður hálfan lauk og dreifa yfir. Síðan að saxa smátt niður iceberg salat og dreifa yfir laukinn. Lokaskrefið er svo að rífa niður mozarella ost og setja yfir allt saman. Þetta er borið fram kalt. Alveg rosa gott!!!!

Var að tala við mömmu - hún var ekkert að ná því að ég væri að setja uppskriftir inn á síðuna mína.. Batnandi fólki er víst best að lifa...

Aldrei er maður sáttur við sitt. Ég er búin að vera að reyna að njóta þess að vera í fríi í dag. Þarf ekkert að vinna eða gera. Og þá hundleiðist manni!! Verð að vinna alla næstu helgi og helgina þar á eftir og eflaust þar á eftir.. Á svona dögum saknar maður þess að eiga ekki kærasta :( Það verða samt varla margir svona dagar í sumar. Eða ég vona ekki. Ella fer að fara í Reykjarfjörðinn og Hrafnhildur verður fyrir sunnan í sumar.. Gunna Soffa verður reyndar hérna og aldrei að vita nema við djömmum eitthvað þegar við eigum frí í vinnunni.

Anyways, Ella eldaði tacopizzu fyrir okkur í gær. Hún var alveg þvílíkt góð!!!! Þarf að muna eftir að setja uppskriftina hérna inn. Við lágum afvelta fyrir framan Eurovision eftir matinn og sötruðum bjór. Hlógum mikið af sumum atriðunum sem voru alveg hreint yfirmáta hallærisleg. Mér fannst Gísli Marteinn vera full íhaldssamur þegar hann var að lýsa sumum búningunum. Það var ekkert þarna sem var ekki við hæfi barna eins og hann vildi meina. Eða ekki fannst mér það. Hann var samt nokkuð góður. Lifði sig alveg inn í þularhlutverkið.Birgitta og íslenski hópurinn stóðu sig virkilega vel. Voru landi og þjóð til sóma að mínu mati. Lagið sem vann fannst mér ekkert sérstakt, ég var heldur ekki alveg að fatta þessar bleiku slæður eða hvað sem þetta var. Öll umgjörðin um keppnina var hins vegar mjög flott. Sviðið var frábært og tölvugrafíkin í kringum stigagjöfina flott.

Jæja, ætla að fara að finna mér eitthvað að borða. Er að spá í að fá mér ekta brasaðan þynnkumat. Er samt ekketr þunn - þetta tilheyrir bara :p

24 maí 2003

Jæja, þá er Eurovision dagurinn runninn upp. Ég píndi mig til að vaka og horfa á Ungfrú Ísland. Steinunn hans Hauks Inga vann - og kemur það svo sem ekkert á óvart. Þegar ég vaknaði í morgun fór ég inneftir að sækja Kristinn Breka. Við fórum saman í fjöruferð. Vorum að moka holur og skoða fuglana sem voru dauðir í fjörunni. Við komum líka við á flotbryggjunum hérna. Röltum á bryggjuna og skoðuðum bátana. Kidda fannst voða merkilegt að bryggjan skyldi vagga undir honum. Hann þorði samt ekki að labba alveg út á enda - vildi ekki detta í sjóinn. Þegar við röltum heim á leið komum við við í búðinni og keyptum laugardagsnammi fyrir hann og ís. Síðan fórum við heim og horfðum á Harry Potter. Klukkan þrjú spurði hann svo hvað klukkan væri - sem var merki um að hann vildi fara heim til mömmu. Þá skutlaði ég honum inneftir og dreif mig svo heim. Maður þarf að fara að hafa sig til fyrir djammið í kvöld. Ég var að fatta að ég hef ekkert djammað síðan á páskunum - og það er alveg mánuður síðan!! Þetta er nú afrek hjá mér því að það er alveg búið að vera eitthvað um að vera síðan. Ég hef bara ekkert nennt að fara neitt. Eins og ég var búin að segja ætlar Ella að koma og elda fyrir mig tacopizzu. Una var svo að segja mér hvernig ég ætti að búa til almennilegt guacamole og ég ætla að gera heiðarlega tilraun til þess að búa það til. Það er víst ekki hægt að klúðra þessu segir Una.. Ég vona bara að það sé rétt hjá henni! Eftir Eurovision ætlum við að öllum líkindum á Kaffi Ísafjörð. BMX verður að spila þar. Það er hljómsveit frá Ísafirði fyrir þá sem ekki vita. Nokkuð góðir bara.

Ég er komin í þvílíkan þjóðhátíðarfíling. Eyjadiskurinn er alltaf í græjunum og pylsudiskurinn í bílnum. Er meira að segja farin að spá í hvað ég eigi að gefa Kidda og Hildi fyrir gistinguna í ár og hvað ég geti komið með matarkyns í hvíta tjaldið. Sálin og Skítamórall verða að spila - sem verður algjört flashback á fyrstu þjóðhátíðina mína sem var ´97. Agga er reyndar ekki viss um að hún komi - en ég treysti bara á að hún verði komin með geggjaðan fiðring í sumar og reddi sér fríi í vinnunni ;) Hjördís ætlar að koma líka sem þýðir bara að það verður ennþá meira flashback!! Ég held ég hafi ekki djammað með neinum öðrum en henni ´97. Við vorum líka svo samstíga þá :p Smá einkaprivate..

Pétur vinur minn var að ræða um einkamál.is á síðunni sinni í vikunni. Mig langar bara að styðja hann í umræðunni og opinbera það að ég er líka með nikk inn á einkamál. Ég las nokkuð góða grein um einkamál í Skýjum einhvern tíman í vetur þegar ég var að fara suður. Stelpan sem skrifaði greinina gerði tilraun inn á einkamál. Bjó til þrjú nikk í mismunandi flokkum og kannaði viðbrögðin. Hennar niðurstaða var að einkamál.is væri einfaldlega þverskurður af samfélaginu. Þarna inni er öll flóran. Allt frá perrunum til góða gæjans í næsta húsi. Vissulega þarf maður að hafa ýmislegt í huga og ekki gleypa við öllu en meirihlutinn af liðinu er bara fólk eins og ég og þú og kemur heiðarlega fram. Mikið af liðinu er orðið þreytt á djammhöstlinu sem skilar manni oftast litlu. Enda held ég að maður finni sjaldnast framtíðarmakann á djamminu. Allavegana, þar hefurðu það Pétur. Ef liðinu finnst við skrýtin þá erum við bara skrýtin saman!!

Jæja, er að spá í að leggja mig aðeins áður en ég fer í sturtu og hef mig til fyrir djammið. Er alveg steindauð eitthvað í augnablikinu. Það hlýtur að koma með smá lúr og einum köldum! Góða skemmtun í kvöld folks!!

23 maí 2003

Það er eitt sem ég var að spá. Í kvöld er lokaballið hjá 8.-10. bekk. Skyldumæting er hjá 10. bekk á ballið þar sem á að krýna bekkinn, þ.e. upplýsa um niðurstöður kosninga á elsta stiginu. Kosið var um herra og ungfrú, ljóskuna, frekjuna o.s.frv. Þegar niðurstöðurnar voru komnar kom í ljós að ekki fá allir í bekknum einhvern titil. Sumir fá marga á meðan aðrir fá engan. Ég er eiginlega á móti svona vinsældakosningum. Hvað er verið að segja krökkunum með þessu? Ef maður er vinsæll í svona kosningum að þá gangi manni vel í lífinu?? Það er svo innilega langt frá því. Frekar myndi ég vilja sjá að félagsmiðstöðin í samvinnu við kennarana myndi velja titil á hvern og einn nemanda 10. bekkjar í kveðjuskyni. Ég ræddi þetta við Siggu sem er með félagsmiðstöðina og ég vona bara að þessu verði breytt á næsta ári. Það er ekki gaman fyrir liðið sem ekki fær neinn titil að mæta á ballið í sínu fínasta pússi og fara svo heim tómhentur. Sérstaklega þegar skyldumæting er fyrir hann á ballið þar sem á að krýna ALLA í bekknum samkvæmt auglýsingunni.

Ungfrú Ísland er að fara að byrja á Stöð 2. Það var í fréttunum áðan að femínistar vildu komast þar að og veita viðurkenningu. Mér fannst soldið fyndið að sjá að fulltrúi femínista í fréttunum var Beta, konan sem ég leigði hjá á tímabili í fyrravetur. Já eða var ódýr húshjálp fyrir - depends on how you look at it... Allavegana, þær vildu gefa keppendum bol sem á stóð Manneskja en ekki markaðsvara. Ég er svo sem ekkert voðalega hlynnt svona keppnum. Maður hefur heyrt það frá stelpum sem hafa tekið þátt í svona keppnum að til sé á þeim svört hlið sem lítið sé rædd. En ef að einhver vill hins vegar taka þátt í svona keppni þá er það hans mál. Maður fylgist þá bara ekkert með ef maður hefur ekki áhuga á þessu. Ég sé ekki alveg pointið að vera svo heittrúaður á móti svona keppnum að maður standi í svona. Fyrir utan það þá eru margar manneskjur markaðsvörur án þess að koma neitt nálægt fegurðarsamkeppnum. Ég meina, hvað eru leikarar, módel, söngvarar, sjónvarpsfólk jafnvel..

Annars held ég að það sé ábyrgð foreldra að ala upp þann metnað í börnunum sínum að þau hugsi um fleiri hluti en hvernig þau líta út. Það getur fleitt manni áfram að vera voða sætur en ef maður pælir ekki í neinu öðru og hefur lítið á milli eyrnanna þá er maður í slæmum málum. Femínistar ættu því að beina kröftum sínum annað að mínu mati. Fólk gleymir alltof oft þeim áhrifum sem það getur haft á heiminn með því að ala upp góð gildi hjá börnunum sínum. Kröftunum er oftar beitt á aðrar slóðir og börnin fá svo leifarnar ef þau eru heppin. Það er eiginlega ekkert skrýtið að agaleysi sé orðið svona mikið vandamál í skólakerfinu þegar maður horfir til þess hversu algengt er að foreldrar eyði litlum tíma með börnunum sínum. En ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma..

Er alveg að berjast við að halda augunum opnum og klukkan bara rétt rúmlega 10 á föstudagskvöldi... Er að spá í að vera öfga lummó og fara bara snemma að sofa..

Þá er maður bara nánast kominn í helgarfrí - og ekki einu sinni komið hádegi! Þarf að fara niðrí skóla aftur á eftir og fara yfir próf með Dóru Línu og þá er maður alveg komin í helgarfrí. Var með tvö próf í morgun sem gengu bara ágætlega. Enskan í 8. bekk gekk mjög vel en ég var ekki eins ánægð með dönskuna í 7.b. Greinilegt að þau lærðu ekki mikið fyrir prófið mörg þar. Dagný og Haukur kíktu aðeins í heimsókn með Kristinn Breka í gærkvöldi. Hann var orðinn ansi þreyttur greyið enda búinn að vera á þeytingi allan daginn. Ég fæ hann svo lánaðan á morgun. Ætli við þrífum ekki bílinn eða eitthvað álíka ef veðrið verður áfram svona gott.

Ég kláraði peysuna mína alveg í gær og mætti í henni í skólann í dag - alveg rosalega stolt!! Mömmu finnst að það eigi að ramma hana inn og hafa mynd af öllum sem hafa hjálpað mér með hana með. Það yrðu þá ansi margar myndir :p Næsta skref er að prjóna peysu á Öggu - hún þarf bara að skipta garninu sem ég á eftir í lit sem henni líst á og senda mér.

Fyrsti leikurinn í þriðju deildinni hjá UMFB var í gær. Við spiluðum á móti Ísafirði - og að sjálfsögðu unnum við!! Varð bara að koma því að :p

Ég var að klára að lesa í gær bókina um flótta mæðgnanna frá Egyptalandi. Þetta var ágætis lesning, mér fannst hún samt ekki nógu vel skrifuð. Málfarið í henni böggaði mig soldið á meðan ég var að lesa hana. Ég mæli samt með henni fyrir þá sem ekki hafa lesið hana. Hún gefur ágætis innsýn í heim araba. Honum er lýst á fordómalausan hátt sem er kannski merkilegt miðað við reynslu þeirra af honum. Svona bækur fá mann samt til að hugsa sig að minnsta kosti fimm sinnum um áður en maður tæki upp samband við araba. Ekki það að arabar séu verri en aðrir - en saga þessara mæðgna er bara ekkert einsdæmi og langt frá því.

Þá erum við loksins búin að fá að vita hvernig ný ríkisstjórn verður skipuð. Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Ég hefði viljað sjá uppstokkun á ráðuneytum á milli flokkanna, þ.e. meiri heldur en að var. En það þýðir víst lítið að röfla yfir því núna. Ég vona bara að það verði meiri breytingar eftir fjögur ár þegar næst verður kosið.

Jæja, ég ætla að fara að drífa mig heim og þrífa aðeins. Við Ella ætlum að hittast á morgun og horfa á Eurovision. Ella ætlar að elda tacopizzu. Hún er búin að lýsa þessu fyrir mér og þetta hljómar alveg rosalega vel. Svo er bara einn (já eða tveir eða þrír :p) kaldur með!

22 maí 2003

Jæja, þá eru rólegheitin byrjuð. Ég var með fyrsta prófið í morgun - íslensku í 9. bekk. Ágætt að sitja yfir prófi hjá þeim. Þau spurja nánast aldrei að neinu, það liggur við að maður geti dottað yfir þeim - sem er fínt þegar maður er þreyttur :p Ég er búin að fara yfir prófið og slá einkunnirnar inn í kerfið og er meira að segja búin að prjóna peysuna mína!! Á bara eftir að sauma saman undir höndunum og fela enda. Dóra Lína ætlar að kenna mér það á eftir. Hún ætlar svo að þvo hana fyrir mig þannig að það er ekki öll von úti með að ég verði komin í peysuna þegar að amma kemur heim. Dagný og Haukur komu vestur í gær og verða hérna yfir helgina. Maður þarf að reyna að hitta þau eitthvað. Ég er að spá í að athuga hvort ég geti ekki fengið Kristinn Breka lánaðann aðeins. Kolla verður svo hérna á næstu helgi með eitthvað af sínu liði þannig að það verður nóg að gera næstu helgar.

Jæja, ætla að fara að finna hana Dóru og klára þessa peysu. Við þurfum svo reyndar að fara yfir íslenskuprófið sem var í 7. bekk í morgun. Ætla svo að drífa mig út í góða veðrið, fara í gönutúr með gönguhópnum og fara svo jafnvel í sund.

21 maí 2003

Smá fréttir fyrir Kollu: Hafrún hans Sólbergs eignaðist strák rétt fyrir hádegi í dag. Hann var 20 merkur og 56 sentimetrar. Jóa (hennar Sínu) eignaðist stelpu á mánudaginn. Hún fæddist 8 vikum fyrir tíman og var 8 merkur og 46 cm. Heiða (hennar Soffíu Gumma Haffsa) eignaðist strák í morgun. Veit ekki hvað hann var stór.

Jæja, þá er maður hættur að kenna þessum gríslingum. Bara prófin eftir. Ég var að enda við að klára allt sem ég þurfti að gera fyrir prófin. Gera allar hlustanir og kennaraeintök. Núna eru allar spólur klárar og allt tilbúið þannig að næsta vika fer bara í að fara yfir próf og ganga frá dótinu mínu. Ég verð að prjóna á fullu í kvöld. Þurfti að rekja fullt upp í gær - þegar ég var nánast búin með peysuna því hún passaði ekki alveg yfir axlirnar. Ég er samt komin langleiðina með að prjóna þetta, ætla að sjá hvað ég kemst langt í kvöld. Ég ætlaði nefnilegast að vera búin með peysuna þegar að amma kæmi heim - en hún kemur heim á föstudaginn þannig að ég veit ekki alveg hvort það náist. Ég reyni allavegana!

Það er frétt inn á bb að það sé búið að kæra manninn sem lenti í slysinu á Kirkjubólshlíðinni í haust fyrir manndráp af gáleysi. Hann ók bílnum, en með honum var konan hans og tvær stjúpdætur sem allar létust í slysinu. Í fyrra var strákur í Súðavík líka kærður fyrir manndráp af gáleysi en hann fór út af og einn vinur hans, sem lá sofandi í aftursætinu, dó. Ég veit ekki alveg hvað löggan á Ísafirði er að spá. Er það ekki nóg refsing fyrir fólkið að hafa misst sína nánustu í slysinu?? Og að þurfa að lifa með því það sem eftir er? Þarf að kæra það líka?!??! Ég er ekki alveg að ná svona vinnubrögðum....

Jæja, þarf að drífa mig heim. Á að vera mætt í gönguhópinn kl. 6. Var að spá í að hlífa hnénu og fara bara á morgun en það er bara svo gott veður að ég ætla barasta að drífa mig. Þarf að fá frískt loft eftir að vera búin að sitja inni í allan dag!

19 maí 2003

Þá er maður búinn í göngutúrnum. Við gengum 3,8 km samkvæmt göngumælinum hennar Ellu. Hnéð á mér var ekki alveg að meika svona rösklega göngu og sit ég því með kælipokann á því núna. Það var samt hressandi að drífa sig svona út. Þarf bara að vera dugleg að því í sumar svo ég þurfi ekki áfram að nota svona stór númer ;)

Ég kom við á bókasafninu á leiðinni heim. Tók bókina þar sem er verið að lýsa flótta mæðgnanna frá Egyptalandi. Man ekki alveg hvað hún heitir. Ætti að vera fróðleg lesning. Fékk síðan að grípa nýjasta Mannlíf með mér heim. Þar var frekar áhugaverð grein sem fjallaði um framhjáhaldsbörn. Í kjölfarið á greininni var viðtal við konu sem eignaðist barn með giftum manni og svo eiginkonu mannsins. Dæmið var víst þannig að gaurinn hitti gelluna í vinnupartýi og þau fóru saman heim. Ekkert meira varð síðan úr því. Gellan kemst svo að því að hún er ólétt og lætur gaurinn vita. Hann brotnar saman fyrir framan konuna sína og segir henni að hann eigi von á barni með annarri konu og segir henni alla sólarsöguna. Hún reynist vera svona líka skilningsrík, fyrirgefur framhjáhaldið og barnið er hluti af familíunni í dag. Það voru tekin viðtöl við konurnar sitt í hvoru lagi. Viðhaldið fékk náttúrulega frekar mikið sjokk þegar hún komst að því að hún væri ólétt, en þar sem hún hafði áður haldið að hún gæti ekki átt börn þá kom ekki annað til greina en að eiga barnið. Sem maður getur svo sem skilið. Hún lætur gaurinn vita og þá berst sagan til konunnar hans. Það sem vakti athygli mína í viðtalinu við hana þá taldi hún þau vera fullkomlega hamingjusöm þegar framhjáhaldið átti sér stað og fyrst á eftir var hún í því að hugga hann og telja honum trú um að hún væri ekkert að fara neitt. Hún tekur þá skynsamlegu (en sjaldgæfu) afstöðu að það sé ekki barninu að kenna hvernig það varð til og fer með manni sínum að sjá barnið þegar það er nýfætt. Þau taka barnið eins og þau geta í dag og það er hluti af þeirra fjölskyldu. OK, ég dáist að því þegar fólk getur sýnt þann þroska að taka barninu og láta það ekki gjalda fyrir það sem fullorðna fólkið hefur gert. Það er alltof sjaldgæft að fólk geti sett hagsmuni barnanna ofar sínum eigin í svona málum. Ég hef hins vegar mikið pælt í því hvað fólk sé að hugsa sem fyrirgefur framhjáhald. Var konan í þessu dæmi hérna fyrir ofan að meta dæmið rétt að hún og maðurinn hennar væru hamingjusöm? Ég meina, ef maður er hamingjusamur í sambandi fer maður þá og sefur hjá einhverjum öðrum?? Setur maður þá ekki ákveðnar spurningar og endurmetur stöðuna ef svona kemur upp? Kannski gerði þetta fólk það og mér kemur það náttúrulega ekkert við, en ég hef bara aldrei skilið hvernig fólk getur fyrirgefið framhjáhald. Í mínum huga er ekki hægt að brjóta traust annarrar manneskju meira og þó svo maður gæti kannski fyrirgefið manneskjunni með tíð og tíma þá væri samt grundvöllur sambandsins horfinn. Ég held nefnilegast að maður fyrirgefi framhjáhald aldrei alveg ef maður heldur sambandinu áfram. Jú, maður segist vera búinn að því en hvað ef makinn skilar sér ekki heim á réttum tíma eða eitthvað álíka? Hvað væri það fyrsta sem manni kæmi í hug? Jú, ekki skyldi hann vera að... Það þarf mikið til að endurvekja traustið en alveg óskaplega lítið til að brjóta það allt niður aftur. Maður elskar manneskjuna kannski ennþá - enn stundum er það bara ekki nóg.. En jæja, ég ætla ekki að vera að velta mér upp úr annarra manna vandamálum. Ég hef bara alltaf velt þessu mikið fyrir mér. Held að ég gæti aldrei fyrirgefið svona lagað..

Jæja, bara tveir kennsludagar eftir! Ég náði að klára bæði sérprófin sem ég þurfti að semja áðan og er langt komin með enskuprófið fyrir 8. bekk. Þá ætti ég að ná að klára allt á morgun og þá þarf ég bara að fara yfir prófin í prófavikunni og ganga frá bekknum mínum. Ef það gengur upp á ég frí á helginni og allt!! Best að njóta þess í botn því það verður langt þangað til að ég á eftir að eiga almennilegt frí á helgi. Byrja líklegast að vinna á Skýlinu á Sjómannadaginn - og verð að vinna í skólanum 31. maí. Næstu viku á eftir á ég eftir 4 daga í skólanum, en verð þá bara að vinna á báðum stöðum þá vikuna. Það ætti varla að vera mikið mál.

Ég var að sjá það á bb.is að það verður engin hátíðardagskrá vegna Sjómannadagsins á Ísafirði í ár. Hvað er eiginlega í gangi???? Alveg frá því að ég man eftir mér hefur þetta verið einn stærsti hátíðisdagur ársins. Ennþá klæðir maður sig í betri föt á Sjómannadaginn og fer niðrá bryggju að fylgjast með hátíðahöldunum og í kaffi í Slysavarnarhúsinu á eftir. Það er alveg hræðileg þróun ef hætt verður að halda upp á þennan dag - og það á Ísafirði af öllum stöðum. Ástæðurnar sem gefnar eru upp eru að mikið tap hafi verið af Sjómannadeginum í fyrra og ekki sé áhugi fyrir því hjá sjómönnum að halda daginn hátíðlegan. Ég er bara ekkert að skilja þetta.

Jæja, er algjörlega tóm í haus. Ætla að drífa mig út í búð og finna mér eitthvað að borða. Ætla svo að fara í göngutúr með gönguhópnum í kvöld.

18 maí 2003

Jæja, þá er nú orðið langt síðan ég bloggaði seinast. Ég náði að klára fimm próf fyrir helgina og ætla að klára restina á morgun og hinn. Ég fór suður á föstudaginn. Kíkti aðeins með mömmu á Players á föstudagskvöldið. Var að keyra hana. Það var alveg ágætt. Hitti Axel og Sigurborgu. Á laugardeginum fór ég svo í búðir!! Keypti mér samt ekkert mikið. Ég keypti mér boli í Zöru og nærföt í Debenhams. Ætlaði að kaupa mér buxur í Zöru líka en lenti í algjörum vandræðum með að finna eitthvað sem passaði. Endaði í Gallabuxnabúðinni í dag og fékk þar fínar buxur. Rakel var alveg að eyðileggja sjálfstraustið mitt þegar umræðan kom að þeim fötum sem ég passa ekki í lengur. Hún sagði að ég væri ekkert feit - ég notaði bara stórt númer! That didn´t excactly make my day... Í gærkvöldi fór ég svo í laaangt bað heima hjá mömmu. Var svo alveg húðlöt á eftir og nennti engu. Lá bara upp í sófa með mömmu og horfði á sjónvarpið. Það var alveg frábært. Vaknaði svo í hádeginu til að horfa á formúluna. Raikkonen stóð fyrir sínu eins og svo oft áður. Coulthard greyið kláraði allavegana.

Þá á maður bara eftir að kenna í þrjá daga. Þá er prófavikan eftir og síðan á maður ekkert eftir að hafa af þessum gríslingum að segja. Á vissan hátt verður maður fegin en samt á maður eftir að sakna þeirra. Mér finnst ég eiga pínu í þeim öllum. Það verður allavegana gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni! Sjá hvort að maður hafi haft einhver áhrif á þau.

Mér fannst það öfga fyndið þegar ég sá það á bb.is að gaurinn sem hefur verið í fangelsi í Saudi Arabíu (minnir mig) fyrir ólöglegan vopnaburð sé Ísfirðingur. Eitthvað svo týpískt fyrir Ísfirðing að lenda í einhverju svona :p

Það var í fréttunum á helginni að Kvenréttindafélag Íslands sé mjög ósátt með útkomu kvenna úr kosningunum. Það skipti öllu máli að hafa fleiri konur á listum flokkanna t.d. með notkun fléttulista. Fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er það þegar konu og karli er raðað til skiptis í sæti á listanum. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki alveg sammála þeim. Vissulega komu konur illa út - en það var heldur ekki mikið framboð af hæfum konum yfir höfuð! Ég er algjörlega á móti þeim áróðri sem Samfylkingin t.d. rak um það að maður ætti að kjósa konu - og aðalástæðan fyrir því að þú ættir að kjósa hana var að hún væri kona. Þær ættu frekar að beina áróðri sínum að konum - að fá hæfar konur til að fara út í pólitík! Ég tala nú ekki um ungar, hæfar konur. Það er sá hópur sem við þurfum virkilega að fá inn á þing. Annars var ég ánægð með útkomu ungliða á kosningunum - í öllum flokkum. Það var alveg kominn tími á að lækka meðalaldurinn á þinginu. Það verður gaman að sjá hvernig þau eiga eftir að standa sig.

Alveg er ég ekki að ná gaurnum sem rændi bankann í vikunni. Hafði ekki einu sinni fyrir því að setja á sig grímu! Stupid people!! Svo var hann með yfir hausnum á sér í fréttunum þegar búið var að sýna myndir af honum í öllum fjölmiðlum. Fram að þessu ári hafði löggan aldrei upplýst bankarán á Íslandi þannig að maður beið bara eftir því að einhver klár pældi allt dæmið út og drifi í því að ræna eins og einn banka. Ég verð samt að viðurkenna að ég bjóst ekki við annarri eins heimsku og þarna. Greyið strákurinn hlýtur að hafa verið á einhverju.

Það er eitt sem ég bara verð að deila með ykkur. Ég fór í Debenhams í gær til að kaupa mér brjóstahaldara. Þar fær maður ráðgjöf um hvaða stærð maður þarf og fær líka almennilega haldara á viðráðanlegu verði. Ég labba þarna inn og bið um aðstoð. Konan spyr mig hvaða númer ég noti og ég segi 34B. Hún horfir þá bara á mig og segir nei það gerir þú ekki. Hún byrjaði á að koma með C- haldara INN Í mátunarklefann. Ég stóð þarna eins og hálfviti á brjóstunum og var að fara að máta einhvern haldara þegar konan kom bara inn og fór að klæða mig í! Pínu vandræðalegt. En allavegana, C-haldarinn passaði ekki og ég labbaði út með D-skálar!! Ég!! Sem hefur alltaf fundist ég vera með svo lítil brjóst!!! En ég get víst ekkert þrætt við kelluna - brjóstahaldarinn er alveg rosa flottur og smell passar!

Jæja, ætla að fara að prjóna aðeins áður en ég fer í háttinn. Ætla bara að minna alla á að skrifa í gestabókina!!!

14 maí 2003

Núna er ég alveg búin á því. Búin að tala við meirihlutan af foreldrunum í umsjónarbekknum mínum í dag og í gær. Það tekur gjörsamlega úr manni allan kraft þegar svona vesenismál - ef hægt er að orða það þannig - koma upp. Ætla samt að reyna að semja meirihlutan af prófunum fyrir helgina. Ég pantaði mér far suður áðan, ætla að fara suður á föstudaginn og vestur á sunnudaginn. Verð bara aðeins að koma mér héðan í burtu. Langar að eiga smá stund þar sem enginn er að fylgjast með því sem ég er að gera eða að blaðra um það. Er ekki alveg að sjá fram á það í augnablikinu að ég meiki að vera hérna í sumar, en það hlýtur að reddast. Maður er allavegana ekki að taka vinnuna á Skýlinu með sér heim og ekki verið að hringja í mann á ótrúlegustu tímum sólarhringsins út af vinnunni. Maður verður bara að vera duglegur að þrauka síðustu kennsludagana, þá er mesta álagið búið. Í prófavikunni þarf maður bara að fara yfir prófin og ganga frá dótinu sínu. Þá fer maður að sjá fyrir endann á allri þessari vinnu. Það er kannski ekkert skrýtið að maður sé búinn á því eftir að hafa verið í svona mikilli vinnu í allan vetur - það væri lúxus ef maður væri bara að kenna 100%!! Já og væri að kenna það sem maður væri virkilega góður í.. Er búin að vera að skoða íslenskupróf og er ekkert að sjá hvernig ég eigi að klambra saman almennilegum prófum fyrir 8. og 9. bekk. En þetta reddast víst alltaf á endanum...

12 maí 2003

Ég er búin að vera ekkert smá dugleg í dag! Er búin að búa til upprifjunarverkefni í dönsku fyrir bæði 7. og 8. bekk, ganga frá upprifjunarverkefnum í ensku fyrir alla bekkina og íslensku líka. Einn strákurinn í 7. bekk gaf mér skrifaðan geisladisk þegar hann var að fara heim úr skólanum. Hann fór með mér að sækja pizzurnar inneftir í seinustu viku þegar þau komu heim til mín og mislíkaði eitthvað tónlistin sem var í bílnum. Ég var með SS-pulsudiskinn í - er komin í nettan þjóðhátíðarfíling þó svo það sé bara maí :p Þetta er nú samt ágætis diskur hjá honum. Ég setti hann í tölvuna, náði mér í headphones inní tölvustofu og er svo bara búin að vera að vinna á fullu. Er að vona að ég geti verið búin að semja öll prófin fyrir helgi. Það ætti nú að takast ef ég verð í svona vinnustuði. Ég þarf samt eiginlega að semja 4 próf á morgun - hmm, æi það hlýtur að reddast. Næstum öll enskuprófin - það er nú minnsta málið!

Jæja, ætla að fara að drífa mig út í góða veðrið. Þarf að fara til ömmu og ná í peysuna sem ég er að prjóna. Ég þurfti að rekja fullt upp í gær :( Ekki gaman. Amma fer svo suður í fyrramálið. Hún, Bogga og Illa (systur hennar) ætla að keyra saman suður í ömmubíl. Það verður eflaust nettur taugatitringur hjá familíunni að vita af þeim kellingunum á þjóðveginum - en þær hljóta að bjarga sér. Amma og Illa keyrðu þetta í fyrra og þeim gekk bara vel - voru bara rétt 6 tíma! Amma er svo að fara til Köben ásamt öllum systkinum sínum að heimsækja Heiðu systur þeirra sem býr þar. Ég verð því bara ein í kotinu á meðan og lifi væntanlega á samlokum, örbylgjumat og fleiru hollu og uppbyggilegu :p En jæja, 8. bekkur á að mæta heim til mín kl hálf 8 og ég á eftir að fara til ömmu. Verð að drífa mig..

11 maí 2003

Þá er maður vaknaður eftir langa nótt. Ég fór að sofa kl hálf 7 en þá var ekkert útlit fyrir að lokatölur væru neitt á leiðinni. Það reyndist vera skynsamlegt hjá mér því úrslitin urðu ekki ljós fyrr en hálf 10 í morgun. Það kom mér soldið á óvart að Stöð 2 cuttaði á kosningasjónvarpið hjá sér um fjögur leytið. Þrátt fyrir að Elín og Bogi væru skrautleg - sérstaklega undir restina þegar það var kominn svefngalsi í þau bæði - þá vann RÚV kosningasjónvarpsstríðið. Mjög lame hjá Stöð 2 að klára ekki kosningarnar.

Úrslitin breyttust nú eitthvað eftir að ég fór að sofa. Samt ekki hérna í Norð-Vesturkjördæmi. Greinilegt var að atkvæðunum var ekki ruglað saman áður en þau voru talin. Frjálslyndir komu sterkir inn undir restina þegar Vestfjarðaatkvæðin voru talin. Ingibjörg Sólrún er úti sem kemur kannski ekki mikið á óvart. Það sem mér finnst vera stórtíðindi kosninganna er hvað íhaldið tapar miklu. Jú vissulega mátti búast við því - en að þeir tapi fyrir Samfylkingunni í Reykjavík Norður, sem er höfuðvígi Davíðs, eru stórtíðindi. Þó svo að stjórnin haldi velli þá er erfitt fyrir Davíð að ætla að leiða ríkisstjórn áfram þegar hann nær ekki að vera fyrsti þingmaður í sínu kjördæmi.Einnig er mikið áfall fyrir Tómas Inga Olrich og Halldór Blöndal að ná ekki betri árangri. Ráðherra og Forseti þingsins.. Þeir fengu margar útstrikanir líka sem er ekki gott. Framsókn heldur hins vegar nokkurn vegin sínu kjörfylgi og á því meira erindi í ríkisstjórn heldur en íhaldið. Það er í raun mikill sigur fyrir Framsókn að halda sínu eftir 8 ára stjórnarsetu með mörg af óvinsælustu ráðuneytunum. Sérstaklega þar sem sagan sýnir að flokkar tapa venjulega mikið á því að vera í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn á meðan að þeir halda sínu. Núna er þessu eiginlega öfugt farið. Vinstri grænir eiga lítið erindi í ríkisstjórn. Þeir eru búnir að vera í stjórnarandstöðu og tapa manni - sem er mjög lélegt fyrir stjórnarandstöðuflokk. Ég sé hins vegar ekki fyrir mér að Halldór og Össur myndi saman stjórn með Frjálslyndum. Eini ráðherrastóllinn sem kæmi til greina fyrir þá er sjávarútvegsráðherrann - og ég sé alls ekki fyrir mér að Framsókn og Samfylking sætti sig við Adda Kitta Gau sem sjávarútvegsráðherra. Núverandi stjórnarflokkar eiga vafalaust eftir að spjalla saman - enda verður engum gefið stjórnarmyndunarumboð fyrr en gamla stjórnin hefur endanlega verið afskrifuð. En miðað við útkomu íhaldsins þá verður varla áframhaldandi stjórn. Þá er eiginlega orðin spurning hvort að Framsókn og Samfylking myndi stjórn. Þó svo hún byggist bara á eins manns meirihluta þá gæti það verið betra heldur en að taka Vinstri græna eða Frjáslynda inn til að tryggja stærri meirihluta. Það ætti allavegana að vera auðveldara fyrir þessa tvo flokka að ná saman málefnalega séð og því minni líkur á að ágreiningur komi upp. Fyrir utan það að svona tæpur meirihluti gæti ýtt undir það að málin yrðu bara einfaldlega betur unnin því það væri ekki eins auðvelt að keyra þau í gegnum þingið. En þetta skýrist nú allt á næstu dögum.

En jæja, þá getur maður farið að snúa sér að einhverju öðru en þessum blessuðu kosningum sem eru búnar að vera allsráðandi undanfarna mánuði. Ég ætla að drífa mig í sturtu og fara svo niðrí skóla að vinna aðeins. Síðan ætla ég til ömmu og prjóna eins og mest ég má. Reyna að klára eins mikið og ég get áður en að amma fer suður á þriðjudaginn. Síðan tekur bara við vinna og meiri vinna. Þarf að semja 7 próf í vikunni og finna heilan helling af upprifjunarverkefnum. Það verður því lítið líf næstu vikuna. Ætla mér að vera búin að þessu öllu á næstu helgi. Ætla mér bara að vera í frágangsvinnu og yfirferð á prófum í prófavikunni. Vona bara að ég nái því! Síðan verð ég að fara að tala við Huldu Karls um hvenær ég á að byrja á Skýlinu - best að reyna að gera það á morgun.

Jæja, þá er langt liðið á kosninganótt. Framsókn er bara að koma vel út, ég fylgist samt spennt með því hvort að Herdís, þriðji maður Framsóknar hér í NV-kjördæmi, komist inn. Það er raunhæft - bara spurning hvar jöfnunarmaður Framsóknar lendir. Hann er búinn að vera að flakka á milli kjördæma. Sjálfstæðisflokkurinn kemur illa út. Kosningavökur þeirra hérna fyrir vestan voru víst næstum eins og líkvökur. Það er mikið áfall fyrir Davíð að vera ekki 1. þingmaður Reykjavíkur norður - sem átti að vera höfuð vígi íhaldsins. Spurning hvað kallinn gerir. Ég hef enga trú á að hann fari að vinna í stjórnarandstöðu í þinginu ef íhaldið fer ekki í stjórn. Hann hættir þá frekar - annað hvort fljótlega eða á kjörtímabilinu. Samfylkingin er að koma vel út - sérstaklega hjá Stjána Möller í Norð-Austurkjördæmi. Mér finnst frábært að sjá hvað hann er að standa sig vel. Hann ætti að eiga tilkall til ráðherrastöðu ef Samfylkingin fer í ríkisstjórn. Vinstri grænir eru að tapa. Það kemur mér sérstaklega á óvart að sjá að þeir tapa í heimakjördæmi Steingríms. Þeir koma samt ágætlega út hér í NV-kjördæmi. Jón Bjarnason er t.d. 7. þingmaður kjördæmisins - er fyrir ofan Adda Kitta Gau sem maður hefði nú haldið að hefði meira fylgi en Vinstri grænir hér.. Það hefur komið flestum á óvart. En Frjálslyndir hafa verið að tapa fylgi seinustu daga, Addi hefur ekki alveg verið að meika pressuna og klikkað á að heilla sjóarana. En þó svo að klukkan sé orðin fjögur og talningu lokið í þremur kjördæmum er þetta langt frá því að vera orðið ljóst. Norð-Austurkjördæmi ætti að klára sitt fyrir 5, spurning hvort að Norð-Vesturkjördæmi nái að klára fyrir þann tíma. Stóra spurningin er eiginlega Suðurkjördæmið. Það komu tölur þaðan á milli 10 og 11 og síðan hefur ekkert heyrst. Það gæti breytt stöðunni talsvert þar sem aðeins var búið að telja lítinn hluta atkvæða þar þegar fyrstu tölur komu.

Ég hef fylgst með kosningasjónvarpinu á RÚV. Elín Hirst og Bogi Ágústsson eru alveg hræðileg. Vita ekkert hvað þau eru að gera. Þau eru alltaf að fylgjast með vaktinni - sem er yfirlit yfir valda einstaklinga, hvort þeir séu inni eða ekki. Þau fylgjast hins vegar ekkert með því hvernig jöfnunarsætin breytast. Sem væri í raun og veru lógískara því þar eru breytingarnar. Það er mikil hreyfing á þeim og þó nokkrir sem skiptast á að vera inni og úti. Svo kunna þau ekkert á kosningakerfið sitt. Voru ekkert að geta útskýrt það í byrjun kvöldsins. Bogi er svo duglegur að láta út úr sér afar mis gáfulega hluti og Elín hlær og hlær að honum. Hálf vandræðalegt að fylgjast með þeim greyjunum. Annað slagið hefur verið skipt yfir á Stöð 2 þar sem Árni Snævarr hefur verið á álíka plani og Bogi með mis góð komment. Vorum ekki alveg að festa athyglina þar.

Jæja, ætla að klára að horfa á kosningasjónvarpið og sjá hvernig þetta fer allt saman áður en ég tjái mig eitthvað meira um þetta.

09 maí 2003

Ég kíkti inneftir áðan á fjölskylduhátíð Framsóknar á Silfurtorgi. Ætlaði að fara og fá mér pulsu og grænan ís í góða veðrinu. En nei nei. Ég gaf fullt af liði ís... Ég gaf fullt af liði fána.. En ég fékk engan ís og enga pulsu. Það er víst svona að eiga stjórnmálamenn fyrir foreldra. Maður hefur verið nýttur í allan fjandann í gegnum tíðina - oftast launalaust. Það hefur nú samt minnkað undanfarin ár. Pabbi hefur ekki einu sinni verið með áróður á mig í þessari kosningabaráttu. Enda hugsa ég að ég hefði ekki kosið hann ef hann hefði gert það.

Anyways, skoðanakannanirnar núna eru almennt góðar fyrir Framsókn. Baráttan hér í Norðvesturkjördæmi snýst um að ná þriðja manninum inn. Það er alveg raunhæft - en samt er engann veginn hægt að sjá fyrir um þetta. Íhaldið, Samfylkingin og Framsókn eru eiginlega hnífjöfn hérna. Einar Oddur er víst úti samkvæmt nýjustu könnunum og íhaldið byrjað með hræðsluáróðurinn. Ég held að það sé spurning um hvernig þeir og Framsókn spila úr seinasta sólarhringnum hvernig þetta fellur. Kannski verður Einar Oddur inni - og kannski Herdís hjá Framsókn. Framsókn hefur reyndar aðeins betri stöðu heldur en íhaldið - þeir þurfa ekki að vera í hræðsluáróðri. Íhaldið var að dreifa miðum í hús áðan þar sem eini boðskapurinn var að halda Einari Oddi á þingi. Það stóð ekkert annað á miðanum.. Nær varla til þeirra sem ekki hafa kosið íhaldið hingað til. Spurning með þá sem hafa kosið þá, hversu vinsæll Einar Oddur er. Bolvíkingarnir vita að Einar Kristinn er öruggur inn. Ég hugsa að það sé nóg fyrir þá. En íhaldið á alltaf sitt fasta fylgi, það verður því fróðlegt að sjá hvort þeir nái til þess fólks á lokasprettinum. Ég ráðlagði pabba að stíla lokabaráttuna inn á það að fólk væri að kjósa Vestfirðinga á þing. Ekki að fara inn á þetta kjósa konu kjaftæði. Mér til mikillrar undrunar var farið að mínum ráðum og dreifibréf sent í hús í gamla Vestfjarðakjördæminu þess efnis að með því að kjósa Framsókn ætti fólk möguleika á því að fá inn tvo Vestfirðinga sem þingmenn og einn varaþingmaðurinn yrði Ísfirðingur. Það verður fróðlegt að sjá hvort að ég sé að lesa dæmið rétt og þetta virki.. Samfylkingin hefur verið að nota konutaktíkina hérna. Þetta er algjört karlakjördæmi og þeir vilja meina að þú verðir að kjósa Samfylkinguna til þess að fá konu á þing fyrir kjördæmið. Þetta dreifibréf fór beint í ruslið hjá mér. Ég hef engann sérstakann áhuga á því að sjá konu á þingi fyrir þetta kjördæmi - eða nokkuð annað ef því er að skipta - sem er kjörin eingöngu vegna þess að hún er kona. Ég vil sjá hæfa einstaklinga sem berjast fyrir tilvistarrétti okkar Vestfirðinga.

Í augnablikinu er seinasti umræðuþátturinn fyrir kosningar. Formenn flokkanna - og Ingibjörg Sólrún - á báðum rásum. Ég byrjaði nú á því að hlusta en gafst upp á því. Maður veit alveg hvað liðið segir. Ingibjörg og Davíð eru langt frá því að vera málefnaleg í sinni umræðu, eru eins og litlir krakkar að reyna að skjóta hvort á annað. Steingrímur er alltaf góður í svona þáttum - en hann er samt voðalega einn á báti eitthvað þarna. Halldór er að koma ágætlega út. Enda er hann í ágætri stöðu, hefur í raun engu að tapa. Davíð er að missa sig í hræðsluáróðri - eins og íhaldinu er von og vísa. Nýtt afls gaurinn er nú alveg allt í lagi. Mesta furða alveg. Hugsa samt að hann veiði ekkert mörg atkvæði út á þetta. Addi Kitta Gau er bara þarna. Hann er aldrei góður í svona þáttum. Enda er hann enginn stjórnmálamaður. Hann ætti bara að drífa sig aftur á sjóinn.

Well, Friends er byrjað. Er að spá í að fara út á sjoppu þegar Friends er búið og koma mér vel fyrir. Er bæði með About a Boy á DVD sem ég þarf að horfa á - og Cold Feet þáttinn síðan á miðvikudaginn. Fékk hann lánaðann hjá einni stelpunni í bekknum mínum í dag :P Svo bara snemma að sofa, föstudagur í mér.

Jæja, kominn föstudagur og veðrið er alveg frábært!! Soldið kalt - en sól og bara alveg yndislegt veður. Ég fór með 8.bekk upp á Skeiði í leiki. Það var svaka gaman. Ég lét þau fara í þrautakóng á leiðinni upp á Skeiði. Smá mál fyrir sumar gelgjurnar að láta pínu eins og fífl en það kom eftir smá stund. Síðan fórum við í Stórt skip og lítið skip og Dimmalimm. Svo enduðum við á því að fara í actionary og löbbuðum svo fram í hesthús og í skólann. Alveg frábært. Núna ætla ég að fara að drífa mig inneftir að versla með ömmu. Fara jafnvel í grill hjá Framsókn og fá mér pulsu.

08 maí 2003

Kolla var eitthvað að kvarta við ömmu að ég væri hætt að setja hérna inn hvað hún gæfi mér að borða. Í gærkvöldi hrærði amma fyrir mig ekta Ísafjarðarskyr og það borðaði ég með kaffirjóma af bestu lyst! Um daginn fékk ég hjörtu - algjört sælgæti. Svo var amma með fiskirönd og spaghetti í fyrradag. Amma er soldið hrifin af spaghetti held ég - hefur það með ólíklegustu hlutum! Í kvöld kemur 7. bekkur til mín að horfa á Harry Potter. Þau ætla að fá að panta pizzu þannig að ég fæ pizzu í kvöld.

Anyways, bara tveir dagar til kosninga. Framsókn var að opna kosningaskrifstofu hérna í Bolungarvíkinni í gærkvöldi. Ég ætlaði bara aðeins að kíkja. Settist niður með prjónana mína og sat þangað til að ermin var tilbúin. Það var að koma út ný Gallupkönnun fyrir Norðvesturkjördæmið og Framsókn er að koma svona líka vel út. Pabbi yrði kjördæmakjörin og næsti maður inn er þriðji maður Framsóknar. Vantar innan við hundrað atkvæði til að koma henni að. Gísli S. myndi þá detta út á móti og spurning hvað yrði með Jón Bjarnason hjá Vinstri-Grænum en hann er uppbótarmaður samkvæmt könnuninni. Þessi könnun er ekki alveg í samræmi við þá sem var á landsvísu. Ég er að vísu ekki alveg að kaupa þá könnun. Svarhlutfallið er ekki nema 66%- og venjulega er talið að svarhlutfall þurfi að vera yfir 70% til að könnun teljist marktæk. Ég er því ekki viss um að þessi 6% fylgisaukning Samfylkingarinnar sé raunveruleg. Annars held ég að það verði ekkert hægt að sjá fyrir um þetta fyrr en talið verður upp úr kjörkössunum. Annars finnst mér soldið fyndið að sjá hvað Íhaldið er orðið hrætt. Staðan hjá þeim er ekki góð. Fólk virðist búið að vera fá nóg af hrokanum í Davíð. Enda er hann ekki beint að koma vel fyrir finnst mér þessa seinustu daga fyrir kosningar. Halldór virðist hins vegar allur vera að koma til. Magga Frímanns finnst mér líka koma vel út. Hún tók alla gaurana í nefið í Íslandi í dag á þriðjudaginn. Addi Kitta Gau hefur ekki verið að standa sig vel. Er ekki góður í að svara fyrirspurnum og þess háttar - sem er ekki gott. Hann kemur sér alltaf einhvern vegin undan því að svara. Fyrir utan það að fyrsti maður Frjálslyndra í Suðurkjördæmi sagði það í Íslandi í dag að þeir væru ekki búnir að mynda sér stefnu í heilbrigðismálum.. Ekki beint traustvekjandi að heyra svona frá stjórnmálaflokki nokkrum dögum fyrir kosningar... Svo var Pétur að minnast á Nýtt afl... Ég veit ekki um neinn sem hlær ekki að því framboði.. Hildur Helga með geiflurnar sínar... Ja, það væri allavegana stuð fyrir Spaugstofuna ef hún færi á þing!! Spurning samt hver gæti leikið hana :p

Svakalega var ég hneyksluð í fyrra kvöld þegar var verið að fjalla um málefni forstjóra ÚA. Að maðurinn skuli leyfa sér að senda svona bréf á alla starfsmenn fyrirtækisins. Enda var ég ánægð að heyra að Dagsbrún (minnir mig) og ASÍ hefðu ályktað um þetta mál. Segja að þetta sé brot á vinnulöggjöfinni. Ég þekki hana nú reyndar ekki - en það getur bara ekki verið að svona bréfaskriftir séu löglegar! Hvurs konar lýðveldi búum við þá við?? Maðurinn hefur vettvang í fjölmiðlum til að tjá sínar skoðanir - að senda svona innan fyrirtækisins er fáránlegt!!

Rosalega fannst mér gaman að heyra að Pétur vinur minn hefði farið á kosningafund. Ég þoli ekki þegar fólk kýs bara út í bláinn. Ef það hefur enga skoðun á málunum á það bara að skila auðu - ekki að kjósa eins og einhver annar segir því að gera. Málefnalega séð er ég mest sammála Framsókn - skv afstada.net - en ég reyndar fer ekki bara eftir málefnunum þegar ég er að ákveða hvað ég ætla að kjósa. Ef ég hef enga trú á fólkinu sem er í framboði - þá náttúrulega kýs ég ekki flokkinn!!

Jæja, ég er algjörlega tóm í haus. Þessar kosningar eru algjörlega að gera mig sambandslausa. Verð bara að reyna að vinna á sunnudaginn og svo fram á kvöld alla næstu viku.... That´s my life folks! Ætla að fara með prjónadótið til ömmu og taka aðeins til heima hjá mér áður en að liðið kemur.

07 maí 2003

I am drowning in work right now!! Ætla mér að reyna að skila af mér ritgerðum á föstudaginn þannig að ég er að klára að gefa fyrir þær. Er síðan á fullu að finna til upprifjunarverkefni fyrir krakkana - þar sem það eru bara tvær kennsluvikur til prófa. Síðan er ég farin að búa til próf í huganum - þarf að fara að koma því á blað. Svo langaði mig svo að leyfa krökkunum að horfa á Harry Potter 2 á DVD en það var ekki alveg að vinnast tími til þess. Þannig að ég samdi við þau að ég myndi búa til ritunarverkefni upp úr myndinni sem yrði þá æfing fyrir próf en í staðin fyrir frí myndu þau fá að koma heim til mín til að horfa. 7. bekkur kemur örugglega annað kvöld og 8. bekkur á mánudagskvöldið. Í kvöld er svo verið að opna kosningaskrifstofu Framsóknarflokksins hér í bæ - þannig að ég býst við að ég muni láta sjá mig þar. Svo er ég náttúrulega á fullu að prjóna. Er búin með bolinn og aðra ermina. Amma var eitthvað að reyna að fikra sig fram úr leiðbeiningunum með úrtökuna á erminni í gær. Vona bara að það hafi heppnast vel þannig að ég geti byrjað á hinni erminni í dag. Langar að klára peysuna áður en að amma fer út í næstu viku. Jæja, ætla að drífa mig snöggvast inneftir að kaupa ábót á linsurnar mínar. Þarf svo að halda á með að vinna..

06 maí 2003

Ég verð að viðurkenna það að það er kominn kosningafiðringur í mig. Bæði hlakka ég til að kjósa á laugardaginn - hef nefnilegast aldrei kosið á kjördag - og svo eru komnar áhyggjur yfir því hvort að pabbi verði inni eða ekki. Allir að kjósa Framsókn svo pabbi hafi vinnu næstu fjögur árin!! :p Annars var ég að pæla í hvernig stjórn ég myndi helst vilja hafa eftir kosningar. Mér líst best á stjórn Framsóknar og Samfylkingar. Það er reyndar ekki raunhæfur möguleiki miðað við kannanir en ég held samt að það kæmi best út. Það er löngu kominn tími á að Íhaldið hverfi úr stjórn. Davíð er gjörsamlega að spila út núna. Ég gapti yfir fréttunum á Stöð 2 á laugardaginn þegar maðurinn var að fjalla um fátæktarskýrslu Hörpu Njáls. Hann er bara ekkert að sætta sig við það að það sé komin fram skýrsla sem sýni að hér sé fátækt. Hann rakkaði hana í svaðið. Sagði að allt þetta væri Reykjavíkurborg að kenna því að þar hefði félagsleg aðstoð verið minnkuð 1995. Síðan klikkti hann út með því að segja að menn efuðust um að Harpa Njáls væri yfir höfuð til!! Manneskjan er menntaður félagsfræðingur og þessi skýrsla er niðurstaða fjögurra ára vinnu. Í skýrslunni stendur auk þess að fátækt sé vandamál hjá þeim þjóðfélagshópum sem þiggja bætur af Ríkinu. Það kemur varla Reykjavíkurborg við - ekki nema að það sé þeirra hlutverk að bæta fyrir það sem Ríkið gerir ekki nógu vel... Það hefur aldrei verið leyndarmál að velferðarkerfið er ekki eitt af aðaláhugamálum íhaldsins. Þeir sinna hagsstjórninni vel and that´s it! Guð hjálpi öryrkjum, ellilífeyrisþegum, atvinnulausum, námsmönnum og öðrum ef íhaldið verður áfram í stjórn.

Úff, var að fara yfir húsnæðismál með mömmu. Ég er ekki að sjá það að ég eigi hreinlega eftir að hafa efni á því að fara í skólann í haust. Þó svo ég selji bílinn þá væri staðan samt tæp. Ég á eftir að fá lítið sem ekkert í námslán næsta vetur því ég er búin að vera að vinna - en samt hef ég verið í svo illa borgaðri vinnu að ég hef lítið sem ekkert náð að leggja fyrir. Ég ætla mér að vera MJÖG sparsöm í sumar og vera dugleg að leggja fyrir - en það dugir samt skammt. Svo ef ég fer að vinna með skólanum sé ég fram á að fá bara ennþá minna í námslán næsta vetur - og þá þarf ég að vinna meira! Þvílíkt og annað eins kerfi!! Ætla að setjast niður með honum föður mínum á eftir og athuga hvort hann geri sér grein fyrir því að staðan sé svona - ekki bara hjá mér heldur hjá fjölda mörgum í þjóðfélaginu.

Pleh, er orðin pirruð á að pæla í þessu. Ætla að reyna að einbeita mér að einhverju í vinnunni...

05 maí 2003

HÚN RAKEL LITLA SYSTIR ER 18 ÁRA Í DAG. MÁ KJÓSA OG ALLT Á LAUGARDAGINN!!!! INNILEGA TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN ELSKU RAKELIN MÍN! HAFÐU ÞAÐ ALVEG ROSALEGA GOTT :)

Ég var víst búin að lofa því að setja það inn á netið að hún Þóranna frænka mín er ófrísk - öllum til mikillar gleði!!! Það er bara vonandi að allt eigi eftir að ganga vel hjá henni og gæjanum!! Og svona fyrst við erum á þessum nótum þá er Þórdís vinkona líka ófrísk. Ég er nú búin að óska henni og Tomma til hamingju en nota bara tækifærið og geri það aftur!

Jæja, þá er maður að koma sér af stað eftir helgina. Það er alveg rosalegur mánudagur í mér og ég er nánast ekki búin að gera neitt af viti eftir hádegi. Mig og Unu langaði í nammi - eins og stundum áður í viðveru - og Dóra Lína tók okkur með í göngutúr út á bæjarskrifstofu, í bankann og svo í búðina að kaupa nammi. Síðan hlömmuðum við okkur niður inn á kennarastofu og að sjálfsögðu komu allir og settust hjá okkur því það langar alltaf öllum í nammi hjá okkur. Við nammið sköpuðust miklar stjórnmálaumræður um hvað væri skynsamlegast að kjósa fyrir Vestfirðinga. Mér fannst soldið athyglisvert að enginn var á því að Frjálslyndir væru að gera eitthvað af viti. Þeir eiga víst svo mikið fylgi hér. Addi Kitta Gau er greinilega alveg úti á þekju. Ég verð eiginlega að viðurkenna að ég vona að þeim fatist flugið og nái ekki verulegu fylgi - ég hef það litla trú á þeim greyjunum. Ég held að það yrði hræðilegt ef hérna yrði stjórn Samfylkingar, Vinstri Grænna og Frjálslyndra eftir kosningar. Við vorum öll sammála því að það virðist sem hugmyndir flokkanna t.d. í sjávarútvegsmálum séu frekar illa úthugsaðar. Það getur enginn nákvæmlega svarað fyrir það hvernig þetta verður ef leiðir þeirra verða farnar. Halda þeir t.d. að það þýði það sama fyrir Samherja og álíka stórútgerðir og fyrir smá útgerðir sem eru ráðandi í þeim sjávarbyggðum sem hafa farið verst út úr kvótakerfinu og eyðibyggðastefnu ríkisstjórnarinnar?? Þessar fyrningarleiðir þýða bara helmingi verri stöðu fyrir þessar smá útgerðir og þar af leiðandi væntanlega ekki betri stöðu fyrir sjávarbyggðirnar. Það er ekki það sama að innkalla 5% af kvóta Samherja og 5% af kvóta trillukarls t.d. hér í Bolungarvík. Það hlýtur að gefa auga leið. Trillukarlinn á miklu meira undir þessum 5% heldur en Samherji. Fyrir þá er það bara dropi í hafið. Það er bara vonandi að þessir stjórnmálamenn fari að taka sér meiri tíma í þróunarvinnu á svona hugmyndum og sýna vandaðri vinnubrögð.. Þá kannski fer maður að treysta þeim almennilega!

Ég var alveg rosalega ánægð með hann Pálma Gests í þættinum hjá Gísla Marteini á laugardagskvöldið. Gísli fór eitthvað að tala um að Pálmi væri héðan og kom með þá hræðilegu villu Á Bolungarvík.. Pálmi var fljótur að leiðrétta hann - auðvitað segir maður Í Bolungarvík. Pálmi segir reyndar eins og mamma BolungAvík. Sigurgeir afi hefur örugglega alið þetta upp í þeim. Mamma hefur ekki náð að ala þetta upp hjá okkur systkinunum þannig að við segjum öll Bolungarvík. Magga Frímanns kom líka í þáttinn. Dagný systir fannst eitthvað asnalegt að hún kæmi sköllótt - þ.e. ekki með hatt, skuplu eða eitthvað álíka. Mér fannst hún sýna hugrekki með því að koma svona fram. Það er ekki beint vaninn að konur hafi kjark í að koma svona fram. Ég veit að ekki myndi ég þora því.

Nú erum ég og Una báðar búnar að hella okkur yfir þennan gaur sem er með bloggari.is. Að það sé lágmark að biðja um leyfi áður en hann taki mynd af manni. Þetta er allt of lítið samfélag hérna til þess að það sé hægt að hafa svona síðu. Ég hef lent í því að það var mynd af mér þarna inni sem fór eins og eldur í sinu hjá krökkunum sem ég er að kenna og þau voru að sýna foreldrum sínum hana. Vissulega ber ég ábyrgð á sjálfri mér á djamminu (já eða fjörinu) en maður á ekki að vera að lenda í því að sjá einhverjar misjafnar myndir af sér á netinu daginn eftir. Ég veit það að þeir sem eru með svona síður verða að taka myndirnar út sé beðið um það - en eins og ég lenti í þá virkaði ekki það netfang sem var uppgefið á síðunni. Það þarf að einhverja breytingu á lögunum þarna finnst mér. Það verður að gera aðstandendum svona síðna það skylt að biðja um leyfi áður en efni er sett inn á netið. Sérstaklega þar sem um er að ræða myndir af fólki í misjöfnu ástandi. Það vill enginn hafa mynd af sér hálf dauðum á netinu. Þó svo ábyrgðin á því að það gerist ekki sé manns sjálfs þá vita það allir að þetta getur komið fyrir á bestu bæjum.

Jæja, þá ætla ég að fara að koma mér heim eftir alveg rosalega afkastamikinn mánudag... Held ég komi mér vel fyrir í kvöld og fari yfir próf og jafnvel nokkrar ritgerðir.

01 maí 2003

Jæja, þá er mín að komast almennilega á lappir aftur. Fór í vinnuna í gær og vann svo fyrir Dísu á Skýlinu í gærkvöldi svo að hún kæmist í leikhús. Leikfélag Hólmavíkur var að sýna Sex í sveit í félagsheimilinu. Ég var búin að sjá þetta svo að sjálfsögðu vann ég fyrir Dísu. Það var bara fínt að koma svona aðeins inn á Skýlið aftur. Það er alltaf gaman að spjalla við þær gömlu þar. Ég er svo búin að vera algjörlega tóm í haus í dag. Gerði samt kennaraeintakið af prófinu sem ég verð með á morgun og skipulagði seinustu kennsluvikurnar í huganum. Það verður ágætt þegar skólinn verður búinn. Maður á samt eftir að sakna þess að vera þarna. Mér finnst ég eiga smá í öllum krökkunum sem ég hef verið að kenna. Það verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni! Þegar ég var búin með prófið setti ég Eyjadiskinn í botn og fór að þrífa. Mér fannst ég vera öfga dugleg! Nennti samt ekki að þurrka af - geri það bara á morgun eða eitthvað. Það hlýtur að vera í lagi að rykið hlífi húsgögnunum aðeins lengur :p

Ég var að hugsa hvað það verður skrýtið að fara suður aftur í haust. Samt er ég farin að hlakka til þess. Það er bara verst að maður geti ekki blandað saman Bolungarvík og Reykjavík í hið fullkomna bæjarfélag! Ef ég gæti haft fjöllin mín og umhverfið en ekki kjaftaganginn í fólkinu og náttúrulega haft vini mína og fjölskylduna hjá mér. Only in a perfect world... Ég þarf að fara að búa hann til, er ekkert sátt við þetta núna. Amma dekraði samt við mig í gær. Mig langaði svoooo mikið í rusl mat svo amma eldaði fyrir mig geðveikt góðann hamborgara. Á morgun fæ ég svo svið og rófustöppu.. namm.. Hlakkar ekkert smá til - langt síðan ég hef fengið svið að borða.

Eitt sem ég var að spá... sem sýnir kannski hvað ég á lítið líf núna :p Af hverju er alltaf sagt að það sé einhver að tala illa um mann þegar maður hikstar?? Á sá sem er að tala illa um mann að senda manni einhverja vonda strauma sem verða til þess að allt systemið í manni fer að hiksta?? Kannski fáránleg pæling... en kannski ekki.. Varla fáránlegra en þessi hugmynd að tengja baktal við hiksta... Ég var síðan að horfa á hanboltaleik með öðru auganu á þriðjudagskvöldið. Þá fór ég að spá af hverju ætli maður hoppi alltaf þegar maður er ofsalega glaður eða er að fagna einhverju?? Er eitthvað rosalegt boðefnaflæði í gangi í líkamanum sem er bara hægt að fá útrás fyrir með því að hoppa? Þetta hefði verið gott efni í BA ritgerð í sálfræðinni ef ég hefði haldið áfram í henni :p Látið mig samt vita ef þið vitið um einhvern sem hefur rannsakað þetta!

Jæja, það er kominn matartími hjá henni ömmu minni og ég er ekki mætt á svæðið. Ætla að drífa mig niðureftir og athuga hvað ég fæ gott að borða í kvöld.