23 maí 2003

Þá er maður bara nánast kominn í helgarfrí - og ekki einu sinni komið hádegi! Þarf að fara niðrí skóla aftur á eftir og fara yfir próf með Dóru Línu og þá er maður alveg komin í helgarfrí. Var með tvö próf í morgun sem gengu bara ágætlega. Enskan í 8. bekk gekk mjög vel en ég var ekki eins ánægð með dönskuna í 7.b. Greinilegt að þau lærðu ekki mikið fyrir prófið mörg þar. Dagný og Haukur kíktu aðeins í heimsókn með Kristinn Breka í gærkvöldi. Hann var orðinn ansi þreyttur greyið enda búinn að vera á þeytingi allan daginn. Ég fæ hann svo lánaðan á morgun. Ætli við þrífum ekki bílinn eða eitthvað álíka ef veðrið verður áfram svona gott.

Ég kláraði peysuna mína alveg í gær og mætti í henni í skólann í dag - alveg rosalega stolt!! Mömmu finnst að það eigi að ramma hana inn og hafa mynd af öllum sem hafa hjálpað mér með hana með. Það yrðu þá ansi margar myndir :p Næsta skref er að prjóna peysu á Öggu - hún þarf bara að skipta garninu sem ég á eftir í lit sem henni líst á og senda mér.

Fyrsti leikurinn í þriðju deildinni hjá UMFB var í gær. Við spiluðum á móti Ísafirði - og að sjálfsögðu unnum við!! Varð bara að koma því að :p

Ég var að klára að lesa í gær bókina um flótta mæðgnanna frá Egyptalandi. Þetta var ágætis lesning, mér fannst hún samt ekki nógu vel skrifuð. Málfarið í henni böggaði mig soldið á meðan ég var að lesa hana. Ég mæli samt með henni fyrir þá sem ekki hafa lesið hana. Hún gefur ágætis innsýn í heim araba. Honum er lýst á fordómalausan hátt sem er kannski merkilegt miðað við reynslu þeirra af honum. Svona bækur fá mann samt til að hugsa sig að minnsta kosti fimm sinnum um áður en maður tæki upp samband við araba. Ekki það að arabar séu verri en aðrir - en saga þessara mæðgna er bara ekkert einsdæmi og langt frá því.

Þá erum við loksins búin að fá að vita hvernig ný ríkisstjórn verður skipuð. Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Ég hefði viljað sjá uppstokkun á ráðuneytum á milli flokkanna, þ.e. meiri heldur en að var. En það þýðir víst lítið að röfla yfir því núna. Ég vona bara að það verði meiri breytingar eftir fjögur ár þegar næst verður kosið.

Jæja, ég ætla að fara að drífa mig heim og þrífa aðeins. Við Ella ætlum að hittast á morgun og horfa á Eurovision. Ella ætlar að elda tacopizzu. Hún er búin að lýsa þessu fyrir mér og þetta hljómar alveg rosalega vel. Svo er bara einn (já eða tveir eða þrír :p) kaldur með!

Engin ummæli: