29 maí 2003

Þá er maður byrjaður að vinna á Skýlinu. Fór á fyrstu vaktina í gær eftir vinnu í skólanum. Var orðin ansi þreytt í gærkvöldi - veit ekki hvort þetta séu ellimerki eða hvað.. Kolla er á leiðinni með liðið. Þau eru í Baldri núna. Bíllinn sem þau voru á var klesstur í bátnum áður en hann lagði af stað úr Hólminum. Það þurfti að hífa hann upp úr bátnum áður en lagt var af stað. Amma ætlar að sækja þau á Brjánslæk ef þau fá ekki bílaleigubíl. Þvílíkt gaman að byrja fríið sitt svona eða þannig!

Alveg er það merkilegt hvað fólk nennir að velta sér upp úr málefnum annarra. Ein sem er að kenna með mér sagði mér í gær að hún hefði verið spurð að því hvort það væri ,,allt í lagi" með mig - af því að ég á ekki kærasta... Vissulega væri gott að hafa einhvern til að kúra hjá sér og allt það - en fjandinn hafi það að lífið gangi út á það að finna einhvern. Ég er farin að skilja gellurnar í Sex and the City þegar þær voru að pirra sig á því þegar byrjað var að spurja um ástarlífið. Þetta er orðið svo mikið hjónasamfélag sem við búum í að það telst ekki eðlilegt að finnast það ágætt að vera einn. Ekki nema að það séu svona rosalega margir þarna úti sem óttast það mest af öllu að þurfa að vera einir. Ég held að það séu reyndar fleiri heldur en maður getur látið sér óra fyrir. Svo er maður kallaður vandlátur af því að maður vill ekki einhverja af þessum einhleypu karlmönnum sem búa hérna. Með fullri virðingu fyrir þessum gaurum þá eru þeir annað hvort þroskaheftir, of feitir eða of gamlir. En nei - ég er svo hryllilega vandlát... Og verð að viðurkenna það að ég er bara stolt af því!!! Ég ber það mikla virðingu fyrir sjálfri mér að ég býð ekki hverjum sem er upp í rúm til mín - sama hversu þörfin er mikil. Ef að það gefur liðinu hérna eitthvað til að blaðra um í sinni einsemd - sem að mínu mati er miklu eymdarlegri heldur en mín - þá er það svo sem allt í lagi. Ég þarf allavegana ekkert að vera að abbast upp á aðra og hnýsast í þeirra einkamál ef að þörfin fyrir karlmann er mikil - það er nefnilegast alltaf hægt að redda þessu sjálfur ;)

Ég sá í DV í gær að þátturinn hennar Önnu Kristine - Á milli mjalta og messu - er hættur á Bylgjunni. Og þótt fyrr hefði verið segi ég nú bara. Hún var að fá til sín fólk og fjallaði um lífshlaup þeirra. Í fyrstu voru þetta eflaust fínir þættir hjá henni en framboðið af fólki til að fara í svona þætti á Íslandi er bara mjög takmarkað. Enda var hún að fá til sín fólk á mínum aldri og spurja það út úr hvað á daga þess hafði drifið um ævina. Já, hmm, ég fermdist fyrir 7 árum og útskrifaðist sem stúdent í fyrra... Voða merkilegt!!

Sjómannadagurinn er á sunnudaginn og sigling á laugardaginn. Mig langar ekkert smá í siglinguna - en ég verð náttúrulega að vinna. Er að spá hvort ég eigi að reyna að fá einhvern til að vinna fyrir mig í tvo og hálfan tíma. Þetta er náttúrulega rólegasti tíminn á vaktinni. En ég sé til með það. Ég er að spá í að bjóða Njáli að gista hjá mér á laugardagskvöldið. Taka spólu og kaupa nammi og hafa það huggulegt. Ætla að sjá hvað hann segir - hann er kannski orðinn það gamall að hann nennir ekkert að hanga með gömlu frænku sinni. Karen Líf vill kannski vera með líka. Ég hugsa nefnilegast að ég nenni ekki á ballið. Ég var á kvöldvakt í gær, kvöldvakt í kvöld, skólinn + kvöldvakt á morgun, morgunvakt á laugardaginn, morgunstubbur og kvöldvakt á sunnudaginn.. Ég hugsa að ég verði orðin þreytt á helginni.. Ég næ samt formúlunni og hátíðahöldunum á sjómannadaginn á milli vakta. Það er meira heldur en ég náði í fyrra. Svo á ég frí á 17. júní!! Það er nú bara langt síðan ég hef átt það!!

Engin ummæli: