24 maí 2003

Jæja, þá er Eurovision dagurinn runninn upp. Ég píndi mig til að vaka og horfa á Ungfrú Ísland. Steinunn hans Hauks Inga vann - og kemur það svo sem ekkert á óvart. Þegar ég vaknaði í morgun fór ég inneftir að sækja Kristinn Breka. Við fórum saman í fjöruferð. Vorum að moka holur og skoða fuglana sem voru dauðir í fjörunni. Við komum líka við á flotbryggjunum hérna. Röltum á bryggjuna og skoðuðum bátana. Kidda fannst voða merkilegt að bryggjan skyldi vagga undir honum. Hann þorði samt ekki að labba alveg út á enda - vildi ekki detta í sjóinn. Þegar við röltum heim á leið komum við við í búðinni og keyptum laugardagsnammi fyrir hann og ís. Síðan fórum við heim og horfðum á Harry Potter. Klukkan þrjú spurði hann svo hvað klukkan væri - sem var merki um að hann vildi fara heim til mömmu. Þá skutlaði ég honum inneftir og dreif mig svo heim. Maður þarf að fara að hafa sig til fyrir djammið í kvöld. Ég var að fatta að ég hef ekkert djammað síðan á páskunum - og það er alveg mánuður síðan!! Þetta er nú afrek hjá mér því að það er alveg búið að vera eitthvað um að vera síðan. Ég hef bara ekkert nennt að fara neitt. Eins og ég var búin að segja ætlar Ella að koma og elda fyrir mig tacopizzu. Una var svo að segja mér hvernig ég ætti að búa til almennilegt guacamole og ég ætla að gera heiðarlega tilraun til þess að búa það til. Það er víst ekki hægt að klúðra þessu segir Una.. Ég vona bara að það sé rétt hjá henni! Eftir Eurovision ætlum við að öllum líkindum á Kaffi Ísafjörð. BMX verður að spila þar. Það er hljómsveit frá Ísafirði fyrir þá sem ekki vita. Nokkuð góðir bara.

Ég er komin í þvílíkan þjóðhátíðarfíling. Eyjadiskurinn er alltaf í græjunum og pylsudiskurinn í bílnum. Er meira að segja farin að spá í hvað ég eigi að gefa Kidda og Hildi fyrir gistinguna í ár og hvað ég geti komið með matarkyns í hvíta tjaldið. Sálin og Skítamórall verða að spila - sem verður algjört flashback á fyrstu þjóðhátíðina mína sem var ´97. Agga er reyndar ekki viss um að hún komi - en ég treysti bara á að hún verði komin með geggjaðan fiðring í sumar og reddi sér fríi í vinnunni ;) Hjördís ætlar að koma líka sem þýðir bara að það verður ennþá meira flashback!! Ég held ég hafi ekki djammað með neinum öðrum en henni ´97. Við vorum líka svo samstíga þá :p Smá einkaprivate..

Pétur vinur minn var að ræða um einkamál.is á síðunni sinni í vikunni. Mig langar bara að styðja hann í umræðunni og opinbera það að ég er líka með nikk inn á einkamál. Ég las nokkuð góða grein um einkamál í Skýjum einhvern tíman í vetur þegar ég var að fara suður. Stelpan sem skrifaði greinina gerði tilraun inn á einkamál. Bjó til þrjú nikk í mismunandi flokkum og kannaði viðbrögðin. Hennar niðurstaða var að einkamál.is væri einfaldlega þverskurður af samfélaginu. Þarna inni er öll flóran. Allt frá perrunum til góða gæjans í næsta húsi. Vissulega þarf maður að hafa ýmislegt í huga og ekki gleypa við öllu en meirihlutinn af liðinu er bara fólk eins og ég og þú og kemur heiðarlega fram. Mikið af liðinu er orðið þreytt á djammhöstlinu sem skilar manni oftast litlu. Enda held ég að maður finni sjaldnast framtíðarmakann á djamminu. Allavegana, þar hefurðu það Pétur. Ef liðinu finnst við skrýtin þá erum við bara skrýtin saman!!

Jæja, er að spá í að leggja mig aðeins áður en ég fer í sturtu og hef mig til fyrir djammið. Er alveg steindauð eitthvað í augnablikinu. Það hlýtur að koma með smá lúr og einum köldum! Góða skemmtun í kvöld folks!!

Engin ummæli: