Þá er maður búinn í göngutúrnum. Við gengum 3,8 km samkvæmt göngumælinum hennar Ellu. Hnéð á mér var ekki alveg að meika svona rösklega göngu og sit ég því með kælipokann á því núna. Það var samt hressandi að drífa sig svona út. Þarf bara að vera dugleg að því í sumar svo ég þurfi ekki áfram að nota svona stór númer ;)
Ég kom við á bókasafninu á leiðinni heim. Tók bókina þar sem er verið að lýsa flótta mæðgnanna frá Egyptalandi. Man ekki alveg hvað hún heitir. Ætti að vera fróðleg lesning. Fékk síðan að grípa nýjasta Mannlíf með mér heim. Þar var frekar áhugaverð grein sem fjallaði um framhjáhaldsbörn. Í kjölfarið á greininni var viðtal við konu sem eignaðist barn með giftum manni og svo eiginkonu mannsins. Dæmið var víst þannig að gaurinn hitti gelluna í vinnupartýi og þau fóru saman heim. Ekkert meira varð síðan úr því. Gellan kemst svo að því að hún er ólétt og lætur gaurinn vita. Hann brotnar saman fyrir framan konuna sína og segir henni að hann eigi von á barni með annarri konu og segir henni alla sólarsöguna. Hún reynist vera svona líka skilningsrík, fyrirgefur framhjáhaldið og barnið er hluti af familíunni í dag. Það voru tekin viðtöl við konurnar sitt í hvoru lagi. Viðhaldið fékk náttúrulega frekar mikið sjokk þegar hún komst að því að hún væri ólétt, en þar sem hún hafði áður haldið að hún gæti ekki átt börn þá kom ekki annað til greina en að eiga barnið. Sem maður getur svo sem skilið. Hún lætur gaurinn vita og þá berst sagan til konunnar hans. Það sem vakti athygli mína í viðtalinu við hana þá taldi hún þau vera fullkomlega hamingjusöm þegar framhjáhaldið átti sér stað og fyrst á eftir var hún í því að hugga hann og telja honum trú um að hún væri ekkert að fara neitt. Hún tekur þá skynsamlegu (en sjaldgæfu) afstöðu að það sé ekki barninu að kenna hvernig það varð til og fer með manni sínum að sjá barnið þegar það er nýfætt. Þau taka barnið eins og þau geta í dag og það er hluti af þeirra fjölskyldu. OK, ég dáist að því þegar fólk getur sýnt þann þroska að taka barninu og láta það ekki gjalda fyrir það sem fullorðna fólkið hefur gert. Það er alltof sjaldgæft að fólk geti sett hagsmuni barnanna ofar sínum eigin í svona málum. Ég hef hins vegar mikið pælt í því hvað fólk sé að hugsa sem fyrirgefur framhjáhald. Var konan í þessu dæmi hérna fyrir ofan að meta dæmið rétt að hún og maðurinn hennar væru hamingjusöm? Ég meina, ef maður er hamingjusamur í sambandi fer maður þá og sefur hjá einhverjum öðrum?? Setur maður þá ekki ákveðnar spurningar og endurmetur stöðuna ef svona kemur upp? Kannski gerði þetta fólk það og mér kemur það náttúrulega ekkert við, en ég hef bara aldrei skilið hvernig fólk getur fyrirgefið framhjáhald. Í mínum huga er ekki hægt að brjóta traust annarrar manneskju meira og þó svo maður gæti kannski fyrirgefið manneskjunni með tíð og tíma þá væri samt grundvöllur sambandsins horfinn. Ég held nefnilegast að maður fyrirgefi framhjáhald aldrei alveg ef maður heldur sambandinu áfram. Jú, maður segist vera búinn að því en hvað ef makinn skilar sér ekki heim á réttum tíma eða eitthvað álíka? Hvað væri það fyrsta sem manni kæmi í hug? Jú, ekki skyldi hann vera að... Það þarf mikið til að endurvekja traustið en alveg óskaplega lítið til að brjóta það allt niður aftur. Maður elskar manneskjuna kannski ennþá - enn stundum er það bara ekki nóg.. En jæja, ég ætla ekki að vera að velta mér upp úr annarra manna vandamálum. Ég hef bara alltaf velt þessu mikið fyrir mér. Held að ég gæti aldrei fyrirgefið svona lagað..
Engin ummæli:
Skrifa ummæli