Ég kíkti inneftir áðan á fjölskylduhátíð Framsóknar á Silfurtorgi. Ætlaði að fara og fá mér pulsu og grænan ís í góða veðrinu. En nei nei. Ég gaf fullt af liði ís... Ég gaf fullt af liði fána.. En ég fékk engan ís og enga pulsu. Það er víst svona að eiga stjórnmálamenn fyrir foreldra. Maður hefur verið nýttur í allan fjandann í gegnum tíðina - oftast launalaust. Það hefur nú samt minnkað undanfarin ár. Pabbi hefur ekki einu sinni verið með áróður á mig í þessari kosningabaráttu. Enda hugsa ég að ég hefði ekki kosið hann ef hann hefði gert það.
Anyways, skoðanakannanirnar núna eru almennt góðar fyrir Framsókn. Baráttan hér í Norðvesturkjördæmi snýst um að ná þriðja manninum inn. Það er alveg raunhæft - en samt er engann veginn hægt að sjá fyrir um þetta. Íhaldið, Samfylkingin og Framsókn eru eiginlega hnífjöfn hérna. Einar Oddur er víst úti samkvæmt nýjustu könnunum og íhaldið byrjað með hræðsluáróðurinn. Ég held að það sé spurning um hvernig þeir og Framsókn spila úr seinasta sólarhringnum hvernig þetta fellur. Kannski verður Einar Oddur inni - og kannski Herdís hjá Framsókn. Framsókn hefur reyndar aðeins betri stöðu heldur en íhaldið - þeir þurfa ekki að vera í hræðsluáróðri. Íhaldið var að dreifa miðum í hús áðan þar sem eini boðskapurinn var að halda Einari Oddi á þingi. Það stóð ekkert annað á miðanum.. Nær varla til þeirra sem ekki hafa kosið íhaldið hingað til. Spurning með þá sem hafa kosið þá, hversu vinsæll Einar Oddur er. Bolvíkingarnir vita að Einar Kristinn er öruggur inn. Ég hugsa að það sé nóg fyrir þá. En íhaldið á alltaf sitt fasta fylgi, það verður því fróðlegt að sjá hvort þeir nái til þess fólks á lokasprettinum. Ég ráðlagði pabba að stíla lokabaráttuna inn á það að fólk væri að kjósa Vestfirðinga á þing. Ekki að fara inn á þetta kjósa konu kjaftæði. Mér til mikillrar undrunar var farið að mínum ráðum og dreifibréf sent í hús í gamla Vestfjarðakjördæminu þess efnis að með því að kjósa Framsókn ætti fólk möguleika á því að fá inn tvo Vestfirðinga sem þingmenn og einn varaþingmaðurinn yrði Ísfirðingur. Það verður fróðlegt að sjá hvort að ég sé að lesa dæmið rétt og þetta virki.. Samfylkingin hefur verið að nota konutaktíkina hérna. Þetta er algjört karlakjördæmi og þeir vilja meina að þú verðir að kjósa Samfylkinguna til þess að fá konu á þing fyrir kjördæmið. Þetta dreifibréf fór beint í ruslið hjá mér. Ég hef engann sérstakann áhuga á því að sjá konu á þingi fyrir þetta kjördæmi - eða nokkuð annað ef því er að skipta - sem er kjörin eingöngu vegna þess að hún er kona. Ég vil sjá hæfa einstaklinga sem berjast fyrir tilvistarrétti okkar Vestfirðinga.
Í augnablikinu er seinasti umræðuþátturinn fyrir kosningar. Formenn flokkanna - og Ingibjörg Sólrún - á báðum rásum. Ég byrjaði nú á því að hlusta en gafst upp á því. Maður veit alveg hvað liðið segir. Ingibjörg og Davíð eru langt frá því að vera málefnaleg í sinni umræðu, eru eins og litlir krakkar að reyna að skjóta hvort á annað. Steingrímur er alltaf góður í svona þáttum - en hann er samt voðalega einn á báti eitthvað þarna. Halldór er að koma ágætlega út. Enda er hann í ágætri stöðu, hefur í raun engu að tapa. Davíð er að missa sig í hræðsluáróðri - eins og íhaldinu er von og vísa. Nýtt afls gaurinn er nú alveg allt í lagi. Mesta furða alveg. Hugsa samt að hann veiði ekkert mörg atkvæði út á þetta. Addi Kitta Gau er bara þarna. Hann er aldrei góður í svona þáttum. Enda er hann enginn stjórnmálamaður. Hann ætti bara að drífa sig aftur á sjóinn.
Well, Friends er byrjað. Er að spá í að fara út á sjoppu þegar Friends er búið og koma mér vel fyrir. Er bæði með About a Boy á DVD sem ég þarf að horfa á - og Cold Feet þáttinn síðan á miðvikudaginn. Fékk hann lánaðann hjá einni stelpunni í bekknum mínum í dag :P Svo bara snemma að sofa, föstudagur í mér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli