23 maí 2003

Það er eitt sem ég var að spá. Í kvöld er lokaballið hjá 8.-10. bekk. Skyldumæting er hjá 10. bekk á ballið þar sem á að krýna bekkinn, þ.e. upplýsa um niðurstöður kosninga á elsta stiginu. Kosið var um herra og ungfrú, ljóskuna, frekjuna o.s.frv. Þegar niðurstöðurnar voru komnar kom í ljós að ekki fá allir í bekknum einhvern titil. Sumir fá marga á meðan aðrir fá engan. Ég er eiginlega á móti svona vinsældakosningum. Hvað er verið að segja krökkunum með þessu? Ef maður er vinsæll í svona kosningum að þá gangi manni vel í lífinu?? Það er svo innilega langt frá því. Frekar myndi ég vilja sjá að félagsmiðstöðin í samvinnu við kennarana myndi velja titil á hvern og einn nemanda 10. bekkjar í kveðjuskyni. Ég ræddi þetta við Siggu sem er með félagsmiðstöðina og ég vona bara að þessu verði breytt á næsta ári. Það er ekki gaman fyrir liðið sem ekki fær neinn titil að mæta á ballið í sínu fínasta pússi og fara svo heim tómhentur. Sérstaklega þegar skyldumæting er fyrir hann á ballið þar sem á að krýna ALLA í bekknum samkvæmt auglýsingunni.

Ungfrú Ísland er að fara að byrja á Stöð 2. Það var í fréttunum áðan að femínistar vildu komast þar að og veita viðurkenningu. Mér fannst soldið fyndið að sjá að fulltrúi femínista í fréttunum var Beta, konan sem ég leigði hjá á tímabili í fyrravetur. Já eða var ódýr húshjálp fyrir - depends on how you look at it... Allavegana, þær vildu gefa keppendum bol sem á stóð Manneskja en ekki markaðsvara. Ég er svo sem ekkert voðalega hlynnt svona keppnum. Maður hefur heyrt það frá stelpum sem hafa tekið þátt í svona keppnum að til sé á þeim svört hlið sem lítið sé rædd. En ef að einhver vill hins vegar taka þátt í svona keppni þá er það hans mál. Maður fylgist þá bara ekkert með ef maður hefur ekki áhuga á þessu. Ég sé ekki alveg pointið að vera svo heittrúaður á móti svona keppnum að maður standi í svona. Fyrir utan það þá eru margar manneskjur markaðsvörur án þess að koma neitt nálægt fegurðarsamkeppnum. Ég meina, hvað eru leikarar, módel, söngvarar, sjónvarpsfólk jafnvel..

Annars held ég að það sé ábyrgð foreldra að ala upp þann metnað í börnunum sínum að þau hugsi um fleiri hluti en hvernig þau líta út. Það getur fleitt manni áfram að vera voða sætur en ef maður pælir ekki í neinu öðru og hefur lítið á milli eyrnanna þá er maður í slæmum málum. Femínistar ættu því að beina kröftum sínum annað að mínu mati. Fólk gleymir alltof oft þeim áhrifum sem það getur haft á heiminn með því að ala upp góð gildi hjá börnunum sínum. Kröftunum er oftar beitt á aðrar slóðir og börnin fá svo leifarnar ef þau eru heppin. Það er eiginlega ekkert skrýtið að agaleysi sé orðið svona mikið vandamál í skólakerfinu þegar maður horfir til þess hversu algengt er að foreldrar eyði litlum tíma með börnunum sínum. En ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma..

Er alveg að berjast við að halda augunum opnum og klukkan bara rétt rúmlega 10 á föstudagskvöldi... Er að spá í að vera öfga lummó og fara bara snemma að sofa..

Engin ummæli: