08 maí 2003

Kolla var eitthvað að kvarta við ömmu að ég væri hætt að setja hérna inn hvað hún gæfi mér að borða. Í gærkvöldi hrærði amma fyrir mig ekta Ísafjarðarskyr og það borðaði ég með kaffirjóma af bestu lyst! Um daginn fékk ég hjörtu - algjört sælgæti. Svo var amma með fiskirönd og spaghetti í fyrradag. Amma er soldið hrifin af spaghetti held ég - hefur það með ólíklegustu hlutum! Í kvöld kemur 7. bekkur til mín að horfa á Harry Potter. Þau ætla að fá að panta pizzu þannig að ég fæ pizzu í kvöld.

Anyways, bara tveir dagar til kosninga. Framsókn var að opna kosningaskrifstofu hérna í Bolungarvíkinni í gærkvöldi. Ég ætlaði bara aðeins að kíkja. Settist niður með prjónana mína og sat þangað til að ermin var tilbúin. Það var að koma út ný Gallupkönnun fyrir Norðvesturkjördæmið og Framsókn er að koma svona líka vel út. Pabbi yrði kjördæmakjörin og næsti maður inn er þriðji maður Framsóknar. Vantar innan við hundrað atkvæði til að koma henni að. Gísli S. myndi þá detta út á móti og spurning hvað yrði með Jón Bjarnason hjá Vinstri-Grænum en hann er uppbótarmaður samkvæmt könnuninni. Þessi könnun er ekki alveg í samræmi við þá sem var á landsvísu. Ég er að vísu ekki alveg að kaupa þá könnun. Svarhlutfallið er ekki nema 66%- og venjulega er talið að svarhlutfall þurfi að vera yfir 70% til að könnun teljist marktæk. Ég er því ekki viss um að þessi 6% fylgisaukning Samfylkingarinnar sé raunveruleg. Annars held ég að það verði ekkert hægt að sjá fyrir um þetta fyrr en talið verður upp úr kjörkössunum. Annars finnst mér soldið fyndið að sjá hvað Íhaldið er orðið hrætt. Staðan hjá þeim er ekki góð. Fólk virðist búið að vera fá nóg af hrokanum í Davíð. Enda er hann ekki beint að koma vel fyrir finnst mér þessa seinustu daga fyrir kosningar. Halldór virðist hins vegar allur vera að koma til. Magga Frímanns finnst mér líka koma vel út. Hún tók alla gaurana í nefið í Íslandi í dag á þriðjudaginn. Addi Kitta Gau hefur ekki verið að standa sig vel. Er ekki góður í að svara fyrirspurnum og þess háttar - sem er ekki gott. Hann kemur sér alltaf einhvern vegin undan því að svara. Fyrir utan það að fyrsti maður Frjálslyndra í Suðurkjördæmi sagði það í Íslandi í dag að þeir væru ekki búnir að mynda sér stefnu í heilbrigðismálum.. Ekki beint traustvekjandi að heyra svona frá stjórnmálaflokki nokkrum dögum fyrir kosningar... Svo var Pétur að minnast á Nýtt afl... Ég veit ekki um neinn sem hlær ekki að því framboði.. Hildur Helga með geiflurnar sínar... Ja, það væri allavegana stuð fyrir Spaugstofuna ef hún færi á þing!! Spurning samt hver gæti leikið hana :p

Svakalega var ég hneyksluð í fyrra kvöld þegar var verið að fjalla um málefni forstjóra ÚA. Að maðurinn skuli leyfa sér að senda svona bréf á alla starfsmenn fyrirtækisins. Enda var ég ánægð að heyra að Dagsbrún (minnir mig) og ASÍ hefðu ályktað um þetta mál. Segja að þetta sé brot á vinnulöggjöfinni. Ég þekki hana nú reyndar ekki - en það getur bara ekki verið að svona bréfaskriftir séu löglegar! Hvurs konar lýðveldi búum við þá við?? Maðurinn hefur vettvang í fjölmiðlum til að tjá sínar skoðanir - að senda svona innan fyrirtækisins er fáránlegt!!

Rosalega fannst mér gaman að heyra að Pétur vinur minn hefði farið á kosningafund. Ég þoli ekki þegar fólk kýs bara út í bláinn. Ef það hefur enga skoðun á málunum á það bara að skila auðu - ekki að kjósa eins og einhver annar segir því að gera. Málefnalega séð er ég mest sammála Framsókn - skv afstada.net - en ég reyndar fer ekki bara eftir málefnunum þegar ég er að ákveða hvað ég ætla að kjósa. Ef ég hef enga trú á fólkinu sem er í framboði - þá náttúrulega kýs ég ekki flokkinn!!

Jæja, ég er algjörlega tóm í haus. Þessar kosningar eru algjörlega að gera mig sambandslausa. Verð bara að reyna að vinna á sunnudaginn og svo fram á kvöld alla næstu viku.... That´s my life folks! Ætla að fara með prjónadótið til ömmu og taka aðeins til heima hjá mér áður en að liðið kemur.

Engin ummæli: