25 maí 2003

Taco pizza

Botninn (ein bökunarplata):
5 dl hveiti (má vera 4 dl hvítt og 1 dl heilhveiti)
1 tsk salt
1 bréf þurrger
2 msk oregano
2 msk ólífuolía
3 dl ylvolgt vatn

Þessu er öllu hrært saman og sett á bökunarplötu sem búið er að smyrja með olíu og sáldra pínu hveiti yfir (við settum nú smjörpappír undir botninn)

Deigið er næstum smurt á plötuna (ef þér finnst deigið blautt máttu bæta svolitlu hveiti saman við en það á að vera aðeins blautara en venjulegt pizzadeig). Pizzan er sett inn í kaldan ofn sem er svo stilltur á 200°C. Hún þarf ekki að hefast áður. Bakað í 3-5 mín, tekið út og gumsinu klístrað ofan á í þessari röð:

Taco sósa (styrkleiki eftir smekk)
ostur
hakk (steikt og kryddað með tacokryddi)
laukur
paprika
tómatar (smátt saxaðir)
ostur

Þetta er bakað í ofni við 200°C í 10-15 mín eða þangað til að pizzan er fullbökuð. Þá er Taco-snakki dreift ofan á pizzuna og hún sett aftur inn í ofninn og bökuð í 5 mín til viðbótar. Með þessu er gott að bera fram tacosósu og sýrðan rjóma. Algjört nammi!!!!

Fyrst ég er komin inn á þær nótur að birta uppskriftir hérna þá ætla ég að láta fljóta með uppskrift að ídýfu sem er algjört nammi með tortilla snakki..

Byrja á að blanda saman einni dós af sýrðum rjóma og einni krukku af cheese salsa sósu í eldfast mót. Saxa smátt niður 6-7 tómata, sigta safann frá og setja yfir. Næst að saxa smátt niður hálfan lauk og dreifa yfir. Síðan að saxa smátt niður iceberg salat og dreifa yfir laukinn. Lokaskrefið er svo að rífa niður mozarella ost og setja yfir allt saman. Þetta er borið fram kalt. Alveg rosa gott!!!!

Var að tala við mömmu - hún var ekkert að ná því að ég væri að setja uppskriftir inn á síðuna mína.. Batnandi fólki er víst best að lifa...

Engin ummæli: