11 maí 2003

Jæja, þá er langt liðið á kosninganótt. Framsókn er bara að koma vel út, ég fylgist samt spennt með því hvort að Herdís, þriðji maður Framsóknar hér í NV-kjördæmi, komist inn. Það er raunhæft - bara spurning hvar jöfnunarmaður Framsóknar lendir. Hann er búinn að vera að flakka á milli kjördæma. Sjálfstæðisflokkurinn kemur illa út. Kosningavökur þeirra hérna fyrir vestan voru víst næstum eins og líkvökur. Það er mikið áfall fyrir Davíð að vera ekki 1. þingmaður Reykjavíkur norður - sem átti að vera höfuð vígi íhaldsins. Spurning hvað kallinn gerir. Ég hef enga trú á að hann fari að vinna í stjórnarandstöðu í þinginu ef íhaldið fer ekki í stjórn. Hann hættir þá frekar - annað hvort fljótlega eða á kjörtímabilinu. Samfylkingin er að koma vel út - sérstaklega hjá Stjána Möller í Norð-Austurkjördæmi. Mér finnst frábært að sjá hvað hann er að standa sig vel. Hann ætti að eiga tilkall til ráðherrastöðu ef Samfylkingin fer í ríkisstjórn. Vinstri grænir eru að tapa. Það kemur mér sérstaklega á óvart að sjá að þeir tapa í heimakjördæmi Steingríms. Þeir koma samt ágætlega út hér í NV-kjördæmi. Jón Bjarnason er t.d. 7. þingmaður kjördæmisins - er fyrir ofan Adda Kitta Gau sem maður hefði nú haldið að hefði meira fylgi en Vinstri grænir hér.. Það hefur komið flestum á óvart. En Frjálslyndir hafa verið að tapa fylgi seinustu daga, Addi hefur ekki alveg verið að meika pressuna og klikkað á að heilla sjóarana. En þó svo að klukkan sé orðin fjögur og talningu lokið í þremur kjördæmum er þetta langt frá því að vera orðið ljóst. Norð-Austurkjördæmi ætti að klára sitt fyrir 5, spurning hvort að Norð-Vesturkjördæmi nái að klára fyrir þann tíma. Stóra spurningin er eiginlega Suðurkjördæmið. Það komu tölur þaðan á milli 10 og 11 og síðan hefur ekkert heyrst. Það gæti breytt stöðunni talsvert þar sem aðeins var búið að telja lítinn hluta atkvæða þar þegar fyrstu tölur komu.

Ég hef fylgst með kosningasjónvarpinu á RÚV. Elín Hirst og Bogi Ágústsson eru alveg hræðileg. Vita ekkert hvað þau eru að gera. Þau eru alltaf að fylgjast með vaktinni - sem er yfirlit yfir valda einstaklinga, hvort þeir séu inni eða ekki. Þau fylgjast hins vegar ekkert með því hvernig jöfnunarsætin breytast. Sem væri í raun og veru lógískara því þar eru breytingarnar. Það er mikil hreyfing á þeim og þó nokkrir sem skiptast á að vera inni og úti. Svo kunna þau ekkert á kosningakerfið sitt. Voru ekkert að geta útskýrt það í byrjun kvöldsins. Bogi er svo duglegur að láta út úr sér afar mis gáfulega hluti og Elín hlær og hlær að honum. Hálf vandræðalegt að fylgjast með þeim greyjunum. Annað slagið hefur verið skipt yfir á Stöð 2 þar sem Árni Snævarr hefur verið á álíka plani og Bogi með mis góð komment. Vorum ekki alveg að festa athyglina þar.

Jæja, ætla að klára að horfa á kosningasjónvarpið og sjá hvernig þetta fer allt saman áður en ég tjái mig eitthvað meira um þetta.

Engin ummæli: