19 maí 2003

Jæja, bara tveir kennsludagar eftir! Ég náði að klára bæði sérprófin sem ég þurfti að semja áðan og er langt komin með enskuprófið fyrir 8. bekk. Þá ætti ég að ná að klára allt á morgun og þá þarf ég bara að fara yfir prófin í prófavikunni og ganga frá bekknum mínum. Ef það gengur upp á ég frí á helginni og allt!! Best að njóta þess í botn því það verður langt þangað til að ég á eftir að eiga almennilegt frí á helgi. Byrja líklegast að vinna á Skýlinu á Sjómannadaginn - og verð að vinna í skólanum 31. maí. Næstu viku á eftir á ég eftir 4 daga í skólanum, en verð þá bara að vinna á báðum stöðum þá vikuna. Það ætti varla að vera mikið mál.

Ég var að sjá það á bb.is að það verður engin hátíðardagskrá vegna Sjómannadagsins á Ísafirði í ár. Hvað er eiginlega í gangi???? Alveg frá því að ég man eftir mér hefur þetta verið einn stærsti hátíðisdagur ársins. Ennþá klæðir maður sig í betri föt á Sjómannadaginn og fer niðrá bryggju að fylgjast með hátíðahöldunum og í kaffi í Slysavarnarhúsinu á eftir. Það er alveg hræðileg þróun ef hætt verður að halda upp á þennan dag - og það á Ísafirði af öllum stöðum. Ástæðurnar sem gefnar eru upp eru að mikið tap hafi verið af Sjómannadeginum í fyrra og ekki sé áhugi fyrir því hjá sjómönnum að halda daginn hátíðlegan. Ég er bara ekkert að skilja þetta.

Jæja, er algjörlega tóm í haus. Ætla að drífa mig út í búð og finna mér eitthvað að borða. Ætla svo að fara í göngutúr með gönguhópnum í kvöld.

Engin ummæli: