27 maí 2003

Jæja, þá er bara einn dagur með gríslingunum eftir. Verð með tvö próf á morgun og síðan er bara einhver frágangsvinna eftir. Ég byrja á skýlinu á morgun. Var þar í gær að skoða vaktirnar mínar. Er búin að fá plan fyrir næstum allan júní. Verð að vinna næstu þrjár helgar - og verð á næturvöktum á tveimur af þeim. Ég vona bara að Agga verði búin að senda mér garnið, þá hef ég eitthvað við að vera -blikk-blikk. Amma kom í gær. Það var æðislegt hjá henni úti en samt náttúrulega gott að koma heim. Ágætt fyrir mig líka :p Verð að viðurkenna að ég var farin að sakna hennar blessaðrar. Kolla er að koma vestur á fimmtudaginn. Hún kemur með Njál og Karen Líf með sér. Ég verð að vísu að vinna alla helgina, en ég ætti nú að ná að gera eitthvað með þeim. Sixties verður að spila á sjómannadagsballinu hérna. Maður fær bara Kaffi Reykjavíkur flash back þegar maður heyrir minnst á þá! En ég er nú samt að spá í að kíkja aðeins. Það er nú ekki það oft sem það er ball hér!!

Þá eru ráðherralistarnir komnir fram. Ég var nú búin að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með þessa nýju stjórn. Er ekki alveg að skilja af hverju það er verið að taka Björn Bjarnason aftur inn. Þá var það sterkari leikur hjá Halldóri að setja Árna Magnússon í ráðherrastöðu. Vissulega skil ég Jónínu og Magnús Stef., og þá sérstaklega Jónínu að vera ósátt. Hún kemur vel út í sínu kjördæmi og átti ráðherrastól fyllilega skilinn. Magnús hafði ekki eins sterka stöðu - enda tapaði Framsókn nokkru fylgi í kjördæminu. Þau eru hins vegar að gjalda fyrir það að vera alltof litlausir stjórnmálamenn - eða það held ég. Það er hægt að ganga fram hjá þeim án þess að það kosti eitthvað vesen. Þau sitja bara og standa eins og þeim er sagt. Að því leytinu er ég ánægð með Árna sem ráðherra. Það var kominn tími á nýja kynslóð í ráðherraliðinu. Ég vona bara að hann eigi eftir að standa sig vel. Hann hefur allavegana komið mjög vel fyrir þessa fyrstu daga sem ráðherra. Svo er spurning hvað verði gert við Siv þegar íhaldið fær umhverfisráðuneytið. Hún á ekki eftir að taka því þegjandi að vera ýtt út í horn...

Ég er ekki að ná þessu fjárdráttarmáli hjá Símanum. Ég skil ekki hvernig það er hægt að draga að sér svona mikið fé án þess að Ríkisendurskoðun kveiki á perunni. Vissulega er þetta lítill hluti af veltunni hjá Símanum - svona þannig lagað séð - en hvar liggja áherslurnar hjá Ríkisendurskoðun?? Þeir leggja Þorfinn Ómarsson í einelti út af einhverjum smámunum en taka ekki eftir þessu.... Reyndar hefur allur kvikmyndaiðnaðurinn beðið eftir því að eitthvað yrði gert í málefnum Þorfinns því að hann neitaði Davíð Oddsyni og Hrafni Gunnlaugssyni um styrk í fyrravetur. Það átti bara að koma honum frá hvernig sem það yrði gert. Þessir gaurar ættu að vera meira vakandi í staðinn fyrir að vera að eyða tíma í svona kjaftæði!

Svakalega er Birgitta Haukdal farin að fara í taugarnar á mér. Mér hefur nú alltaf fundist hún vera bara ágæt stelpugreyið en það er einhvern vegin búið að vera alltof mikið af henni í fjölmiðlum að undanförnu. Of væmið dæmi fyrir mig..

Jæja, garnirnar eru farnar að gaula. Ég ætla að fara að sjá hvort að maturinn sé tilbúinn hjá Hlédísi og fara svo heim. Er búin að vinna í dag! Algjört lúxuslíf!!

Engin ummæli: