Þá er maður vaknaður eftir langa nótt. Ég fór að sofa kl hálf 7 en þá var ekkert útlit fyrir að lokatölur væru neitt á leiðinni. Það reyndist vera skynsamlegt hjá mér því úrslitin urðu ekki ljós fyrr en hálf 10 í morgun. Það kom mér soldið á óvart að Stöð 2 cuttaði á kosningasjónvarpið hjá sér um fjögur leytið. Þrátt fyrir að Elín og Bogi væru skrautleg - sérstaklega undir restina þegar það var kominn svefngalsi í þau bæði - þá vann RÚV kosningasjónvarpsstríðið. Mjög lame hjá Stöð 2 að klára ekki kosningarnar.
Úrslitin breyttust nú eitthvað eftir að ég fór að sofa. Samt ekki hérna í Norð-Vesturkjördæmi. Greinilegt var að atkvæðunum var ekki ruglað saman áður en þau voru talin. Frjálslyndir komu sterkir inn undir restina þegar Vestfjarðaatkvæðin voru talin. Ingibjörg Sólrún er úti sem kemur kannski ekki mikið á óvart. Það sem mér finnst vera stórtíðindi kosninganna er hvað íhaldið tapar miklu. Jú vissulega mátti búast við því - en að þeir tapi fyrir Samfylkingunni í Reykjavík Norður, sem er höfuðvígi Davíðs, eru stórtíðindi. Þó svo að stjórnin haldi velli þá er erfitt fyrir Davíð að ætla að leiða ríkisstjórn áfram þegar hann nær ekki að vera fyrsti þingmaður í sínu kjördæmi.Einnig er mikið áfall fyrir Tómas Inga Olrich og Halldór Blöndal að ná ekki betri árangri. Ráðherra og Forseti þingsins.. Þeir fengu margar útstrikanir líka sem er ekki gott. Framsókn heldur hins vegar nokkurn vegin sínu kjörfylgi og á því meira erindi í ríkisstjórn heldur en íhaldið. Það er í raun mikill sigur fyrir Framsókn að halda sínu eftir 8 ára stjórnarsetu með mörg af óvinsælustu ráðuneytunum. Sérstaklega þar sem sagan sýnir að flokkar tapa venjulega mikið á því að vera í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn á meðan að þeir halda sínu. Núna er þessu eiginlega öfugt farið. Vinstri grænir eiga lítið erindi í ríkisstjórn. Þeir eru búnir að vera í stjórnarandstöðu og tapa manni - sem er mjög lélegt fyrir stjórnarandstöðuflokk. Ég sé hins vegar ekki fyrir mér að Halldór og Össur myndi saman stjórn með Frjálslyndum. Eini ráðherrastóllinn sem kæmi til greina fyrir þá er sjávarútvegsráðherrann - og ég sé alls ekki fyrir mér að Framsókn og Samfylking sætti sig við Adda Kitta Gau sem sjávarútvegsráðherra. Núverandi stjórnarflokkar eiga vafalaust eftir að spjalla saman - enda verður engum gefið stjórnarmyndunarumboð fyrr en gamla stjórnin hefur endanlega verið afskrifuð. En miðað við útkomu íhaldsins þá verður varla áframhaldandi stjórn. Þá er eiginlega orðin spurning hvort að Framsókn og Samfylking myndi stjórn. Þó svo hún byggist bara á eins manns meirihluta þá gæti það verið betra heldur en að taka Vinstri græna eða Frjáslynda inn til að tryggja stærri meirihluta. Það ætti allavegana að vera auðveldara fyrir þessa tvo flokka að ná saman málefnalega séð og því minni líkur á að ágreiningur komi upp. Fyrir utan það að svona tæpur meirihluti gæti ýtt undir það að málin yrðu bara einfaldlega betur unnin því það væri ekki eins auðvelt að keyra þau í gegnum þingið. En þetta skýrist nú allt á næstu dögum.
En jæja, þá getur maður farið að snúa sér að einhverju öðru en þessum blessuðu kosningum sem eru búnar að vera allsráðandi undanfarna mánuði. Ég ætla að drífa mig í sturtu og fara svo niðrí skóla að vinna aðeins. Síðan ætla ég til ömmu og prjóna eins og mest ég má. Reyna að klára eins mikið og ég get áður en að amma fer suður á þriðjudaginn. Síðan tekur bara við vinna og meiri vinna. Þarf að semja 7 próf í vikunni og finna heilan helling af upprifjunarverkefnum. Það verður því lítið líf næstu vikuna. Ætla mér að vera búin að þessu öllu á næstu helgi. Ætla mér bara að vera í frágangsvinnu og yfirferð á prófum í prófavikunni. Vona bara að ég nái því! Síðan verð ég að fara að tala við Huldu Karls um hvenær ég á að byrja á Skýlinu - best að reyna að gera það á morgun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli