Það var FPA í dag eins og venjulega á fimmtudögum. Á ákveðnum tímapunkti barst umræðan að Íslandi og ESB og kennarinn sagði að Ísland yrði væntanlega búið að sækja um aðild innan skamms. Ekki í fyrsta sinn sem ég heyri þetta hérna úti en núna ákvað ég að gjamma inn í og sagði kennaranum að það væri orðum aukið því nýjustu skoðanakannanir sýndu að meirihluti landsmanna væri andvígur aðild að ESB. Hann varð hissa á því og hafði ekkert heyrt af því í fjölmiðlum á Bretlandi eða hérna á meginlandinu.
Ég hef notað tímann síðan ég kom hingað út til að viða að mér upplýsingum um ESB til þess að geta myndað mér skoðun á málinu. Það verður að segjast eins og er að fréttaflutningur heima á Íslandi er dáldið úti á túni í þessum efnum og eiginlega ekki hægt að mynda sér skoðun með því að byggja aðeins á honum. En núna er ég hinsvegar komin að niðurstöðu og ég held að það væri með því vitlausasta sem Íslendingar gerðu á þessum tímapunkti að sækja um aðild.
Í fyrsta lagi er líka kreppa í ESB. Við þurfum ekki nema að horfa til Írlands til að sjá það að Evran bjargar ekki öllu og það er ekki útséð með hvernig málin eiga eftir að þróast þar í landi. Eistrarsaltslöndin eru með gjaldmiðlana sína "peggaða" við evruna og þau eru ekki í góðum málum svo ekki sé vægar tekið til orða. Þar hafa heimilin, líkt og á Íslandi, tekið lán í stórum hluta í erlendri mynt hjá evrópskum bönkum, aðallega austurrískum og ítölskum. Gjaldmiðlarnir þeirra hafa fallið líkt og íslenska krónan og lánin þeirra þar með rokið upp úr öllu valdi. Alveg eins og á Íslandi. Margir evrópskir bankar, aðallega í Austurríki og á Ítalíu, hafa lánað í stórum stíl til Austur Evrópu og háar upphæðir koma til með að gjaldfalla í ár. Það er ekki útlit að hægt verði að greiða þau lán og afleiðingarnar gætu verið rosalegar, sérstaklega fyrir Austurríki. Þá er einnig vert að minnast á það að ýmis lönd ESB eru að glíma við mikla alvarleika í sínu efnahagslífi, t.d. Spánn og Grikkland.
Það er því ekki útséð með það hvernig fjármálakreppan á eftir að leika ESB. Þetta er í raun fyrsti alvarlegi atburðurinn sem löndin 27 standa frammi fyrir að þurfa að leysa og nú reynir á hversu sterk böndin á milli ríkjanna eru. Sarkozy hafði ekki fyrir því að funda með fulltrúm allra aðildarríkjanna þegar kreppan kom upp og kallaði bara til sín fulltrúa stærstu fjögurra ríkjanna. Ég man að forsætisráðherra Finnlands kvartaði þá yfir því að Sarkozy hefði ekki haft fleiri með í ráðum. Menn töluðu þá um samhæfðar aðgerðir en það hefur farið minna fyrir þeim og hver hefur verið að bardúsa í sínu horni. Nú eru Tékkar með forsæti yfir ESB. Þeir hafa boðað til funda út af ástandinu og maður verður að sjá hvað kemur út úr því. Það verður fróðlegt að sjá hvort forysta þeirra er nógu sterk til þess að taka almennilega á vandanum.
ESB glímir við önnur vandamál fyrir utan fjármálakreppuna. Eftir að Rúmenía og Búlgaría gengu í sambandið árið 2007 er mansal orðið að veruleika INNAN sambandsins. Háværar raddir eru um það að stækkanirnar árin 2004 og 2007 hafi verið vanhugsaðar og ríkin sem þá komu inn í raun ekki tilbúin til þess að ganga í sambandið. Bæði voru þau flest nýorðin sjálfstæð og þau voru ekki komin langt á veg í þróun lýðræðis. Auk þess vantaði upp á að þau væru orðin nógu ESB-vædd ef hægt er að taka svo til orða, þe. þau viðmið og gildi sem ESB hefur í hávegum voru ekki orðin nógu stór hluti af menningu ríkjanna til þess að aðildin gengi smurt fyrir sig. Vegna þessara vandamála eru margir á þeirri skoðun að ekki eigi að stækka ESB frekar en orðið er næstu ár og jafnvel áratugi. Halda eigi áfram því ferli sem Króatía og Tyrkland eru í en síðan ekki söguna meir fyrr en löndin á Balkanskaganum verða orðin nógu þróuð til þess að hægt sé að fara í formlegt aðildarferli.
Vissulega er Ísland nær ESB í viðmiðum og gildum en lönd Austur Evrópu. Við yrðum minnsta aðildarríki sambandsins og hlutfallslega myndu fylgja því nokkur áhrif á Evrópuþinginu þar sem íslenskir Evrópuþingmenn væru með færri kjósendur á bakvið sig en í stærri löndum. En litlu löndin sem eru nú þegar í ESB, og eru flest mun fjölmennari en Ísland, kvarta yfir því að hafa ekki nógu mikil áhrif. Þær vaða ekki svo auðveldlega í Þýskaland, Frakkland, Bretland og Ítalíu þegar stóru þjóðirnar eru búnar að ákveða hvernig hlutirnir eiga að vera. Þrátt fyrir að allt hafi hrunið á Íslandi, hefur fólk áhuga á því að þessar fjórar þjóðir hafi eitthvað með það að segja hvað við gerum? Ísland á sína bandamenn innan ESB en það þýðir ekki að okkur verði tekið fagnandi og með opnum örmum ef við sækjum um. Þegar ég sagði danskri vinkonu minni hérna úti að ég væri ekki hlynnt því að Ísland færi þarna inn fékk ég yfir mig reiðilestur. Ísland mætti þakka fyrir það að það væri einhver áhugi hjá ESB fyrir því að taka við okkur. Við gætum sjálfum okkur um það kennt að allt hefði farið til fjandans hjá okkur og hefðum reynt að rústa Danmörku í leiðinni. Hefur einhver áhuga á því að fara þarna inn á þessum formerkjum?
Ég gat svo sem kvittað undir það með þessari vinkonu minni að við gætum sjálfum okkur um kennt. Þess vegna þurfum við sjálf að koma okkur út úr þessu og standa upp á lappirnar aftur. ESB býður okkur engar töfralausnir. Það sem við þurfum að gera er að standa saman sem þjóð og koma okkur í gegnum þetta. Það vita allir að það verður töff en ég held að það efist enginn Íslendingur um það að við förum í gegnum þessa kreppu og stöndum sterkari á eftir. Það má svo endurmeta það hvort það sé ástæða til að sækja um aðild þegar við erum komin á lappirnar aftur. Núna eigum við hinsvegar einfaldlega nóg með okkar og eftir því sem best verður séð, á ESB líka fullt í fangi með sitt.