31 desember 2006

Nú árið er liðið í aldanna skaut...

eða því sem næst. Ég ætla ekki að fara yfir helstu atburði ársins hér, ég ætla að sprengja stóru rakettuna mína á miðnætti í kvöld og kveðja það með látum svo það komi örugglega aldrei til baka. Ég vil þakka lesendum síðunnar samfylgdina á árinu og óska þeim öllum gæfu og hamingju á nýja árinu.

26 desember 2006

Gleðilega hátíð

og vonandi hafið þið sem flest haft það gott yfir hátíðina. Ég er aldeilis búin að hafa það huggulegt og borða góðan mat. Hef bara dandalast á náttfötunum þegar ég hef verið heima hjá mér og horft á Grey's Anatomy og svo dressað mig upp og farið að borða hjá mömmu. Ég fékk margt fallegt í jólagjöf og fallegar kveðjur og þakka bara kærlega fyrir mig!

22 desember 2006

Röggi bró mættur á klakann

eftir mikið basl. Lenti í Keflavík um klukkan 6 í morgun eftir miklar seinkanir á fluginu. Ég reif mig upp á rassgatinu til að sækja drenginn og nú fær hann að leggja sig á meðan beðið er eftir næsta flugi. Allir að krossa fingur að það verði flogið vestur í dag! Ég fékk hins vegar að mæta beinustu leið í vinnuna og er ekki lítið þreytt.

21 desember 2006

Hún elsku besta Agga mín er 25 ára í dag. Til hamingju með daginn krúslan mín og hafðu það alveg svakalega gott í dag :)

18 desember 2006

Endalaus veikindi..

Fékk aðra umgangspestina á stuttum tíma á helginni. Lá alla helgina og rétt meikaði vinnuna í dag. Það verður gott að komast í jólafrí og safna kröftum. Skráði mig annars í rope yoga í dag, á námskeið sem hefst eftir áramótin. Ég ætla ekki að eyða öðru ári í svona veikindarugl. Er enn að bíða eftir bókinni um endometriosu og mataræði sem ég pantaði á Amazon, held áfram að taka það í gegn um leið og hún kemur í hús.

14 desember 2006

Ég var að..

passa fyrir Dagnýju og Hauk í gærkvöldi. Ég var mjög fegin þegar mamma leit inn en þá var Arnar á skiptiborðinu, það var að sjóða í pottinum og Tómas Orri var byrjaður að gráta í vagninum. Horfði svo á hana með skelfingarsvip þegar hún sagðist vera að fara. En þetta gekk allt saman vel - en ég ætla ekki að eignast svona mörg börn sjálf....

11 desember 2006

Takk FM 957!!

Það hefur oft verið gert grín að mér fyrir að hlusta á FM en ég skammast mín nú ekkert fyrir það og tel tónlistarsmekk minn ekki verri fyrir vikið. Tel það nú bara merki um menningarsnobb að líta niður á þá sem fíla ekki sömu tónlist og maður sjálfur, hver svo sem hún er. En FM stóð aldeilis fyrir sínu í dag. Ég sendi inn bréf í leik hjá þeim og bað þá um að bjóða Rögga bró til Bolungarvíkur yfir jólin. Það var hringt í mig í dag og FM og Flugfélag Íslands ætla að bjóða Rögga alla leiðina heim yfir jólin. Þannig að það eru allir úber glaðir og sáttir í minni familíu núna og við segjum bara takk FM 957!

Á sama tíma að ári..

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Kominn desember og farið að styttast í nýtt ár. Ég held að ég sé ekkert ein um það að horfa til baka yfir árið sem er að líða þegar jólin nálgast en núna finnst mér eins og ég þurfi að fara mörg ár aftur í tímann til að rifja upp seinustu áramót. Ef einhver hefði sagt mér þá hvað ætti eftir að ganga á í lífinu mínu þetta árið hefði ég sjálfsagt hlegið mig máttlausa og talið viðkomandi vera nett skrýtinn og þurfa á stórfelldri andlegri aðstoð að halda. En hlutirnir breyttust og þegar ég horfi til baka er ég ekki viss um að ég hafi raunverulega þekkt það fólk sem stóð mér hvað næst fyrir ári síðan. Ég veit ekki einu sinni hvort að mig hafi langað til að þekkja það. Stundum er ég meira að segja efins um að ég hafi þekkt sjálfa mig.

Fyrirgefning er líka ofarlega í huga mér þessa dagana, hvort það sé hægt að fyrirgefa allt. Þrátt fyrir mig langi ekki til að hverfa til hlutanna eins og þeir voru og ég hlakki til að kveðja fortíðina, ef hægt er að segja svo, og hefja nýtt ár, þá er ég ekki búin að fyrirgefa það sem var gert á minn hlut. Ég held að ég eigi aldrei eftir að skilja hvernig er hægt að koma svona fram við annað fólk og þá er erfitt að finna það hjá sér að fyrirgefa. Ég er samt hvorki reið né bitur, mig langar bara að vita af hverju. Fá það staðfest að það hafi ekki verið mér að kenna. Samt veit ég alveg að ég get aldrei borið ábyrgð á hegðun annarra og að það réttlæti ekkert svona framkomu. Stundum þarf bara sálartetrið að heyra að það hafi ekki gert neitt rangt. En þessa hluti ætla ég að sprengja út með gamla árinu, ég veit að tíminn sér um rest.

Ég er hins vegar að gera mér betur og betur grein fyrir því að veikindin eru komin til að vera og að ég verði að sætta mig við að þurfa að eiga í þeim næstu 20 árin, ef ekki um ókomna tíð. Ég er hins vegar viss um að ég geti gert mitt til að halda þeim sem mest niðri og það er eitthvað sem ég er ákveðin í að gera. Ég er komin á ný hormónalyf og þarf að taka pilluna samhliða þeim næstu 5-6 vikurnar. Það er því tvöfaldur hormónaskammtur í gangi og ég er strax farin að finna hvað þráðurinn hefur styst. Þetta er alveg árstíminn til að vera með hormónapirring í hámarki og ég vona bara að ég nái að anda djúpt í jólaösinni sem er framundan svo að ég eigi ekki eftir að hvæsa á fólk sem er svo óheppið að vera á röngum stað á röngum tíma.

En þrátt fyrir allt er ég sátt við lífið í dag og ég veit ekki hvort ég hefði viljað breyta þessu ári sem er að líða. Allt sem hefur gerst hefur gert mig að því sem ég er í dag og ég er allavegana ekki verri manneskja fyrir vikið. Ég gæti nú meira að segja verið betri ef eitthvað er. Það verður forvitnilegt að sjá hvað nýja árið ber í skauti sér og ég ætla ekki einu sinni að reyna að spá fyrir um hvar ég verð stödd í lífinu á sama tíma að ári. Ég veit bara að ég hlakka til að takast á við það sem framundan er :)

10 desember 2006

Enn eitt slysið..

Það varð banaslys á Vesturlandsveginum í kvöld og núna bíð ég eftir reiðiöldu um að það verði að gera eitthvað til að bæta öryggið á veginum. Þetta er allavegana annað banaslysið á árinu á þessum vegi og það er ótrúlegt að aldrei skuli vera gerðar neinar almennilegar úrbætur á þessum vegi sem liggur þó í gegnum tvö bæjarfélög og hefur hæstu slysatíðni af öllum vegum á landinu. Já, hærri en bæði Suðurlandsvegur og Reykjanesbraut og hefur auk þess meiri umferðarþunga. Ég efast þó að um að þessi reiðialda muni koma, fólk hringdi bara í lögguna og kvartaði yfir því að vegurinn væri lokaður. Alveg ótrúlegt skeytingarleysi.

Ætli ég eigi eftir að lifa þá tíma að Ísland hafi stjórnvöld sem geri eitthvað af viti í samgöngumálum og vinni leynt og ljóst að því að fyrirbyggja slys og bæta umferðarmenningu en ekki plástra bara þar sem verstu slysin verða?

08 desember 2006

Flottasti skólinn


Tveir póstar í dag, bara fyrir Dagnýju. Stal þessari af víkarabloggi og verð að vera sammála því að þetta er flottasti skóli landsins. Ohh, mig langar heim....

Halló! Get ég fengið keypt egg?

Jæja, Dagný systir var að kvarta undan bloggleysi hjá mér og maður verður nú að bregðast við því svo að heimavinnandi húsmóðirin hafi eitthvað að gera þegar hún vafrar um á netinu. Annars er ekkert að frétta af þessum bænum, nema þið hafið voðalega gaman af því að heyra um bókhald. Það er spurning um að koma sér upp svefnaðstöðu í vinnunni og spara sér bara leiguna. Það er búið að vera alveg óendanlega mikið að gera undanfarið en sem betur fer er farið að hægjast um og aldrei að vita nema maður sjái einhverja af vinum sínum á aðventunni og fari jafnvel að hætta í vinnunni á eðlilegum tíma á daginn.

Kristinn Breki kom og skreytti hjá mér á seinustu helgi og fékk að gista líka. Það var voða notalegt hjá okkur og jólatréð er glæsilega skreytt eftir kappann að vanda. Annars er bara afslöppun framundan, eða allavegana minni vinna en undanfarið og planið er að vera í bænum yfir hátíðarnar. Röggi bró kemur til landsins 21. og verður fram yfir áramót og það verður öfga gaman að hafa hann hérna á þessum árstíma til tilbreytingar.

Annars er hausinn tómur og ég ætla að hætta áður en röflið nær nýjum hæðum. Ég heimta að Dagný kvitti fyrir póstinn og skrifi inn á síðurnar hjá púkunum svo ég hafi eitthvað að gera þegar mér leiðist í vinnunni ;)

02 desember 2006

Marmaris myndir

Við mæðgur vorum nú ekkert ofvirkar á myndavélinni í fríinu en það voru teknar myndir af okkur í seinasta skiptið sem við fórum í spa-ið á hótelinu. Ég fékk loksins diskinn hjá mömmu og hérna eru nokkrar myndir.


Mamma komin í þvottinn

Rakel á þvottaborðinu

Ég á tyrkneska marmaranum

Sætar mæðgur ;)



Frýnilegar með ískalda body maskið

Rakel fær góða gusu yfir sig

29 nóvember 2006

Snilldar kennari ;)

Varð bara að monta mig smá af púkunum mínum í bókfærslunni. Var að ljúka við að fara yfir jólaprófin þeirra og meðaleinkunnirnar voru 9,5 og 9,8 svo ég er bara úber stolt af liðinu. Áður en þið farið að kommenta um að prófin hafi verið of létt þá vil ég benda á að þetta er þannig fag að annað hvort kanntu það eða ekki og venjulega fá nemendur 10 eða núll og ekkert þar á milli. Á prófunum komu fram öll þau atriði sem þau hafa lært í vetur og þessu var bara rúllað upp með stæl. Mikið asskoti er ég ánægð :)

28 nóvember 2006

Grenj....

Pabbi ætlaði að vera svo góður að kaupa fyrir mig ilmvatn í fríhöfninni á leiðinni heim. En nei, ilmvatnið mitt var hvorki til í Köben né í Keflavík og nú þarf ég víst að fara að finna mér nýtt ilmvatn - og believe you me það tók laaaangan tíma að finna þessa lykt. Kannski spurning um að kíkja inn í allar snyrtivörubúðir sem verða á vegi mínum í jólagjafaleiðöngrum og sjá hvort að þar leynist eitt glas af Simply frá Clinique.... Ef allir góðir englar vaka yfir mér finn ég kannski líka sólarpúður frá Lancome - þetta gamla góða í stóru boxunum. Hvað er málið með snyrtivöruframleiðendur að hætta alltaf framleiðslu á bestu vörunum??

22 nóvember 2006

Gæsahúð og hrollur

Þeir sem þekkja mig vita að ég er enginn Bubba aðdáandi. Þess vegna hef ég aldrei heyrt þetta lag. Textann sá ég hins vegar á síðu hjá gömlum nemanda og um mig fór hrollur. Ég fékk sömu gæsahúðina og alltaf þegar byrjar að hvessa og snjóa og vindurinn gnauðar úti. Sömu tilfinningu og maður upplifði í janúar og október 1995. Þetta er magnaður texti.

Bubbi Morthens - Með vindinum kemur kvíðinn

Fyrir vestan er veturinn stríður
vokir yfir byggð og tíminn líður.
Með sólvana daga, dapurlegan róm
dreymir ekki alla himnanna blóm.

Vegirnir lokast, veturinn hamast,
vörnin er engin, þorpið lamast.
Menn horfa upp í hlíðina, sjá ekki neitt
himinn og jörð renna saman í eitt.

Dag eftir dag snjónum kyngdi niður,
dúnmjúk mjöll, þessi hvíti friður.
Í rökkrinu þorpið sýndist svo smátt,
svo fór hann að hvessa úr annarri átt.

Og með vindinum kemur kvíðinn,
úti er kolsvört hríðin.
Og fjallið það öskrar svo fellur öll hlíðin
og húsin þau hverfa í kófið.

Eitt andartak stóð tíminn kyrr,
æddi síðan inn um glugga og dyr.
Hreif burt vonir, reif upp rætur,
einhvers staðar engill grætur.

Hvers vegna hér - menn spá og spyrja,
spurningar flæða hvar á að byrja.
Fólkið á þig kallar Kristur,
kvölin nístir bræður og systur.

Tárin eru leið til að lækna undir
lífið er aðeins þessar stundir.
Gangverk lífsins þau látlaust tifa
og við lærum með sorginni að lifa.

Og með vindinum?

21 nóvember 2006

VILTU KOMA ÞÉR Á FÆTUR!!!!

Það búa afar, tja hvað skal segja - skrautlegar kannski, mæðgur fyrir ofan mig. Undanfarna morgna hefur dóttirin greinilega átt afar erfitt með að koma sér á fætur en þrátt fyrir að ég hafi lítið sem ekkert hitt þessar mæðgur eða spjallað við þær þá veit ég það að þær eru alltaf samferða út á morgnana. Venjulega hrekk ég upp við það þegar mamman kallar á dóttur sína að fara að koma sér á fætur - og hún öskrar eitthvað misskiljanlegt til baka. Mér bregður ennþá það mikið við öll þessi læti að ég tek þetta hreinlega til mín og hrökklast fram úr rúminu sjálf. Það er kannski bara ágætt, ég sef þá ekki yfir mig á meðan.

19 nóvember 2006

Árviss viðburður...

en kemur Reykvíkingum alltaf jafn mikið á óvart. Að sjálfsögðu er ég að tala um fyrsta alvöru snjóinn. Ég skemmti mér konunglega áðan við að fylgjast með einni gellu í blokkinni á móti moka upp bílinn sinn - ef hægt er að segja svo. Það var smá skafl fyrir aftan bílinn og þurfti kannski að moka smá. Þetta tók hana hins vegar góðan hálftíma og hún mokaði öllu fyrir bílana sem voru við hliðina á henni. Ég hefði náð í hana og látið hana moka frá þeim bílum líka ef ég hefði átt þá. Það er svo alveg magnað að Lögreglan þurfi að taka það fram í fjölmiðlum að fólk eigi ekki að vera á ferðinni á sumardekkjum. Fólk er fífl - það er eiginlega ekki hægt að segja annað.

18 nóvember 2006

Stolt af kallinum

Það er ekkert gefið í pólitík og það hefur sést greinilega í prófkjörum undanfarið. Pabbi hlaut ekki brautargengi í prófkjörinu í gær og auðvitað eru það vonbrigði fyrir hann. Ég hef aldrei viljað vera flokksbundin og hef alls ekki alltaf verið sammála karli föður mínum en ég hef alltaf borið virðingu fyrir því starfi sem hann hefur unnið af hendi. Þrátt fyrir úrslit gærdagsins er ég stolt af kallinum. Hann hefur alltaf staðið á sínu þrátt fyrir að á móti hafi blásið og það er meira en hægt er að segja um margan þingmanninn sem skiptir oft um lið eftir vindáttum. Eins og einhver vitur maður sagði eitt sinn, þá er einn djarfur maður oft meirihlutinn.

En pólitíkin er hins vegar tík og ég á ekki eftir að gráta það ef hann ákveður að hætta í stjórnmálum. Eftir að stjórnmálaumræða færðist í meira mæli inn á netið þá gleymist það æ oftar að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Oft verður persónulegt skítkast meira ráðandi í umræðu þeirra sem tjá sig á netinu þar sem viðkomandi er ekki í aðstöðu til að svara fyrir sig. Það er nú samt þannig að það er gott fólk að vinna á öllum vígstöðvum í pólitík og þrátt fyrir að maður sé ekki sammála þeirra vinnubrögðum og/eða skoðunum þá hefur maður engan rétt á því að vaða með skít og drullu yfir persónu þeirra - þó svo að málefnaleg gagnrýni standi alltaf fyrir sínu. Því eins og áður sagði skal aðgát höfð í nærveru sálar og fátt er eins meiðandi og einmitt orð.

Umræðan um pabba hefur oft verið óvægin og ég reyni oftast að leiða hana hjá mér. Hans eigin flokksmenn hafa oft gengið hart fram og hafa haft í frammi ummæli sem segja meira um þá sjálfa en pabba. Ekki það að ég sé viðkvæm fyrir gagnrýni á pabba eða hans störf, við systkinin erum alin upp á mjög pólitísku heimili þar sem er langt í frá gefið að allir séu sammála. Ég hef ávallt verið foreldrum mínum þakklát fyrir það að hafa ekki troðið sínum skoðunum upp á okkur heldur frekar alið okkur upp til þess að hafa okkar eigin skoðanir. Maður væri hins vegar gerður úr steini ef það kæmi ekki við mann þegar einhver sem stendur manni nærri er beinlínis rakkaður niður í fjölmiðlum. Og það er einmitt mergur málsins. Hvort sem það er í stjórnmálum eða annars staðar í samfélaginu þá skal aðgát höfð í nærveru sálar. Það er vonandi að sem flestir taki það sér til fyrirmyndar.

17 nóvember 2006

Eragon

Ég tók andköf af spenningi fyrst þegar ég las þessa frétt á mbl. Í fljótfærni minni hélt ég að þriðja bókin um Eragon væri loksins komin. En nei, þetta er bara bók númer tvö á íslensku - sem ég er auðvitað löngu búin að lesa á ensku. Þannig að ég verð að bíða enn um sinn eftir bók númer þrjú.

14 nóvember 2006

Ég vil benda fólki á að hlusta á Laufskálann síðan í gær á ruv.is. Þar var verið að spjalla við hann Valdimar Víðisson, frænda minn, sem er skólastjóri í Grunnskólanum á Grenivík. Ég hlustaði á þáttinn í gær og hann stóð sig frábærlega og margt varið í það sem hann hafði að segja.

Annars hef ég ekki mikið að segja þessa dagana, vaskur og jólapróf framundan. Ég hef ekki nennt að tjá mig um þessi innflytjendamál hérna aðallega vegna þess að mér finnst umræðan á sorglegu plani. Mér finnst fólk alveg jafn sorglegt sem vill halda öllum útlendingum frá landinu og þeir sem stimpla alla sem rasista sem vilja ræða þessi mál. Í mínum huga er hvorki gott að loka landinu fyrir útlendingum né að hafa aðgang þeirra að landinu alveg frjálsan og ég neita að láta stimpla mig sem rasista fyrir að vilja ekki frjálst flæði innflytjenda til landsins.

13 nóvember 2006

Ekki hæf til útgerðar

Helginni var eytt með vinnufélögunum á Sólheimum í Grímsnesi. Það var hinn besta skemmtun og kann ég mömmu og Sveinbirni bestu þakkir fyrir. Sérstaklega fyrir að hafa tekið mig með heim aftur. Það sem stendur upp úr eftir ferðina er að konan hafi ekki verið hæf til útgerðar og þarf fólk að fara á Draugasetrið á Stokkseyri til að fá frekari útskýringar á því. Eins urðu glottin eftir á Sólheimum, ásamt lífrænt ræktaða bjórnum, rauðvíninu og hvítvíninu - sem er reyndar vel hægt að mæla með. Fólk þarf samt að gera sér ferð á Sólheima til að fá sér flösku af slíku góðgæti, tilvalið að ná sér í glott í leiðinni og glotta eins og fífl alla leiðina heim ;)

09 nóvember 2006

Sektin er komin í hús...

...Það verða engar jólagjafir frá mér í ár.

06 nóvember 2006

Erla móða og Tómas Orri

Þá er litli kúturinn kominn með nafn. Tómas Orri varð fyrir valinu og á það alveg einstaklega vel við litla kútinn sem hefur verið kallaður Tommi togvagn af okkur í fjölskyldunni síðan hann fæddist :p Læt fylgja hérna mynd af honum í skírnarkjólnum með sinni einstaklega myndarlegu móðursystur ;)



03 nóvember 2006

Þessi hefur þokkalega verið á þörfinni. Greyið maðurinn, hehehe....

02 nóvember 2006

Kveðja

Við kveðjum í dag mann sem hefur reynst fjölskyldunni minni afar vel og alltaf verið til staðar þegar við þurftum á að halda. Mig langar að setja hérna inn ljóðið sem Dagný systir fann til að setja í minningargreinina frá okkur systkinunum um leið og ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur í Keflavíkina. Þú veist hvar við erum Sigrún mín ef það er eitthvað sem við getum gert.

Hér við lífsins leiðarenda
leitar klökkur hugurinn.
Hjartans þakkir því skal senda
þér, og kveðjur vinur minn.
Meðan ég er moldum yfir
man ég okkar kynni vel.
Þín í anda áfram lifir
alúð, tryggð og vinarþel.
(höf. Óþekktur)

01 nóvember 2006

Læknar og spítalar

Ég hef aldrei verið hrifin af læknum og enn síður af spítölum en hef því miður talsvert þurft að nýta mér þjónustu þeirra þetta árið. Mér hefur oft verið hugsað til frasans ,,við erum með besta heilbrigðiskerfið í heiminum". Það er nefnilegast langt í frá að svo sé og það er ég búin að reka mig á aftur og aftur. Ég myndi hins vegar hiklaust halda því fram að starfsfólkið innan heilbrigðisgeirans væri með því besta sem gerist og það er að vinna frábært starf við oft ansi ömurlegar aðstæður.

En það eru undantekningar á því eins og á öllu öðru. Á mánudagskvöldið þurfti ég að fara niðrá Læknavaktina á Smáratorgi og var þjónustan þar svo innilega fyrir neðan allar hellur að ég get bara ekki annað en sagt frá því. Ég hringdi þangað fyrst til að leita ráða vegna afar slæms höfuðverkjar sem var að hrjá mig og indæl hjúkka sagði mér að koma strax til þeirra sem ég og gerði. Mamma fór með mér því ég var í engu ástandi til að keyra sjálf. Það var enginn að bíða í móttökunni svo við fórum strax til ritarans og var mér þá svo illt að ég hálf grét og stóð varla í lappirnar. Ekki var það nógu áríðandi til að ég fengi afgreiðslu strax og konan fór að kalla upp fólk sem var að greiða fyrir læknisvottorð og eitthvað þvíumlíkt. Mamma lét mig því setjast og beið eftir að kæmi að okkur. Þegar ég kom svo inn til læknisins var hausinn við það að springa og flökurleikinn bætti ekki úr skák og ég leit heldur illa út. Gat ekki setið upprétt í stólnum og var bókstaflega við það að leka niður. Læknirinn hins vegar skammaðist bara út í mig hvað ég hefði tekið af verkjalyfjum um daginn og ætlaði nú bara ekkert að gera. Mamma var hins vegar frek og vildi vita hvort þetta væru einkenni blóðtappa en honum fannst þetta augljóslega hið mesta vesen í okkur en tók blóðþrýstinginn til að friða mömmu. Sendi okkur svo bara út aftur og sagði mér að fara niðrá slysó. Spurði ekki að neinu og gerði ekki neitt.

Á slysó fór ég framfyrir í röðinni og var farið nánast beint með mig inn á skoðunarherbergi þar sem ég fékk að leggjast niður og hjúkkan tók blóþrýstinginn. Svo tók við bið. Og bið. Ég fékk verkjalyf eftir 2 tíma og var í rauninni bara sprautuð niður og þá voru líka teknar blóðprufur. Og þá tók við ennþá meiri bið eftir niðurstöðunum úr þeim. En þrátt fyrir alla biðina á slysó þá var starfsfólkið frábært - þegar það var á staðnum. Það svaraði þolinmótt öllum okkar spurningum og upplýsti okkur mjög vel um það sem stóð til að rannsaka og hvað það þýddi allt saman.

Ég skil ekki ennþá af hverju læknirinn á Læknavaktinni spurði engra spurninga og af hverju hann gerði ekki neitt. Ég veit bara að ég fer ekki þangað inn fyrir dyr aftur og þó svo ég þurfi að bíða í marga klukkutíma þá fer ég bara beint niðrá slysó næst þegar eitthvað bjátar á.

30 október 2006

Fór á Mýrina í gær. Fannst hún bara nokkuð góð. Ég var ekkert upprifin af leikaravalinu þegar ég heyrði af því fyrst fyrir utan að ég hafði trú á Ágústu Evu í hlutverki Evu Lindar. Ingvar E. kom bara vel út sem Erlendur þrátt fyrir að ég hafi gert mér aðra mynd af honum. Ég keypti alveg karakterinn. Björn Hlynur var líka æði sem Sigurður Óli. Bara flottur. Ólafía Hrönn var hins vegar hreinn horror sem Elínborg. Ég keypti hana aldrei og satt best að segja fannst mér karakterinn verulega illa túlkaður hjá henni. Í mínum huga var Elínborg ekki svona hryssingsleg og tóm eins og mér fannst Ólafía Hrönn vera. Eins fannst mér LandRoverinn sem Erlendur keyrði um á einum of flottur eitthvað og engan veginn passa inn í heim Erlendar.

En myndin var í heildina séð góð og ég get tekið undir það að þetta sé besta mynd Baltasars. Hann er trúr bókinni og lagar söguþráð hennar vel að handritinu. Það var mikið af skemmtilegum karakterum og það stóðu sig allir frábærlega - nema Ólafía Hrönn greyið.

Annars er stemmarinn fyrir að blogga dottinn niður. Var að koma frá því að kenna og þetta var fjandi dýr tími þökk sé bölvuðum mótorhjólalöggunum á Hringbrautinni.....

24 október 2006

Allir að fylgjast með þessum samtökum í framtíðinni :)

23 október 2006

Í fréttum er þetta helst

Jæja, þá er heldur annasamri helgi lokið. Ég átti bara ljúfan afmælisdag sem var að mestu leyti eitt í vinnunni. Var ekki búin að vinna fyrr en að ganga 7 og átti svo bara rólegt kvöld heima, fór í ljós og horfði á Bráðavaktina ;)

Á föstudaginn fór ég á stofnfund samtaka kvenna með endometriosu eða legslímuflakk - sem þykir víst ekki huggulegt orð. Það var ágætt að mæta þangað og heyra reynslusögur annarra sem hafa gengið í gegnum svipaða lífsreynslu og ég. Sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu margar af þeim hafa eignast börn þrátt fyrir ófrjósemisdóminn sem margar konur með þennan sjúkdóm fá oft að heyra ansi ungar. Sérstakur gestur var formaður dönsku endometriosusamtakanna og það var afar fróðlegt að heyra í henni. Það hefur mikill árangur náðst í Danmörku í kynningu á sjúkdóminum en samt hafa ca 15% kvenna með hann verið sagt upp störfum sökum hans. Það hljómar ótrúlega en ég hef alltaf verið með móral í gegnum tíðina þegar ég hef legið veik heima með túrverki. Maður fær ótrúlega oft það viðhorf að þetta sé bölvaður aumingjaskapur í manni og að maður hljóti nú að geta harkað þetta af sér. Þrátt fyrir að maður hafi venjulega notið skilnings yfirmanna þá náði hann ekki mjög langt. Kannski ekki skrýtið miðað við hvað þessi sjúkdómur er lítið þekktur hér á landi en nú verður vonandi bætt úr því. Það var allavegana frábært að hitta allar þessar konur og fá staðfestingu á því að það sem maður hefur verið að bögglast með síðan maður byrjaði á blæðingum sé ekki eðlilegt og að það sé hægt að lifa öðruvísi en að vera uppdópaður í hvert sinn sem maður fer á túr.

Eftir stofnfundinn rauk ég heim til að elda fyrir Geira og Rakel en Geiri ætlaði að hjálpa mér að setja saman nýja stofuskápinn minn. Það gekk hins vegar ekki betur en svo að þegar við opnuðum kassana sást að það hafði verið sendur rangur litur og við spjölluðum því bara fram eftir kvöldi. Alltaf gaman að taka svona rólegheitakvöld með vinum sínum :)

Laugardagurinn fór svo í að undirbúa kaffiboð fyrir familíuna. Afrekaði að baka vöfflur í fyrsta skipti og prófaði að gera tvo brauðrétti alveg sjálf og ég held að þetta hafi heppnast alveg ágætlega. Kolla kom svo í bæinn með hluta af púkunum og gelgjurnar fengu að gista hjá frænku sinni. Alltaf gaman að fá gesti :)

Svo var seinasta formúla ársins í gær. Ég ákvað nú að horfa á hana svona til tilbreytingar, hef ekki nennt að fylgjast mikið með undanfarið. Schumi hættur núna, Raikkonen farinn til Ferrari og Vodafone farið að sponsa McLaren. Þarf ég að segja meira? Sé svo sem ekki á eftir Schuma en öll mín formúluprinsipp eru farin fyrir bý eftir þessa keppni. Hef næstu sex mánuði til að sofa á þeim.

Annars eru heitustu pælingarnar að halda innflutningspartý 4. nóvember. Eruði geim?

18 október 2006

Enn eitt árið....

þó svo að ég streitist mikið við.... Alltaf gaman að eiga afmæli :)

17 október 2006

Erla móða og litli frændi

með litla púk... sorrý, drenginn alveg nýjann. Algjör krús

Maður varð nú að fá að máta ;)

16 október 2006

Klár nemandi....

After careful scrutiny, it is our understanding that the student was given credit for the answer, but the board of education has warned math teachers to be more specific in the future.


13 október 2006

Pælingar...

Fyrir rétt hálfu ári síðan fór af stað með látum sú rússibanareið sem hefur einkennt lífið mitt síðan. Ég veiktist, ef hægt er að segja svo, og þurfti óvænt að standa í þeim veikindum ein. Með hjálp fjölskyldunnar og góðra vina náði ég að fara ágætlega stemmd inn á spítalann og mínir nánustu stóðu sem klettur við hliðina á mér á meðan ég var að komast á fætur aftur. Og breytingarnar héldu áfram, ég útskrifaðist úr skólanum, Agga eignaðist Úlf og ég flutti. Ég ákvað að taka að mér smá kennslu og er núna búin að breyta heldur betur til í vinnunni. Þegar ég horfi til baka finnst mér eins og þessi örlagaríki dagur fyrir hálfu ári síðan hafi verið í öðru lífi. Það er varla að mér finnist það hafa verið í mínu lífi.

Og ekki vantar tímamótin þessa dagana. 27 ára afmælið nálgast eins og óð fluga þrátt fyrir að mér finnist það vera í margra ára fjarlægð. Á meðan systir mín, sem er ári eldri en ég, hugsar um drengina sína þrjá hef ég ekki hugmynd um hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Ég bölva fólki í hljóði sem spyr mig hvenær ég ætli að koma með eitt lítið og speisa út í samræðum þar sem umræðuefnið er fæðingar og ungabörn. Kannski soldið kaldhæðnislegt með það í huga að ef ég ætla mér að eignast börn þá hefði verið best ef ég byrjaði að reyna í gær. En kannski ekkert skrýtið. Enda getið þið ímyndað ykkur svipinn á hugsanlegum vonbiðlum við að fá slíkar fréttir. Hver vill taka tímann þangað til rykið fer að þyrlast undan skónum þeirra?

En þrátt fyrir að þetta hljómi voða svartsýnislegt þá ligg ég ekkert í djúpu þunglyndi. Ég er sátt við lífið mitt eins og það er í dag og á vissan hátt finnst mér það skemmtilegt að hafa ekki hugmynd um hvað framtíðin ber í skauti sér. Að hafa nákvæmlega ekki neitt planað og bara njóta þess að vera til. Ég hefði viljað sleppa við pressuna frá læknunum og samfélaginu með þessar blessuðu barneignir. Þessi grey koma þegar þau eiga að koma og á þann hátt sem þau eiga að koma. Því trúi ég allavegana og ég er sátt við mitt hlutskipti. Aðgerðin gerði mig heldur ekki tilbúnari til að eignast börn. Afleiðingar hennar juku bara utanaðkomandi pressu á mig að eignast þau – alveg óðháð því að það vantar einn mikilvægan hlekk inn í mitt líf til að barneignir geti átt sér stað, þ.e. kærasta. Eina ástæðan fyrir því að ég velti þessu svona mikið fyrir mér er af því að allir aðrir virðast gera það.

Stundum finnst mér eins og það sé ætlast til þess að ég hlaupi beint út á djammið, snari einn myndarlegan og verði ólétt helst á fyrsta kvöldi. Eins og enginn skilji að ég hef engan áhuga á því. Eins og enginn skilji að þó svo mig langi til að eignast mína fjölskyldu í framtíðinni þá hafi ég engann áhuga á því að ana út í hlutina. Eins og enginn skilji hversu absúrd þetta hljómar allt saman í mínum eyrum.

Ég er mikið að spá í að sekta fólk um hundrað kall í hvert skipti sem ég er spurð út í barneignir. Já, eða út í kallamál. Þá kannski fer fólk að hætta þessu. Já, kannski ég geri það bara. Ekki samt hafa neinar áhyggjur, þið megið alveg leggja inn á mig ef þið eruð ekki með klink.

09 október 2006

Træt

Minnz er þreyttur. Eftir að hafa næstum dáið við að labba upp stigann til tannlæknisins um daginn þá varð mér ljóst að ég get ekki beðið lengur með að byggja upp líkamann eftir spítalavistina. Síðan þá hef ég farið einu sinni í sund og svo fór ég í göngutúr áðan. Hörku dugleg.... En þetta er allt í áttina og kannski verð ég farin að geta tekið stigann þegar veturinn er liðinn. Svo ef einhver er memm í að synda eða fara í göngutúr þá er um að gera að láta mig vita ;)

Annars er það helst í fréttum að ég er hætt að vinna hjá henni mömmu minni og farin að vinna hjá honum Sveinbirni. Það er nú bara í næsta herbergi en samt sem áður er verið að klippa á naflastrenginn og það er óneitanlega skrýtið að breyta svona til. Var svona pínu týnd í vinnunni í dag. En þetta hlýtur allt að koma og ég vona bara að þetta eigi eftir að ganga vel og gera okkur mæðgum gott. Hildur skvísa er svo að koma í bæinn á morgun og ætlar að gista hjá mér svo það verður vafalítið eitthvað skemmtilegt brallað eftir vinnu á morgun og spjallað fram eftir nóttu eins og okkur einum er lagið ;) Svo eru ýmis tilefni til pælinga þessa dagana, hendi kannski inn færslu ef mér tekst að koma þeim á blað.

04 október 2006

Myndir af litla labbakút

Jæja, þá koma loksins myndir af litla kútnum. Hann var 14 merkur og 51 cm (held ég alveg örugglega). Það vantar ekki hárið á þennan frekar en bræður hans ;)
Sætastur :)


Algjör krús :)


Hún Agnes beiba á afmæli í dag og er orðin þrítug snótin. Til hamingju með daginn elskan mín og hafðu það öfga gott í dag :)

03 október 2006

Lítill prins kominn í heiminn

Það kom lítill labbakútur í heiminn núna rétt fyrir hádegið. Þriðja barn Dagnýjar og Hauks fyrir þá sem ekki vita það. Myndir og málin koma inn um leið og ég fæ það í hendurnar.

Annars segi ég bara til hamingju með litla prinsinn kæra fjölskylda :D

Allt að gerast

Dagný systir fór á fæðingardeildina snemma í morgun og það er því allt að gerast :) Kiddi þarf því ekki að hafa áhyggjur af því að ég fái púkann í afmælisgjöf ;)

02 október 2006

Rólegheit

Helgin var tekin í rólegheitum. Var að vinna auðvitað og svo gisti Kristinn Breki hjá mér á laugardagskvöldinu. Var búin að lofa honum að fá að ,,djamma" einum með frænku sinni ;) Það var bara úber ljúft hjá okkur frændsystkinunum en hann hafði pínu áhyggjur af því að mér leiddist að búa svona aleinni. Bara dúlla.

Það er svo lítið að frétta af Dagnýju systur. Púkinn ætlar að láta bíða eftir sér. Ég spurði Kidda hvort að ég fengi kannski bara púkann í afmælisgjöf. Hann hló nú bara og hélt nú ekki. Ég fengi nú bara venjulega afmælisgjöf frá þeim. Alltaf sami snillinn ;)

27 september 2006

Bara 21....

Ég var að kenna áðan og var spurð að því hvernig í ósköpunum ég gæti verið búin með Kennó þegar ég væri bara 21..... Ég sprakk nú bara úr hlátri og þakkaði stelpunni kærlega fyrir að halda að ég væri bara 21.... Hún er pottþétt búin að vinna sér inn fullt hús í kennaraeinkunn ;)

Hann Þorgeir Valur vinur minn á afmæli í dag. Ég ætla að senda honum afmæliskveðju hérna þó svo að hann lesi aldrei blogg ;) Til hamingju með daginn elskan mín og hafðu það öfga gott í dag :)

26 september 2006

Hún Hildur beiba á afmæli í dag. Til hamingju með daginn elskan mín og ég sendi bestu kveðjur til Eyja! Vonandi áttu eftir að eiga góðan dag :)

25 september 2006

Stopp! Gardínur...

Loksins, loksins eru komnar gardínur fyrir gluggann í herberginu mínu. Og meira að segja í gestaherberginu líka. Ég get haft opin gluggann án þess að það skrjáfi í álpappírnum og get meira að segja dregið frá og fyrir þannig að það verði bjart á daginn. Þvílíkur lúxus. Er líka komin með hillur á baðið og loksins að komast smá skipulag á þar. Veitti sko ekkert af því. Nú vantar mig bara einhvern handlaginn til að hjálpa mér að hengja upp myndir og ljós. Hef varla samvisku í að angra Hauk með það, enda er von á þriðja barni hans og Dagnýjar í heiminn þessa dagana.

En að öðru. Verð bara að tjá mig um þetta Stopp átak sem er í gangi þessa dagana. Þrátt fyrir að mér finnist skelfilegt hvað það hafa margir látist í umferðinni á árinu þá hef ég sjaldan heyrt aðra eins vitleysu og þetta átak. Hvaða heilvita maður trúir því að tímabundið átak komi til með að breyta umferðarmenningu Íslendinga? Hefði ekki frekar mátt eyða öllum milljónunum sem er búið að eyða í auglýsingar í að bæta gæði ökunáms? Í að bæta vegi og skapa öruggari lausnir í vegakerfinu? Vinna að framtíðarlausnum í stað þess að eyða fullt af peningum í e-ð átak sem verður gleymt og grafið eftir mánuð?! Ég ætla allavegana ekki að taka þátt í þessari vitleysu með því að skrifa nafnið mitt á einhverja heimasíðu. Ég mun hins vegar hægja á mér í hvert sinn sem ég keyri fram hjá skilti þar sem kemur fram fjöldi þeirra sem hafa látist í umferðinni á árinu. Ég vona bara að þessi málefni verði stór í komandi kosningabaráttu og að staðið verði við stóru orðin. Ekki bara blásið til átaks.

Veisla

Nammm, mamma var að hringja og spurja hvað ég vildi úr Gamla bakaríinu. Að sjálfsögðu bað ég um kringlur og snúð. Verst að það skuli vera hætt að framleiða skyr á Ísafirði, annars hefði ég beðið um ca kíló af alvöru skyri líka.

Ég er búin að þvo mikið síðan ég kom heim og er mikið búin að eyða tíma í að raða inn í fataskápinn hjá mér. Það pirrar mig mikið hvað hann er lítill og hann er nánast að verða fullur. Ég fékk að heyra það þegar ég flutti að það hefði nú þurft aukaferð á sendiferðabílnum með fötin mín en ég blæs á svoleiðis vitleysu. Ég á ekkert mikið af fötum, skáparnir í íbúðinni eru bara svona litlir. Það er nú bara ekkert flóknara en það.

22 september 2006

Jeg fryser til bane...

Jæja, er komin heim á klakann aftur og lífið að komast í sinn vanagang. Eins og það var nú gott að vera í fríi þá er líka öfga gott að vera komin heim aftur. Ég er á fullu að koma mér betur fyrir í íbúðinni enda var margt eftir þegar ég fór út. Ég er loksins búin að fá mér nýtt handfang á frystinn hjá mér, segi ekki hvað ég ýtti því á undan mér lengi..., og helgin fer í að koma upp gardínum og myndum. Í næstu viku ætla ég svo að dúllast við að bæsa nokkra hluti hérna og þegar Agga mín kemur heim frá Lúx förum við í að búa til flott munstur sem verður skorið út í filmurnar sem fara í eldhúsgluggana. Þá ætti að verða orðið nokkuð notalegt hérna hjá mér þó svo að allt stærra verði að bíða betri tíma. Er samt búin að spotta út eldhúsborð og stóla sem mig langar í, sjónvarpsskáp og ljósakrónu í holið. Gjafabréf í Ikea eru því vel þegnar afmælis- og jólagjafir í ár, já eða peningur upp í ljós ;) ;)

Annars er mest lítið að frétta. Ég mæti spræk í vinnuna klukkan 8 á morgnana og er venjulega mætt fyrst, mömmu til mikillar furðu. Fríið hefur augljóslega gert mér gott. Annars er ég venjulega heima á kvöldin að dúllast í íbúðinni fyrir þá sem eiga eftir að kíkja í heimsókn, hóst hóst. Ég er ennþá að melta formúlufréttirnar, að Raikkonen sé að fara til Ferrari. Hrein og klár vörusvik eru mér nú efst í huga og ég veit ekkert með hverjum ég á að halda í formúlunni lengur. Hreinn og klár skandall. En jæja, ætla að fara að gera eitthvað af viti hérna. Lofa að gíra mig upp í að blogga um eitthvað skemmtilegra fyrst ég er komin með netið heima, allavegana um leið og heilinn fer að virka almennilega eftir fríið ;)

21 september 2006

Hún Karen Líf skvísa er 8 ára í dag. Til hamingju með daginn elskan mín! Ég sendi bestu kveðjur í Grundarfjörðinn og vona að þú hafir það skemmtilegt í dag :)

20 september 2006

19. september

Stórafmælin koma á færibandi þessa dagana en í gær varð hann Röggi bró 25 ára. Er loksins búin að ná mér í aldri drengurinn ;) Til lukku með daginn elskan mín! Vonandi áttirðu góðan dag :)

18. september


Anna Þóra skvísa varð hvorki meira né minna en þrítug þann 18. september. Hún er í miðjunni á myndinni á góðri stundu með mér og Ásu. Til hamingju með daginn elsku dúllan mín! Vonandi áttirðu góðan dag :)

09 september 2006

Hello, th?s is Marmaris calling!

Hae all?r, er bara ad lata vita af okkur maedgum. Vid komumst afallalaust til Marmaris eftir langt ferdalag. Her er aedislegt ad vera, hitinn fer upp i taepar 40 gradur a daginn og a kvoldin fer hann rett nidur i 30 gradur. Vid erum bunar ad gera helling tessa fyrstu daga okkar her. Forum i skodunarferd i bod? ferdaskrifstofunnar fyrsta daginn og forum svo til Efesus i gaer. Tad var long ferd en hverrar kronu og hverrar minutu virdi. Fyr?r ta sem ekki vita er nuna verid ad grafa upp tridju Efesus borgina og er talid ad hun hafi byggst upp a fyrstu old eft?r Krist. Tad er buid ad grafa upp ca 30 prosent af borginni og tetta eru alveg magnadar fornminjar. Tarna bjuggu medal annars Johannes gudspjallamadur og Pall Postul? og Maria Mey eyddi tarna seinustu aev?arum sinum. Vid skodudum einmitt heimili hennar og tad var olysanlegt!! Madur fylltist lotningu vid ad fara tar inn. Tar er haegt ad tvo ser upp ur helgu vatni og tad ma einnig taka med ser logg i brusum. Tad gerdum vid ad sjalfsogdu og tokum nog til ad haegt vaeri ad skira litla krilid sem a ad koma bradum i heiminn og vonandi nog fyrir naesta barnabarn lika. Hver svo sem a eftir ad koma med tad! Svo erum vid ad sjalfsogdu bunar ad fara i tyrkneskt bad og tad er frabaert!! Madur er skrubbadur og skrubbadur og eg hef aldrei verid jafn hrein eins og eftir tad, svei mer ta. Gaurinn helt tvi lika fram ad eg hefdi orugglega ekki tvegid mer i manud, hehe. Madur faer svo andlitsmaska eftir skrubbid og svo geggjad nudd. Vid vorum tarna i trja tima og komum endurnaerdar ut. Tetta a madur pottthett eftir ad gera oft herna! Svo er bara ad worka tannid naestu daga svo madur komi nu frisklegur heim ;)

Vid viljum svo senda arnadaroskir i Grenibyggdina en hann Haukur a afmaeli i dag. Vid sendum solargeisla i Costa Del Grenibyggd ;)

Vid viljum lika senda okkar innilegustu samudarkvedjur heim i Bolungarvikina. Vid hugsum hlytt til tin elsku Bogga okkar og allrar tinnar fjolskyldu og erum med ykkur i huganum.

30 ágúst 2006

Hann Kristinn Breki á afmæli í dag og er orðinn 7 ára drengurinn. Ótrúlegt hvað börnin eldast alltaf hratt.... Til hamingju með afmælið elsku dúllan mín og hafðu það öfga skemmtilegt í dag :)

28 ágúst 2006

Læknar og sprengjur

Ég fór í fyrsta tékk til læknisins í dag síðan ég útskrifaðist af spítalanum. Það er bara allt í góðu standi og ég þarf ekki annan skammt af lyfjunum mér til mikillar gleði :) Þá á ég bara eftir að hitta hinn lækninn og þá er ég laus úr þessu læknastússi, næsta hálfa árið amk. Ég þurfti að bíða soldla stund á spítalanum í morgun og fór að rifja upp þessa viku sem ég var þar. Maturinn er náttúrulega sér kapítuli, ég hef bara aldrei séð eins undarlega samsetningu á mat og það kom mér á óvart hvað maturinn var í raun óhollur. Alltaf sætt með kaffinu, bæði um miðjan dag og á kvöldin o.s.frv. Það var happa glappa hvort ég gat fengið ávexti þegar ég bað um þá og það fannst mér mjög skrýtið. Að ávöxtum og grænmeti væri ekki haldið að sjúklingunum frekar en kökum og sætabrauði.

Svo var það blessaði stofugangurinn... Báðir læknarnir mínir voru, og eru, alveg frábærir og lítið mál að tala við þá en á stofugangi sá maður strolluna af læknanemum elta lækninn út um allan gang. Svo stóð liðið hálf vandræðalegt og stíft við rúmið hjá manni alveg þangað til það var komið að því að skoða skurðinn. Þá hölluðu sér allir fram til að sjá. Ég hef sjálfsagt verið með svaðalega spennandi skurð. Þetta voru stundir sem ég bókstaflega þoldi ekki þegar ég lá þarna inni og þegar ég horfði á fyrstu seríuna af Grey's Anatomy um daginn fékk ég þvílíkan hroll við að fylgjast með liðinu þar á stofugangi. Svo mikinn að það lá við að ég slökkti bara á þessari vitleysu. Ég skil alveg að það sé nauðsynlegt fyrir læknanema að læra og allt það en þá vil ég ekki sjá nálægt mér eða mínum í framtíðinni. Það er kannski sjens ef það verður bætt inn kennslu í mannlegum samskiptum inn í námið þeirra en pottþétt ekki fyrr.

En jæja, ég ætla að fara að koma mér heim, þetta er búið að vera langur dagur. Ég fór og kenndi seinni hópnum í dag og það gekk bara ágætlega. Þetta eru mjög ólíkir hópar en skemmtilegir á sinn hátt. Mér líst voðalega vel á þetta allt saman og ég held að mér eigi bara eftir að finnast þetta skemmtilegt. En það eru 8 dagar í Marmaris. Ég læt enga vitleysinga með sprengjur hafa af mér sumarfríið ;)

21 ágúst 2006

Mér er kalt!!!

Ég varð að skjalfesta það að mér væri kalt. Í fyrsta skipti síðan áður en ég fór á spítalann er ég að upplifa það að mér er hálfkalt í vinnunni og ég þurfti meira að segja að fara í peysu. Tími hlírabolanna er því greinilega að líða undir lok og ég að verða ég sjálf aftur :D

Laufengi 5

Helginni var eytt í að gera íbúðina heimilislega og var aldeilis spýtt í lófana í gær þegar fréttist að fyrsti gesturinn í gestaherbergið væri væntanlegur í dag. Það hafðist allt saman og það er orðið ansi huggulegt hjá mér bara held ég. Hildur skvís vígir gestaherbergið í kvöld og verður hjá mér út vikuna. Amma er svo væntanleg í næstu viku svo það er bara traffík hjá mér. Mun meiri en var nokkurn tíman í Hafnarfirðinum held ég bara ;) En það er orðið heimsóknarfært þannig að þið höfuðborgarsvæðisrotturnar megið fara að kíkja í heimsókn líka. Svo er úti á landi liðið mitt alltaf velkomið í gestaherbergið ;)

Annars eru 15 dagar í Marmaris :)

19 ágúst 2006

Hann pabbi minn á afmæli í dag. Til hamingju með daginn pabbi minn og hafðu það öfga gott í dag :)

18 ágúst 2006

Flutt!

Fékk lyklana í gær og öll búslóðin var drifin í nýju íbúðina. Stend núna á haus við að þrífa gömlu íbúðina og þessa nýju líka - merkilegt hvernig sumir geta skilað af sér... Ætla ekki nánar útí þau leiðindi hér, ég er allavegana búin að flytja dótið og næstu dagar fara í að gera allt íbúðarhæft :)

15 ágúst 2006

Debet og kredit

Mér datt í hug í einhverju bríaríi að sækja um stundakennslu í bókfærslu í Valhúsaskóla, fékk djobbið og byrja í næstu viku. Þetta eru nú bara 4 tímar á viku, easy peasy, og verður örugglega bara gaman. Ég á að vísu eftir að kíkja þangað og skoða skólann og hitta skólastjórann en það á pottþétt eftir að lífga upp á veturinn að reyna að kynna þá félaga debet og kredit fyrir misáhugasömum 10. bekkingum.....

14 ágúst 2006

Bloggleti

Ég hef ekki verið sú duglegasta í blogginu í sumar og þrátt fyrir að óteljandi pælingar hafi farið í gegnum hugann þá hef ég ekki verið í neinum gír að setja þær hérna inn. Það dóu líka margar heilafrumur í svæfingunni í vor og minnið hefur ekki verið upp á sitt besta í sumar. Sem sést best á því að eftir að ég lærði að breyta um font á blogginu þá man ég aldrei hvaða font ég ætlaði að nota... En nú er farið að styttast í flutninga og ég á að fá afhent á miðvikudaginn. Á að mæta í nýju íbúðina klukkan 3 á miðvikudaginn og ef ég hef engar athugasemdir við fráganginn á íbúðinni fæ ég lyklana þá. Ég er að verða búin að koma búslóðinni ofan í kassa og er farin að iða af spenningi að komast úr Hafnarfirðinum. Lái mér hver sem vill.....

Annars eru bara 22 dagar í Marmaris. Gaman að vera alltaf að telja niður í eitthvað ;)

09 ágúst 2006

Að ári mun ég vakna upp í Vestmannaeyjum..

Er loksins komin til byggða eftir pottþétta þjóðhátíð. Eyjar 2006 voru tær snilld og þið sauðirnir sem mættuð ekki á svæðið misstuð af miklu.

02 ágúst 2006

Ekki á morgun heldur hinn

Bara 2 dagar í þjóðhátíð gott fólk! Hvíta tjaldið fannst og því er allt farið á fullt við að undirbúa mat og annað í tjaldið. Eyjafiðringurinn er orðinn óbærilegur og ég er löngu farin til Eyja í huganum...

31 júlí 2006

Litli púkinn kominn með nafn

Bara stutt blogg eftir frekar annasama helgi. Litli púkinn hennar Öggu fékk nafn á helginni og var nefndur Úlfur Ægir. Til lukku með það litli kútur :) Það er krækja á síðuna hans hérna hægra megin á síðunni fyrir þá sem vilja skoða myndir af honum og lesa um nýjustu afrek hans ;)

26 júlí 2006

Óvissuferð starfsmanns

Og af því að það er svo gaman að hlæja að vitleysum annarra, þá fékk ég afhent gögn í vinnunni í dag vegna óvissuferðar starfsmanns. Það er spurning hvort það hafi verið gaman hjá honum greyinu, einum í óvissuferð... Já það er gaman að hlæja að öðrum, aldrei segi ég svona vitleysu ;)

Mbl stendur fyrir sínu

Hver er munurinn á því að stela og nema vörur á brott án þess að borga fyrir þær? Alltaf þegar maður heldur að Mbl hafi toppað sig þá gera þeir betur....

Annars eru 9 dagar í Þjóðhátíð gott fólk ;)

22 júlí 2006

13 dagar í Þjóðhátíð

Þá er búið að frumflytja þjóðhátíðarlagið í ár og ætti að vera hægt að ná í það á Dalnum í dag. Það er óhætt að segja að lagið sé ekki hefðbundið þjóðhátíðarlag, dáldið blúsað. Ágætis lag við fyrstu hlustun en ég fékk engan fiðring... Það á líka seint eftir að koma lag sem slær út Lífið er yndislegt. En bara 13 dagar til stefnu og ég hlakka svooooooo til :D

18 júlí 2006

Ég er nú bara að blogga í tilefni af því að ég var að læra á þennan blessaða blogger. Ekki slæmt eftir að hafa notað hann í hvað 4 ár.... Hún Agga mín á nú heiðurinn af þessu tækniskrefi hjá mér en hann Sveinbjörn lét mig taka annað tækniskref í seinustu viku þegar ég þurfti að nota USB lykil í vinnunni. Ég er búin að heyra það óspart síðan að ég sé undarleg, sérstaklega þegar fólk heyrir að diskettur hafi dugað mér vel hingað til. Það er svo aldrei að vita nema ég taki mig til og læri á Mp3 spilarann minn, læri jafnvel að sækja tónlist á netið áður en ég fer út í haust. Já, ég er öll í tækniframförunum ;)

En svona í tilefni dagsins eru hérna myndir af mér og Öggu og mér með litla Agnarsmá.


Jei Agga, ég gat!!

17 júlí 2006

Hann Daníel er 11 ára í dag. Ég sendi bestu kveðjur í Grundarfjörðinn og vona að þú hafir það skemmtilegt í dag frændi :)

14 júlí 2006

Oh my oh my segi ég nú bara..... Spurning hvort að eggjahljóðið hætti við þessa frétt...

10 júlí 2006

Jæja, þá er maður kominn í bæinn eftir skemmtilega útileguhelgi þar sem haldið var upp á afmæli Péturs og Fríðu. Ég held að það sé óhætt að segja að allir hafi skemmt sér konunglega þrátt fyrir að fólk hafi vakið mis mikla lukku í kubbakastinu ;) Ég skaust í bæinn á laugardaginn og sýndi íbúðina mína og fór svo aftur í útileguna til krakkanna. Kom svo í bæinn um miðjan dag í gær og dreif mig í sund í góða veðrinu áður en ég fór inn að horfa á leikinn. Læknarnir eru loksins búnir að gefa grænt ljós á sundferðir mér til mikillar ánægju. Ég má reyndar ekki synda en það er ágætt að mega allavegana flatmaga í pottunum ;) Það eru svo allar líkur á því að ég fái ekki aðra lyfjasprautu svo að hitakófin mín hætta vonandi áður en sumrinu lýkur. Þetta verður allt kannað áður en ég fer til Marmaris og ég krosslegg bara fingur fyrir því að það verði jákvætt svo ég hreinlega bráðni ekki þarna úti....

Það er svo mikil vinnutörn framundan næstu vikur áður en ég sting af til Eyja. Bara 24 dagar þangað til ;) Ætli maður nýti ekki frítímann til að pakka niður í kassa og kannski heimsækja litla pjakkinn hennar Öggu. Það er svo aldrei að vita nema maður passi púkanna hennar Dagnýjar inn á milli til að stoppa eggjahringlið ;)

En að lokum sendi ég bestu afmæliskveðjur til Péturs og Fríðu og vona að þau hafi notið þess að eyða afmælisdeginum með okkur vitleysingjunum :)

07 júlí 2006

Bara stutt blogg núna. Ætla í útilegu á morgun með krökkunum um leið og ég er búin að sýna íbúðina á morgun. Bendi svo bara á heimasíðu litla kúts fyrir þá sem vilja skoða myndir. Það er óhætt að segja að það hringli í eggjastokkunum ;)

04 júlí 2006

Til hamingju Agga og Halldór með litla prinsinn :D

Það er ALLTAF rigning í Reykjavík.

03 júlí 2006

Ég er búin að liggja heima í flensu og gat því ekki komið áleiðis tveimur afmæliskveðjum hérna á blogginu.

Hann Njáll varð 16 ára á fimmtudaginn. Ótrúlegt hvað strákurinn eldist á meðan ég er alltaf jafn ung ;) Bestu kveðjur í Grundarfjörðinn og farðu varlega í æfingaakstrinum!

Svo átti hún Hrafnhildur afmæli á föstudaginn. Hún er auðvitað á besta aldri, ekki mikið eldri en Njáll ;) Ég sendi bestu kveðjur heim í Víkina og bið að heilsa öllum :)

Annars er það helst að frétta að það er 31 dagur í Þjóðhátíð, búin að borga í Dallinn og fiðringurinn farinn að gera vart við sig :D Áttunda hátíðin framundan og lífið verður vonandi jafn yndislegt í Dalnum og alltaf. Ég hlakka mikið til að hitta Kidda og Hildi enda allt of langt síðan ég sá þau síðast. Þrítugsafmælisgjafirnar þeirra búnar að bíða upp í hillu síðan áður en ég fór á spítalann.

En jæja, ég ætla að halda á með að vinna. Hafið það gott elskurnar mínar :)

28 júní 2006

Þá er það komið á hreint að ég fæ afhenta íbúðina í seinasta lagi 16. ágúst og afhendi mína þann 21. Allar hjálplegar hendur á þessu tímabili eru vel þegnar ;)

26 júní 2006

Jæja, þá er maður mættur í vinnu á mánudagsmorgni eftir vægast sagt annasama helgi. Við systurnar báðar komnar með kennaraprófið í hendurnar og Þórdís mín komin í hnapphelduna. Það er alltaf gaman að fá að vera hluti af einum mikilvægasta degi í lífi fólks og sjá það ljóma af ánægju. Þetta var alveg yndisleg athöfn og skemmtileg veisla og ég vona það bara að ég eigi eftir að fá að upplifa sömu ánægju og hamingju í framtíðinni og þau skötuhjúin.

Annars er það helst að frétta af mér að ég er að fara að flytja! Ég sótti um Búsetaíbúð í seinustu viku af hálfgerðri rælni, skoðaði hana ekki einu sinni fyrir úthlutunina. Svo fékk ég bara íbúðina og fór og skoðaði og þetta er alveg frábær íbúð á mun betri stað en ég bý á núna. Miklu styttra í vinnuna og svo er ég nær fólkinu mínu líka. Svo að minnz flytur í seinasta lagi um miðjan ágúst svo það er óhætt að segja að hlutirnir gerist hratt og breytist hratt þessa mánuðina. Þetta verður að ég held mitt ellefta heimili og ætla ég að gamni mínu að telja upp staðina sem ég hef átt heima á.

Vitastígur 21, Bolungarvík. Hér er ég fædd og bjó fyrstu árin.
Skólastígur, Bolungarvík. Þarna bjuggum við stutt áður en við fluttum uppeftir.
Hjallastræti 24, Bolungarvík. Húsið mitt, þarna bjó ég í 14 ár.
Suðurgata 29, Reykjavík. Okkar annað heimili í bænum, bjó þarna í 5 ár.
Miðholt 3, Mosfellsbær. Hótel Mamma.
Vesturvallagata. Leigði herbergi hér í nokkra mánuði.
Grandavegur. Bjó um stund hjá Öggu minni áður en ég flutti vestur aftur.
Vitastígur 15, Bolungarvík. Fyrsta heimilið mitt sem ég átti ein :)
Bólstaðarhlíð 46, Rvk. Bjó hér fyrstu 2 árin í Kennó, lengst af með Agnesi.
Miðholt 3, Mosó. Flutti tímabundið aftur heim til mömmu.
Miðholt 3, Hafnarfirði. Bjó hér lengst af með Guðjóni.
Laufengi 5, Rvk. Nýtt heimili og ný tækifæri. Flyt ein í Reykjavíkina.

23 júní 2006

Á einhver annar en ég erfitt með að skilja upphaf þessarar fréttar? Ég held að mbl menn hefðu gott af kúrs í íslensku og jafnvel nokkrum slíkum....

21 júní 2006

Skjótt skiptast veður í lofti.

19 júní 2006

Þá er fyrsti heili vinnudagurinn eftir aðgerðina að verða búin og ég verð að segja eins og er að ég er ekkert að nenna þessu. Skil ekkert í mér að vera búin að ráða mig hérna í heilt ár. En það hefur sína kosti og galla svo sem, verð bara reynslunni ríkari eftir árið. Það verður líka ágætt að komast í rútínu aftur eftir allt þetta veikindastúss. Helgin var nú bara nokkuð viðburðarrík hjá mér, við gæsuðum Þórdísi á föstudaginn og það lukkaðist bara alveg ljómandi vel. Í það minnsta er hún sátt og þá er tilganginum náð :) Ég var bara edrú, var í reddingum allan daginn og var alveg uppgefin þegar ég kom heim en skemmti mér nú samt ljómandi vel. Á laugardaginn var ég svo með smá útskriftarpartý, bara fyrir mína bestustu vini. Það var fámennt en góðmennt og ég kíkti inn á skemmtistað á höfuðborgarsvæðinu í fyrsta sinn á þessu ári! Við kíktum á Players þar sem Vinir Vors og blóma voru að spila. Ég hef ekki oft djammað þar í gegnum tíðina en ég sá ekki betur en að Players hefði tekið við af Kaffi Reykjavík því liðið þarna var eins og liðið á Kaffi Reykjavík þegar sá staður var að verða shubby. En við skemmtum okkur nú samt vel stöllurnar ;)
Það er svo nóg að gera þessa vikuna, útskriftin á laugardaginn og brúðkaupið líka. Svo er hún Agga mín komin á steypirinn og ég er farin að bíða spennt eins og aðrir.

Eitt sem mig langar að athuga hvort að einhver viti, er ekki bara til ein Vanessa Williams? Ég hef alltaf haldið það en ég er ekki að kaupa það að Vanessa Williams sem leikur í Melrose Place sé THE Vanessa Williams. Veit það einhver???

14 júní 2006

Jæja, þá er önnur tilraun í að tékka sig inn. Var búin að skrifa heilmikið en það datt allt út. Bara gaman að því.. Ég er sem sagt komin til byggða eftir afar viðburðaríka ferð á heimahagana um sjómannadaginn. Ég fór á reunion hjá gamla bekknum mínum og skemmti mér konunglega, annað kvöldið allavegana. Ég hló svo mikið að ég reif nánast upp saumana ;) En það var ekki bara gaman, símanum mínum var stolið í flugvélinni á leiðinni vestur svo minnz var sambandslaus við umheiminn þangað til ég kom suður og fékk lánaðan gamla Motorola símann hennar Rakelar. Það er nú ekki alveg besta græja í heimi en hann verður að duga. Það er hins vegar sárt að vera búin að tapa öllum símanúmerum og myndunum sem voru í símanum þannig að endilega sendið mér númerin ykkar ;)

Tíminn líður alveg svakalega hratt þessa dagana og það eru að verða komnar 6 vikur síðan ég var skorin og bara rétt rúm vika í útskriftina. Ég hlakka mikið til að fá prófskírteinið í hendurnar og er bara nokkuð stolt af sjálfri mér að vera búin að klára þetta, sérstaklega þessa önn, en meðaleinkunnin er loksins komin í hús. Náði 8,04 og er að sjálfsögðu í skýjunum með það. Annars er bara vinna og meiri vinna framundan, þangað til í september en þá ætlum við mæðgur að skella okkur saman í afslöppun til Tyrklands í 2 vikur. Ég ætla sko að njóta þess í botn að liggja í sólbaði og lesa og ætla mér ekki að lyfta litla putta á meðan ég er þarna ;)

Röggi bró er að koma heim með hluta af finnsku fjölskyldunni sinni á föstudaginn og það verður öfga gaman að hitta þau. Hann fer að sjálfsögðu með þau beint vestur í sæluna og mér finnst bara verst að komast ekki með. En jæja, ég ætla að fara að halda áfram að vinna. Komið nóg af þessu bulli í mér ;)

06 júní 2006

Þá er hvítasunnuhelgin liðin og það var lítið brallað að þessu sinni. Ég kíkti í afmæli til Ásu á föstudagskvöldið og það var svaka gaman. En sjúklingurinn ég var farinn heim áður en að stelpurnar fóru í bæinn. Var svo alveg úber þreytt eftir þetta útstáelsi á laugardaginn og var hálf sofandi í vinnunni. Það var svo brunað á Snæfellsnesið í ferminguna hans Sigurgeirs á sunnudaginn og það var frábært að hitta þau öll. En það tók á að sitja svona allan daginn og ég var alveg ónýt í gær. Mætti nú samt í vinnu - maður fær ekkert veikindafrí þegar maður vinnur svona hjá mömmu sinni ;) Lagðist svo upp í sófa í gærkvöldi og horfði á Beverly Hills og Melrose Place. Alveg ótrúlegt að maður skildi hafa legið yfir þessu einu sinni! Ég held að 90's tískan sé margfalt verri en 80's tískan - og maður hélt að ekkert toppaði hana! Klæðaburðurinn á liðinu er bara alveg óendanlega hallærislegur!! Eins og þau voru kúl hérna í denn.....

En jæja, er loksins búin að skila öllum mínum fyrirtækjum í vaskinum og get farið að slappa af og hvíla mig. Er að fara vestur á næstu helgi til að fara á reunion hjá gamla bekknum mínum. Það verður eflaust bara gaman :) Ætla líka að njóta þess að borða ömmumat áður en ég hreinlega hverf af yfirborði jarðar en veikindin hafa tekið sinn toll af kílóunum og ég mátti ekki alveg við því. En þangað til næst, hafiði það gott :)

02 júní 2006

Jæja þá er ég búin að fá allar einkunnirnar mínar. Fékk lægst 8 og hæst 9 og er bara nokkuð sátt með það. Fékk 9 fyrir lokaverkefnið og er ég alveg í skýjunum með það. Sú einkunn er að vísu ekki komin inn á netið svo ég er ekki búin að fá meðaleinkunina mína en það er ljóst að hún skríður yfir 8 svo minnz er sáttur :)

Hún Ása Gunnur á afmæli í dag og er orðin 25 ára stúlkan. Til hamingju með daginn elskan mín og hafðu það öfga gott í dag. Sjáumst í kvöld :)

01 júní 2006

Þar sem ég er búin að vera með ,,konuveiki” eins og sumir hafa sagt við mig, þá mæli ég ekkert sérstaklega með því að strákar lesi þennan pistil. Sérstaklega ekki þú Arnar ;) Þetta er ansi langt en ég mæli með því að þið stelpur lesið þetta því það gæti gagnast ykkur.

Ástæða þess að ég þurfti að fara í þessa aðgerð er sú að ég greindist með svokallað legslímuflakk eða endometriosis fyrir þá sem vilja gúgla það ;) Ég hafði nú aldrei heyrt á það minnst þegar læknirinn minn sagði mér hvað væri að mér og áttaði mig í raun ekki á hvað var í gangi fyrr en nokkru seinna. Legslímuflakk þýðir að þegar maður fer á blæðingar þá fer blóðið öfuga leið, þe. út um eggjaleiðarana og inn í kviðarholið í staðinn fyrir að fara sína eðlilegu leið út. Þetta gerist hjá 70-80% kvenna skilst mér en hjá langflestum konum nær líkaminn að vinna úr þessu án þess að þetta verði vandamál. Hjá 2-4% kvenna nær líkaminn hins vegar ekki að brjóta þessa slímhúð niður og hún safnast saman í kviðarholinu og á líffærunum í kringum móðurlífið. Á milli blæðinga reynir líkaminn að eyða þessu út og slímhúðin grær því föst við kviðarholið, líffærin eða þann stað sem það er á en þegar blæðingar eiga sér stað blæðir líka úr þessari slímhúð og hringurinn hefst aftur.

Helstu einkennin eru miklir túrverkir sem ég hef alltaf haft en auk þessa fann ég alltaf verki þegar ég var búin að pissa þegar ég var á fyrstu viku pilluspjaldsins. Ég fór með þvagprufu þegar ég fann fyrst fyrir þessum verkjum sem ekkert kom út úr og ég gerði svo ekkert í þessu í 3 ár, því mér datt ekki í hug hvað gæti verið að eða hvað ég ætti að segja við lækninn. Gleymdi þessu svo alltaf þegar þetta var ekki til staðar. Þessir verkir voru vegna þess að slímhúðin var orðin gróin föst við þvagblöðruna og eina leiðin til að fjarlægja hana var að fjarlægja hluta af þvagblöðrunni. Auk þess var ég með mikið legslímuflakk í kviðarholinu og kringum báða eggjastokkana. Þar sem ég var með svona mikið legslímuflakk þá þurfti stóra aðgerð til að fjarlægja hluta þvagblöðrunnar, skafa af báðum eggjastokkum og brenna burt slímhúðina í kviðarholinu. Venjulega er hins vegar hægt að greina þennan sjúkdóm og fjarlægja hann í sömu aðgerðinni en ég var því miður ekki svo heppin að það væri hægt hjá mér.

Legslímuflakk getur valdið ófrjósemi og 20-30% þeirra kvenna sem ekki geta átt börn eru með þennan sjúkdóm. Það er ekkert sem bendir til annars en að allt sé í gúddí í þeim málum hjá mér en auðvitað er aldrei hægt að segja til um það fyrr en maður reynir að eignast börn. Til þess að minnka líkurnar á því að ég fái þennan sjúkdóm aftur og til að auka líkurnar á því að ég geti eignast börn þá má ég ekki fara á blæðingar fyrr en ég ætla mér að reyna að verða ólétt. Ég las um daginn grein í Blaðinu um að það væri ekki gott fyrir líkamann að sleppa því of oft að fara á blæðingar en allir mínir læknar eru sammála um það að það geri ekkert til. Þegar pillan er tekin í einni beit eða önnur getnaðarvörn notuð eins þá er sama ástand í líkamanum og þegar maður er með barn á brjósti. Konur í dag fara mun oftar á blæðingar en konur gerðu í gamla daga og læknar vilja nú meina að líkaminn sé ekki hannaður fyrir það að vera alltaf á blæðingum og það sé meðal annars skýringin á því að legslímuflakk hefur aukist. Í denn voru konur svo oft óléttar eða með barn á brjósti að þær fóru ekki nálægt því eins oft á túr eins og konur í dag.

Skilaboðin með þessu öllu hjá mér eru þau að fara alltaf til læknis þegar maður finnur verki, jafnvel þó svo maður átti sig ekki á orsökum þeirra. Ekki trassa hlutina svona lengi eins og ég gerði. Og spjalla við vinkonur sínar því maður veit aldrei hver þeirra reynsla er þegar svona prívat mál eru aldrei rædd. Reynsla þeirra sem eru í kringum mann er oft mun meiri viskubrunnur en vitneskja lækna og það hef ég svo sannarlega fengið að kynnast frá öllum mínum vinkonum sem hafa stutt dyggilega við bakið á mér undanfarið. Takk fyrir það stelpur, þið vitið hverjar þið eruð ;)

31 maí 2006

Ég hef ekkert verið að fjalla um það hérna á blogginu af hverju ég þurfti að leggjast inn á spítala og fara í þessa aðgerð. Ég hef verið að hugsa það hvort ég eigi að vera að tala um það á eins opinberum vettvangi og netið er því að svona veikindi eru alltaf prívat mál. Þórdís vinkona benti mér hins vegar á um daginn að sum mál eru aldrei rædd þegar einmitt nauðsynlegt er að ræða þau. Að vissu leyti má heimfæra það á mín veikindi og ég ætla að skella inn færslu um þau á morgun. Það er vonandi að það eigi eftir að hjálpa einhverjum sem er eða á eftir að ganga í gegnum það sama.

En svona til gamans er hérna íslenskur texti við lagið Beautiful með James Blunt, bara fyndinn ;)


Líf mitt er frábært, ást mín er hrein

ég sá engil, ég er viss um það.

Hún brosti til mín í neðanjarðarlestinni

hún var með öðrum manni

en ég mun ekki missa svefn yfir því, því ég er með áætlun.


Þú ert falleg, þú ert falleg, þú ert falleg, það er satt.


Ég sá andlitið þitt á fjölförnum stað

og ég veit ekki hvað ég á að gera

af því ég mun aldrei vera með þér.


Já, hún náði auganu mínu, þegar ég labbaði hjá,

hún gat séð í andliti mínu að ég var RÍÐANDI HÁR.

Og ég held ekki að ég muni sjá hana aftur

en við áttum stund sem mun endast að eilífu.


Þú ert falleg, þú ert falleg, þú ert falleg, það er satt.


Ég sá andlitið þitt á fjölförnum stað

og ég veit ekki hvað ég á að gera

því ég mun aldrei vera með þér.


Þú ert falleg, þú ert falleg, þú ert falleg, það er satt.


Það hlýtur að vera engill, glottandi út í bæ.

Þegar hún hugsaði það upp að ég ætti að vera með þér.


En það er kominn tími til að andlita sannleikann.

Ég mun aldrei vera með þér.

30 maí 2006

Þá eru kosningarnar búnar og ég kaus í Bolungarvík í síðasta sinn - í bili allavegana. Það er alltaf jafn skondið að fylgjast með viðbrögðum frambjóðenda eftir að úrslit verða ljós og hlusta á yfirlýsingar þeirra um að þeir hafi unnið góðan sigur, varnarsigur eða það sem þeim dettur í hug að kalla niðurstöðurnar - þrátt fyrir að hafa jafnvel bara skíttapað. Það fauk hins vegar í mig að lesa viðbrögð Elíasar Jónatans við kosningaúrslitunum heima. Þar missti íhaldið meirihlutann í bæjarstjórninni í fyrsta sinn held ég bara (þori samt ekki að fullyrða það) og ástæður þess má að sjálfsögðu rekja til framboðs Önnu Ed. eins og Elías sagði. En það sem varð til þess að fauk í mig var þegar Elías sagði að íhaldið hefði nú fengið 58% atkvæða ef framboð Önnu Ed hefði ekki komið til og eignaði þar með sjálfstæðisflokkinum öll atkvæði A-listans. Það er hins vegar afar hæpið hjá honum að eigna sér þessi atkvæði. Miðað við úrslitin 2002 tók A-listinn 12% af íhaldinu og 8% af K listanum. Þrátt fyrir að A-listinn hafi verið klofningsframboð frá íhaldinu þá var þetta fyrst og fremst persónulegur sigur Önnu Ed og ég held að það sé afar hæpið fyrir báða hina listana að halda því fram að þeir hafi ,,átt" atkvæðin sem fóru þangað. Það er nefnilegast þannig í pólitík að maður á aldrei atkvæði, maður verður að vinna fyrir þeim. Þar sem sitjandi meirihlutar unnu góða sigra, t.d. í Hafnarfirði og Keflavík, höfðu menn einfaldlega verið að vinna vel og fengu því góða kosningu aftur.

Ég kaus A-listann heima einfaldlega af því að ég hef trú á Önnu Ed til að rífa bæjarfélagið upp og gera það sem þarf að gera. Ég yrði ekki hrifin af því ef hún myndaði meirihluta með íhaldinu en það kæmi mér svo sem ekkert á óvart. Íhaldið getur því ekki eignað sér mitt atkvæði þó svo það hafi fallið hjá A listanum að þessu sinni og K listinn á það ekki heldur. Ég á nefnilegast mitt atkvæði og minn rétt til að kjósa sjálf og atkvæðið mitt fæst ekki gefins nema menn hafi sannarlega unnið fyrir því.

26 maí 2006

Jæja, ég er auðvitað löngu komin heim af spítalanum, alveg tvær vikur síðan. Það eru hins vegar svo svaðalega öflugir eldveggir í tölvunum hjá mér og mömmu að ég kemst ekki inn á blogger í þeim. Núna er ég orðin ágætlega rólfær og skaust niðrí vinnu til að fara á einn fund og blogga smá.

Í gær voru þrjár vikur síðan ég var skorin og það er óhætt að segja að allt hafi gengið glimrandi vel. Ég er hætt á öllum verkjalyfjunum og kláraði sýklalyfjakúrinn í gær. Það var sett upp hjá mér forðalyf í aðgerðinni sem er virkt í þrjá mánuði en ég hef fundið lítið fyrir aukaverkunum af því hingað til sem betur fer. Það er aðallega að ég fái hitaköst og það er alveg ný upplifun fyrir mig að geta ekki sofið af því að ég er að drepast úr hita! Það kemur svo í ljós eftir rúma 2 mánuði hvort ég þurfi annan skammt af þessu lyfi en ég er að vona að ég sleppi við það. Það eru svo þrjár vikur í að ég megi fara að gera eitthvað af viti og víst ennþá lengra í að ég nái upp almennilegu þoli. En leiðin er bara upp á við héðan í frá :)

En jæja, ég ætla að koma mér heim og hvíla mig því ég er að fara í búðarráp með Kollu á eftir. Kíkið endilega á bloggið hans Rögga bró sem virðist vera að vakna frá dauðum ;)

01 maí 2006

Jæja, það er víst löngu kominn tími til að blogga. Það er farið að líða að aðgerðinni og ég fer undir hnífinn á fimmtudaginn. Ég verð á deild 13-D á Landsspítalanum við Hringbraut og ekki einungis má heldur hreinlega Á að koma að heimsækja mig ;) Mér hefur verið sagt að heimsóknartímarnir séu sveigjanlegir en það verður ekki hægt að koma í heimsókn fyrr en ég er komin af vöknun og það verður líklegast ekki fyrr en á föstudaginn. Ég veit ekki annað en ég fái að vera með símann minn svo það er hægt að senda sms eða hringja frá og með föstudeginum. Ég fer svo heim til mömmu þegar ég útskrifast af spítalanum og verð þar að jafna mig fyrst um sinn. Að sjálfsögðu er heimsóknarskylda þangað líka ;) Góðar bækur og DVD myndir og seríur eru vel þegnar þar sem fyrir liggur að ég verði lítið rólfær næstu 3 vikur.

Annars segi ég bara hafiði það gott elskurnar mínar, ég blogga næst þegar ég verð komin heim af spítalanum.

20 apríl 2006

Dagný á afmæli í dag. Er á besta aldri stúlkan. Til hamingju með daginn elskan mín og hafðu það öfga gott í dag :)

Við hina segi ég bara gleðilegt sumar :)

10 apríl 2006

Jæja, þá er maður loksins farin að sjá fyrir endann á lokaritgerðinni. 40 blaðsíður komnar, búið að setja upp heimildaskrá og bara frágangur eftir. Við ættum að klára það á morgun og svo notum við tímann eftir páska til að fínisera enn frekar. Ég ætla að njóta þess í botn að slappa af á miðvikudagskvöldið þegar við verðum búnar að skila ;)

Þá taka reyndar páskarnir við með öllu sínu annríki. Ég þarf náttúrulega að vinna alla páskana - aldrei frí í þessu bókhaldi - og svo þarf að klára þrjá kúrsa. Það er komin dagsetning á aðgerðina hjá mér svo það liggur á að klára þetta. Ég leggst sem sagt undir hnífinn 4. maí og eftir páska byrja speglanir, ómanir og alls konar skoðanir til að undirbúa aðgerðina. Svo þarf víst að þrífa heimilið sem hefur fengið að sitja á hakanum í öllum lærdómnum undanfarið svo ég sé ekki að pirra mig á því á meðan ég á að taka því rólega heima svo það verður yfirdrifið nóg að gera fram að 4. maí. Ég slappa svo bara af á spítalanum og skipa Guðjóni fyrir þegar ég kem heim ;)

Það er svo sem ágætt að dagsetningin sé komin á hreint, þá getur maður farið að skipuleggja sumarið. Ég missi af þrítugsafmælunum hjá Kidda og Hildi en ég verð bara að fara til þeirra seinna. Næ því vonandi fyrir þjóðhátíð! Ég ætti hins vegar að verða orðin góð þegar verður kominn tími til að gæsa Þórdísi svo ekki á hún von á góðu ;) Annars eru allar góðar bækur þegnar með þökkum og ég tala nú ekki um ef einhver á góðar seríur á DVD - svona til að hafa ofan af fyrir mér á spítalanum. Ég tala nú ekki um ef einhver nennir að hanga hjá mér og hjálpa mér að prjóna ;)

En jæja, ég er orðin dofin í hausnum eftir daginn og ætla að fara að koma mér upp í rúm.

03 apríl 2006

Jamm og jæja, varð bara að blogga til að nótera afar merkilegan atburð. Þegar ég kom heim úr vinnunni beið mín fallegur blómvöndur frá honum Guðjóni mínum - svona af því að ég hef verið svo hress undanfarið eða þannig... Ég stjanaði hins vegar við hann í kvöldmatnum og hann hefur setið óáreittur í tölvunni í allt kvöld svo kannski ég fari að fá blóm oftar ;)

Annars er bara stress og aftur stress. 9 dagar í skil á lokaritgerðinni og hún ekki komin nálægt því eins langt og planið var, ég þarf að mæta í skólann á morgun í þráðavinnu og er búin að liggja yfir þæfingunni sem ég átti að klára heima. Það var að bætast á okkur enn eitt verkefnið í upplýsingatækni - kennarinn er ekki ennþá dauður af hikstanum - sem er með deadline í dag en ég ætla að gefa skít í það fram yfir skilin á lokaverkefninu. Svo þarf að velja sér kjörbók í enskunni og skutla einni ritgerð fram úr erminni. Geri það um páskana. Svo er vaskur á miðvikudaginn og allir að fara yfir um í vinnunni. Þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég hef verið grumpy undanfarið. Ég er hins vegar að spá í að skella mér í heitt og gott bað svo kallinn minn fái að sjá góðu hliðarnar mínar í bíttum fyrir blómin ;)

29 mars 2006

Hún mamma á afmæli í dag og það ekkert smá afmæli, orðin fimmtug kellan. Til hamingju með daginn elsku mamma mín og hafðu það alveg svakalega gott í dag :)

26 mars 2006

Jæja, fannst kominn tími á að líta upp úr bókunum og láta vita að ég væri á lífi ;) Það styttist óðfluga í skilafrestinn á lokaritgerðinni og flestir kúrsarnir sem ég er í klárast í vikunni. Það verður útskriftarveisla hjá okkur í heimilisfræði á morgun. Við ætlum að hafa tapasveislu og spænskt þema og það verður vonandi bara gaman. Þetta er seinasti tíminn í matreiðslunni en á föstudaginn lýkur önninni í öllum kúrsum hjá útskriftarnemum. Ég á reyndar ennþá eftir að klára þæfingarkúrsinn af því að hann er í raun fyrir annars árs nema en ég ætti að geta ýtt því á undan mér fram að páskum. Eftir páska verður svo no more school for me :D

Þá fer ég hins vegar að undirbúa mig fyrir stóra aðgerð sem ég þarf víst að fara í. Ég þarf víst að liggja inn á spítalanum eftir hana í viku hið minnsta og taka því svo rólega heima næstu 6 vikurnar. Bara gaman að því.... Ég get ekki sagt að ég sé spennt en það þýðir ekkert að tala um það. Ég verð bara fegin þegar þetta verður búið. Það er hins vegar skylda að dekstra við mig til að ég gangi ekki af göflunum á meðan á þessu stendur ;)

En jæja, enskuverkefnið kallar. Þarf svo að kíkja til hennar Öggu minnar að skila fötum. Later.

20 mars 2006

Mbl stendur alltaf fyrir sínu... Það er spurning hvernig söngvörur eiga eftir að slá í gegn í Rockstar...

19 mars 2006

Jæja, þá er orðið langt síðan að ég bloggaði síðast - enda hef ég haft nóg á minni könnu. Dagný systir var gestur númer 7437 og henni verður boðið í mat ásamt fjölskyldunni við fyrsta tækifæri ;)

Tíminn undanfarið hefur farið í lærdóm og aftur lærdóm. Við Ása fórum í bústað á seinustu helgi til að vinna í lokaverkefninu. Við komumst vel af stað þar og vonandi á þetta eftir að skotganga hjá okkur. Ég er líka að reyna að klára lærdóm í öðrum fögum sem fyrst og það gengur ágætlega. Svo er bara að hugsa um heilsuna en ég er að jafna mig eftir speglun sem ég fór í fyrir helgi. Það hefur bara gengið vel og ég hef það bara fínt þó svo að saumarnir taki stundum í. Ég þarf svo að fara í aðra aðgerð í framhaldinu af þessari speglun en ég veit lítið um það hvernig það verður eins og er. Það er því bara best að einbeita sér að því að læra svo maður megi við því að standa í þessum veikindum. En talandi um lærdóm þá bíður eitt verkefni eftir mér sem á að skila á morgun og önnur eru þegar farin að banka á dyrnar þannig að ég ætla að fara að læra. Hafið það gott þangað til næst elskurnar mínar, bleble.

03 mars 2006

Jæja, sit hérna og er að reyna að læra á föstudagskvöldi. Sé eftir því að hafa ekki farið með Guðjóni í Þorlákshöfn á leikinn sem Stjarnan vann nota bene, 82-81. Ég skellti mér hins vegar í smá göngutúr og hljóp tröppurnar ,,mínar". Það verður víst að styrkja rassinn áður en hann fer að sópa gólfin ;) Ég fór í klippingu í fyrradag og endaði á að klippa hárið stutt - Guðjóni til ekkert svakalega mikillar gleði :p En þetta vex aftur og þó svo ég sé ekki alveg búin að melta hvernig ég fíla þetta þá er þetta fín tilbreyting :)

Anyhow, það hefur tíðkast á þeim bloggum sem ég skoða að verðlauna gesti númer 5.000, 10.000 o.s.frv. Teljarinn minn er hins vegar í Bolungarvíkurnúmerum þessa dagana og ég ætla því að elda góðan mat handa þeim sem verður númer 7437 - sem er gamla símanúmerið okkar fjölskyldunnar fyrir þá sem ekki vita. Það voru nefnilegast bara fjögurra stafa símanúmer á Vestfjörðum þegar minnz var ungur. Það þarf svo að kvitta fyrir komuna í kommentkerfinu til að geta rukkað vinningin ;)

28 febrúar 2006

Hann Sigurgeir Sturla er 14 ára í dag. Ótrúlegt hvað hann er orðinn fullorðinn drengurinn. Ég sendi mínar bestu afmælisóskir í Grundarfjörðinn og hafðu það gott í dag frændi :)

27 febrúar 2006

Jæja, ætli það sé ekki kominn tími á annað blogg en klukk og afmæliskveðjur! Það er þó vert að taka fram að þó svo að afmæliskveðjan til Hjördísar hafi horfið sporlaust af blogginu og ekkert til hennar spurst þá stendur hún ennþá ;)

Við skötuhjúin höfum haft það rólegt og huggulegt undanfarið. Guðjón spilar tölvuleiki og ég læri. Það hafa verið afmælisboð í röðum undanfarið og svo höfum við Ása verið að prófa uppskriftir í heimilisfræði svo Guðjón hefur fengið mikið gott að borða. Ég mæli t.d. með þessum tortilla turni. Við reyndar minnkuðum laukinn um helming og settum bara eina papriku en þetta er allt smekksatriði. Þetta er allavegana voðalega gott! Það verða annasamir tímar í skólanum næstu tvo mánuði en þá verður þetta líka búið allt saman og minnz loksins orðinn kennari. Það verður svo að koma í ljós hvað ég geri við þá menntun en það stefnir allt í að ég verði að vinna áfram hjá mömmu, allavegana fyrst um sinn.

Á laugardaginn erum við að fara á árshátíð hjá Anza, vinnunni hans Guðjóns. Hún verður í Haukaheimilinu svo það verður stutt að fara fyrir okkur. Amma kemur svo á sunnudaginn og það verður voða gaman að fá hana í bæinn :) Svo er stefnan tekin á sumarbústað í næstu viku til að taka vinnutörn í lokaverkefninu. Það veitir víst ekki af því.

En jæja, ég er alveg tóm í haus eftir að hafa verið að vinna í upplýsingatækni í allan dag. Ekki beint uppáhaldsfagið mitt.... Svo er OC í sjónvarpinu og þá vill heilastarfsemin fara á þeirra level ;) Ég skrifa meira þegar ég er aktífari í hausnum.

17 febrúar 2006

jæja, enn eitt klukkið.... Merkilegt hvað maður finnur sér alltaf tíma til að gera svona..


Hefur þú...

( ) reykt sígarettu
( ) klesst bíl vinar/vinkonu
( ) stolið bíl
(x) verið ástfangin/n
(x) verið sagt upp af kærasta/kærustu
( ) verið rekin/n
( ) lent í slagsmálum
(x) læðst út meðan þú bjóst ennþá heima hjá foreldrunum.
(x) haft tilfinningar til einhvers sem endurgalt þær ekki
( ) verið handtekin/n
( ) farið á blint stefnumót
( ) logið að vini/vinkonu
(x) skrópað í skólanum
(x) horft á einhvern deyja
( ) farið til Canada
( ) farið til Mexico
(x) ferðast í flugvél
( ) kveikt í þér viljandi
(x) borðað sushi
( ) farið á sjóskíði
(x)farið á skíði

(x) hitt einhvern sem þú kynntist á internetinu
(x) farið á tónleika
(x) tekið verkjalyf
(x) elskar einhvern eða saknar einhvers akkurat núna
(x) legið á bakinu úti og horft á skýin
(x) búið til snjóengil
(x) haldið kaffiboð
(x) flogið flugdreka
(x) byggt sandkastala
(x) hoppað í pollum
( ) hoppað í laufblaðahrúgu
(x) rennt þér á sleða
(x) svindlað í leik
(x) verið einmanna
( ) sofnað í vinnunni/skólanum
( ) notað falsað skilríki
(x) horft á sólarlagið
(x) fundið jarðskjálfta
(x) sofið undir berum himni (ef tjald telst með!)
(x) verið kitluð/kitlaður
( ) verið rænd/rændur
(x) verið misskilin/n
( ) klappað hreindýri/geit/kengúru
(x) farið yfir á rauðu ljósi/virt stöðvunaskyldu að vettugi
( ) verið rekin/n eða vísað úr skóla
(x) lent í bílslysi
( ) verið með spangir/góm
(x) liðið eins og þú passaðir ekki inn í/þriðja hjól undir vagni
( ) borðað líter af ís á einu kvöldi
(x) fengið deja vu
( ) dansað í tunglskininu
(x) fundist þú líta vel út
( ) verið vitni að glæp.
(x) efast um að hjartað segði þér rétt til
( ) verið gagntekin/n af post-it miðum
( ) leikið þér berfætt/ur í drullunni
( ) verið týnd/ur
(x) synt í sjónum
( ) fundist þú vera að deyja
(x) grátið þig í svefn
(x) farið í löggu og bófa leik
( ) litað nýlega með trélitum
(x) sungið í kariókí

(x) borgað fyrir máltíð eingöngu með smápeningum
(x) gert eitthvað sem þú lofaðir sjálfri/sjálfum þér að gera ekki?
(x) hringt símahrekk
(x) hlegið þannig að gosið frussaðist út um nefið á þér?
(x) stungið út tungunni til að ná snjókorni
(x) dansað í rigningunni
(x) skrifað bréf til jólasveinsins
( ) verið kysst/ur undir mistilteini
( ) horft á sólarupprásina með einhverjum sem þér þykir vænt um
(x) blásið sápukúlur
( ) kveikt bál á ströndinni
(x) komið óboðin/n í partý
( ) verið beðin/n um að yfirgefa partýið sem þú komst óboðin/n í
(X) farið á rúlluskauta/línuskauta
(x) hefur einhver óska þinna ræst
( ) fariðí fallhlífastökk...


( ) hefur einhver haldið óvænt boð fyrir þig... nei því miður - mætti alveg gera það:)


Jæja, ég klukka Ásu Pjásu, Ellu og Rögga bró

13 febrúar 2006

Jamm og jæja, kominn tími á blogg. Það er mest lítið að frétta eins og venjulega. Ég strögglast við að lesa blessaðar skólabækurnar, hef sjaldan eða aldrei verið haldin eins miklum skólaleiða. Ég ætla mér hins vegar að harka þetta af mér - enda ekki nema 2 og hálfur mánuður í lokaskil lokaverkefnis. En mikið svakalega verð ég fegin þá! Það eru allir að spurja mig hvort ég ætli ekki að fara að kenna en ég verð að viðurkenna það að í augnablikinu er ég ekkert spennt fyrir því. Veit hreinlega ekkert hvað mig langar til að gera eftir skólann. Það verður bara að koma í ljós með hækkandi sól ;)

Við skötuhjúin fórum og skoðuðum tvær Búsetaíbúðir á helginni. Eina á Nesinu og hina í Setbergshverfinu hérna í Hafnarfirðinum. Ekki það að við höfum það ekki ágætt hérna en íbúðin gæti verið dálítið mikið betur staðsett og kannski betur skipulögð líka. Samt er ég alveg á báðum áttum hvort við eigum að vera að standa í flutningum, kemur fólk nokkuð frekar í heimsókn til manns þó svo að maður búi einhvers staðar annars staðar? Kæmuð þið gott fólk, frekar í Setbergshverfið heldur en hingað í Holtið? Það á náttúrulega að fara að opna Ikea þarna rétt hjá - það myndi kannski ýta við sumum :p Það er náttúrulega alls ekki víst að við fáum þessar íbúðir enda hefur aðsóknin í Búseta aldrei verið meiri. Ég hef samt mikið verið að pæla í þessu, hvað við myndum græða á því að flytja og hvort maður myndi hitta fólk meira. Og líka hvað tengsin við vinina slitna með árunum. Erum við virkilega orðin svona gömul krakkar?? Ég legg allavegana til að stofnaðir verði matarklúbbar og saumaklúbbar og alls konar klúbbar bara til að við hittumst nú allavegana annað slagið - hvort sem við búum í Mosó eða Hafnarfirði. Hvað segiði um það??

Anyhow, við Guðjón vorum að láta okkur leiðast á laugardagskvöldið og enduðum á vídeóleigunni eins og svo oft áður. Þar duttum við niðrá mynd sem heitir What the Bleep do we know? og fjallar um tilgang lífsins og hvernig maður getur stjórnað sínu eigin lífi. Þetta er samt ekki andleg mynd heldur byggir hún á skammtafræði - sem er grein innan eðlisfræðinnar. Soldið djúpt á laugardagskvöldi kannski.. en við sátum allavegana límd. Þetta er nefnilegast alveg stórmerkileg mynd og er vel virði 550 kr og 90 mínútna af tíma manns. Svo nú mæli ég með að allir skelli sér út á leigu og nái í þessa mynd!

11 febrúar 2006

Jæja, hún Ella klukkaði mig og þar sem ég á að vera að læra núna fannst mér alveg tilvalið að gera þetta bara í staðinn ;)

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

- Skýlið

- Hagkaup

- Kaffi Reykjavík

- Grunnskóli Bolungarvíkur

Fjórar bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur:

- Stella í orlofi

- Fast and the Furious

- Taxi

- Notting Hill

Fjórir staðir sem ég hef búið á:

- Bolungarvík

- Hafnarfjörður

- Mosfellsbær

- Reykjavík

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

- Sex and the City

- Alias

- House

- Desperate Housewives

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

- Vestmannaeyjar

- Hornstrandir

- Finnland

- Bandaríkin

Fjórar síður sem ég skoða daglega (fyrir utan blogg):

- mbl.is

- bb.is

- khi.is

- visir.is

Fernt matarkyns sem ég held upp á:

- mexikóskur matur

- kjúklingur

- pasta

- Ísafjarðar skyr a la amma

Fjórar bækur sem ég les oft:

- Harry Potter

- skóladagbókin

- bækur eftir Arnald Indriða

- úff, les svo sorglega lítið þessa dagana....

Fjórir staðir sem ég myndi heldur vilja vera á núna:

- í sundi einhvers staðar þar sem er hlýtt

- Bolungarvík

- úti í góða veðrinu

- á flippi í góðri fatabúð með sand af seðlum

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

- Dagný systir

- Ása Gunnur

- Hjördís

- Pétur Marel - til að lífga við bloggið hans ;)

03 febrúar 2006

Jæja, Guðjón er á æfingu og mér datt í hug að drífa mig í að skella nokkrum orðum inn á bloggið. Janúarmánuður hefur verið erilsamur og varla hægt að segja frá öllu hér. Af skólanum er það að frétta að lokaverkefnið er að komast vel af stað hjá okkur og ég er bara mjög spennt að fara út í þá vinnu. Matreiðslan gengur bara ljómandi vel og ég er ekki frá því að ég sé upprennandi kokkur ;) Ég hætti hins vegar í prjóninu, ekki af því að það væri ekki skemmtilegt heldur hafði ég einfaldlega ekki tíma fyrir það. Ég er þó að dunda mér við að prjóna vettlinga undir dyggri aðstoð tengdó. Ég er hins vegar að mygla í enskunni og er farin að hlakka mikið til að klára þennan blessaða skóla.

Það er hins vegar búið að breyta útskriftardagsetningunni mér til mikils ama. Við fengum sendan tölvupóst með tilkynningu um það. Stjórnendur skólans sáu svo ekki ástæðu til að svara kvörtunum nemenda fyrr en við hótuðum að fara með málið í blöðin. Þá var haldinn fundur með nemendum - já eða staðnemum, fjarnemar virðast vera eitthvað aukaatriði í þessum skóla - og það kom ekkert út úr honum og rektor er einfaldlega ekki til viðtals um þessi mál. Maður er alveg ótrúlega sár og reiður út í stjórnendur skólans fyrir þessi vinnubrögð og það er alveg klárt mál að ég kem ekki til með að mæta í útskriftina. Enda ber hann upp á brúðkaupsdegi Þórdísar og Tomma og löngu planað að ég mæti þar! Mig langar hins vegar til að halda upp á það að ég sé að útskrifast og hvað maður gerir í því verður bara að koma í ljós. Það koma ekki margir dagar til greina, annað hvort held ég bara upp á þetta 10. júní eins og ætlað var í upphafi eða 8. júlí...

En jæja, það er ágætt að fá að blása aðeins. Það er svo sem margt annað búið að vera í deiglunni hjá mér en fólk verður bara að kíkja í heimsókn í Hafnarfjörðinn til að fá frekari fréttir ;)

02 febrúar 2006

Hún Kolla frænka mín á afmæli í dag. Til hamingju með daginn elsku Kolla mín!! Vonandi ertu búin að hafa það öfga gott í dag :)

21 janúar 2006

1. Hver ert þú?
2. Erum við vinir?
3. Hvenær hittumst við fyrst og hvernig?
4. Ertu hrifinn af mér?
5. Langar þig að kyssa mig?
6. Gefðu mér gælunafn og útskýrðu afhverju þú valdir það.
7. Lýstu mér í einu orði.
8. Hvernig leist þér á mig þegar þú sást mig fyrst?
9. Líst þér ennþá þannig á mig?
10. Hvað minnir þig á mig?
11. Ef þú gætir gefið mér eitthvað hvað myndi það vera?
12. Hversu vel þekkirðu mig?
13. Hvenær sástu mig síðast?
14. Hefur þig einhvern tímann langað til að segja mér eitthvað en ekki getað það?
15. Ætlarðu að setja þetta á bloggið þitt svo ég geti skrifað um þig?

16 janúar 2006

Aðeins um lokaverkefnið. Eins og hefur komið fram hérna áður ætlum við að skrifa um stelpur og stelpnamenningu, hvernig samskipti eru innan stelpnahópa og hvernig stelpur nota félagslega útilokun til að leggja í einelti. Fyrir þá sem vilja kynna sér efnið nánar bendi ég á bókina Queen Bees and Wanna Bees eftir Rosalind Wiseman en myndin Mean Girls með Lindsey Lohan í aðalhlutverki byggir á þeirri bók. Wiseman hefur stofnað Empower verkefni í Bandaríkjunum sem stefnir að því að efla sjálfstraust og sjálfsmynd unglinga og gera þá hæfari til að takast á við daglegt líf. Það hefur hins vegar lítið sem ekkert verið fjallað um þetta efni hér á landi og það er markmið okkar að vekja athygli á þessu málefni og vekja fólk til umhugsunar um hvað er hægt að gera fyrir íslensk ungmenni. Til að gera verkefnið sem best eru allar athugasemdir og reynslusögur eru vel þegnar og óskast þær sendar á erlakris@khi.is. Að sjálfsögðu verður farið með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Jæja, það er mikið vatn runnið til sjávar síðan ég skrifaði inn síðast. Ég ætla ekki að tjá mig mikið frekar um DV málið, ég var ánægð með uppsögn ritstjóra blaðsins en ég bíð spennt eftir að sjá hvernig nýjir ritstjórar eiga eftir að höndla starfið. Ummæli annars þeirra um að siðareglur Blaðamannafélagsins væru úreltar fengu mig ekki til að sofa betur. Í mínum huga er siðferði ekki eitthvað sem úreldist. Aðgát skal ávallt höfð í nærveru sálar og ef eitthvað er eru siðareglur mikilvægari nú en þær hafa verið.

En að öðru. Skólinn er kominn á fullt og lokaspretturinn í náminu hafinn. Ég er skráð í 17 einingar, ekki af því að mig vanti einingar til að útskrifast í vor heldur tók ég nett flipp í skráningu í val áfanga. Núna stend ég í hátíðarmatreiðslu fyrir hádegi á mánudögum og borða sannkallaðan jólamat í hádeginu. Í dag var það humarsúpa ;) Á þriðjudögum sit ég og prjóna. Hún Dóra Lína ætti að sjá mig núna ;) Hvað þá Unnur! ;) Aðra áfanga tek ég í fjarnámi, enskuna hjá Samuel og upplýsingatæknina hjá Michael. Núna á stelpan að fara að búa til heimasíðu, gagnvirk próf og fleira nytsamlegt við tungumálakennslu. Enda er á stefnuskránni að vera uber góð við Guðjón svo hann hjálpi mér nú þegar ég verð komin í ógöngur ;) Síðan þarf ég að spekúlera í efnum, læra að þæfa og prjóna örvhent í efnisfræði og þæfingarkúrsinum sem ég er í. Og lokaverkefnið sem er allt önnur saga.

Annars er bara allt gott í fréttum úr Hafnarfirðinum. Við skötuhjúin höfum það bara ljómandi fínt þó svo að lítið fari fyrir óvæntum heimsóknum ;) Tengdapabbi droppaði hérna inn um daginn og okkur varð svo mikið um þegar dyrabjallan hringdi að við fengum nánast hjartaáfall. Datt varla í hug að fara til dyra því það væri örugglega verið að ýta á vitlausa bjöllu. En hann fékk samt sem áður góðar móttökur loksins þegar við föttuðum að það væri í alvörunni einhver að dingla hjá okkur. Það er svo vonandi að fleiri prófi þetta á næstunni, alltaf góðar móttökur í Hafnarfirði ;)

11 janúar 2006




Ég hvet alla til að styðja þetta framtak og mótmæla siðlausri ritstjórnarstefnu DV. Í mínum huga er meira en nóg komið. Góður fjölskylduvinur er genginn á vit feðra sinna vegna ábyrgðar- og siðleysis þessara manna. Stöndum saman og útrýmum sorpblaðamennsku á Íslandi!

09 janúar 2006

Always full of surprises....





You Are 26 Years Old



Under 12: You are a kid at heart. You still have an optimistic life view - and you look at the world with awe.



13-19: You are a teenager at heart. You question authority and are still trying to find your place in this world.



20-29: You are a twentysomething at heart. You feel excited about what's to come... love, work, and new experiences.



30-39: You are a thirtysomething at heart. You've had a taste of success and true love, but you want more!



40+: You are a mature adult. You've been through most of the ups and downs of life already. Now you get to sit back and relax.

Jæja, er ekki málið að gera upp gamla árið í nokkrum punktum ;)


Ég flutti úr Bólstaðarhlíðinni og heim til mömmu
Ég fór til Helsinki að heimsækja Rögga bró
Ég byrjaði með Guðjóni mínum
Ég flutti frá mömmu aftur og í Hafnarfjörðinn
Þjóðhátíð í sjöunda sinn - úje
Seldi elsku Corolluna mína og fékk mér Yaris
Fór með Guðjóni í surprise ferð til ömmu
Kláraði heil tvö vettvangsnám - þau seinustu á námsferlinum ;)


Já, ég held að þetta sé árið 2005 í meginatriðum. Er ég að gleyma einhverju??